Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Moldnúpur

Verkakonan, vefarinn, ferðalangurinn og fjósakonan Sigríður Anna Jónsdóttir fæddist að Gerðarkoti   undir Vestur-Eyjafjöllum hinn 20. janúar 1901, en seinna um vorið fluttust foreldrar hennar að Moldnúpi í sömu sveit. Hún batzt staðnum sterkum böndum og kenndi sig ævinlega við hann. Hún ólst þar upp við leik og hefðbundin sveitastörf, en jafnframt mikla menningu, bóklestur og samræður. Sem unglingur sótti Anna einnig sjóróðra með föður sínum undan suðurströndinni og þótti ætíð vænt um þá lífsreynslu.

Anna hlaut átta vikna farkennslu á vetri frá 10 til 14 ára aldurs. Þá sótti hún námskeið í vefnaði og var farin að vefa fyrir fólk strax á unglingsaldri. Þegar Héraðsskólinn á Laugarvatni tók til starfa, opnaðist Önnu möguleiki á frekara námi, og hún var þar í efri bekk veturinn 1929-1930. Til að fjármagna námið tók Anna 400 króna víxil. sem hún fékk föður sinn og bróður til að ábyrgjast fyrir sig og kallaði heimanmund sinn.

En menntunarþránni var ekki fullnægt veturinn á Laugarvatni. Að honum loknum hélt Anna til Reykjavíkur og hóf utanskólanám við Lærða skólann jafnframt því að vinna fyrir sér, einkum með vefnaði. Síðar sótti hún um að fá að sitja einn vetur í skólanum til undirbúnings sjálfu stúdentsprófinu, en var synjað um það. Því miður varð Anna því aldrei stúdent, en sjálfsnám stundaði hún allt til æviloka með lestri, ferðalögum og tungumálanámi.

Fyrstu opinberu skrif Önnu voru blaðagreinar. Eftir því sem næst verður komizt, geystist hún fram á ritvöllinn síðla árs 1942 með skeleggri grein í Alþýðublaðinu um kirkjubyggingar í Reykjavík. Úr því varð ritdeila við Sverri Kristjánsson sagnfræðing þar sem Anna fór mikinn. Næstu árin háði Anna ritdeilur við fleiri þjóðþekkta menn um stjórnmál og menningu og kom ætíð fram sem fulltrúi alþýðunnar, hvergi bangin. Hún var sannfærð um að rödd sín og skoðanir ættu rétt á sér, rétt eins og skoðanir „hinna háu herra“, eins og hún kallaði viðmælendur sína stundum. En hún skrifaði líka mikið um málefni heimabyggðar sinnar, svo sem um vanda bænda eftir Heklugos 1947 og og um tapið, sem sveitungar hennar urðu fyrir, þegar bókasafn þeirra varð eldi að bráð. Nærri má geta að Önnu hafi sviðið slík eyðilegging.

Um miðja öldina hætti Anna blaðaskrifum að mestu. Þá var hún að nálgast fimmtugt og útþráin hafði fangað huga hennar. Vorið 1947 steig hún á skipsfjöl staðráðin í að dvelja sumarlangt í Danmörku, þó að eina farið, sem hún fékk hafi verið til Englands. Árið eftir fór hún til Englands og meginlands Evrópu. Sumarið 1950 fór Anna til Parísar og suður til Ítalíu sumurin 1956 og 1959. Um allar þessar ferðir skrifaði Anna bækur. „Fjósakona fer út í heim”, kom út 1950, „Förukona í París”, tveimur árum seinna, „Ást og demantar”, 1954 og „Ég kveikti á kerti mínu”, 1961. Síðasta ferðalagið. sem Anna skrifaði um, var Ameríkureisan mikla, sem hún fór í sumarið 1964 og frá segir í bókinni „Tvennar tíðir” (1970). Auk þessara bóka gaf Anna út unglingasöguna „Eldgamalt ævintýri” (1957) og æviágrip föður síns sem ber titilinn „Í gengin spor” (1972). Anna gaf allar bækur sínar út á eigin kostnað og sá að mestu um sölumennskuna líka. Allar ferðirnar fór Anna af miklum vanefnum, en bjartsýni og eljusemi, og ferðaðist samkvæmt einkunnarorðum ömmu sinnar: „Ef guð ætlar manni að lifa, þá veit hann að hann verður að leggja manni eitthvað til”.

Ferðasögur Önnu eru langar og miklar, nákvæmar lýsingar á því, sem fyrir augu bar og hvernig heimurinn kom ferðalangnum fyrir sjónir. Anna hafði mikinn áhuga á menningu þeirra landa, sem hún ferðast um, skoðaði kirkjur, söfn og merkar minjar af miklum dugnaði og lagði sig í líma við að kynnast heimamönnum, hvar sem hún kom. Þá hjálpaði að Anna talaði hvarvetna tungu innfæddra, dönsku og ensku talaði hún reiprennandi og þýzkan, franskan og ítalskan vöfðust ekki fyrir henni, þegar á reyndi. Anna var sparsamur ferðalangur og úr því spinnust margar skemmtilegar aðstæður. Hún þurfti ævinlega að lifa eins spart og nokkrum manni var unnt og samskiptin við þá, sem skjutu yfir hana skjólshúsi, voru oft skemmtileg. Matgrennri ferðalangur var vandfundinn, það var bara kaffið, sem hún gat ekki neitað sér um. Nema uppi í Eiffelturninum, þar sem henni fannst vera okrað á sér. Það þoldi hún ekki. Samt var hún aldrei nísk og gaf þurfandi af sínum fáu krónum, þegar svo bar undir. Og þrátt fyrir naumt skammtaðan gjaldeyri, komst Anna alltaf heim áður en peningarnir kláruðust, þótt lesandinn væru oft hræddur um að svo yrði ekki.

Anna frá Moldnúpi lést í Reykjavík haustið 1979, án efa ein af lífsreyndari Íslendingum tuttugustu aldarinnar.

Texti lítið breyttur af vefsetri Hótels Önnu.

Myndasafn

Í grennd

Hvolsvöllur
Hvolsvöllur á Suðurlandi Hvolsvöllur er kauptún í austanverðri Rangárvallasýslu, sem fór að byggjast á fjórða áratugi 20. aldar, þegar brýr voru komn…
Skógar
Austustu bæir undir Eyjafjöllum eru Eystri- og Ytri-Skógar. Þar hóf héraðsskóli Rangæinga og Vestur-Skaftfellinga starfsemi 1949. Þar er sundhöll og s…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )