Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull

Snæfellsjökull

Þjóðgarðurinn á Snæfellsjökull

Rekja má aðdraganda að stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi rúmlega 30 ár aftur í tímann en   skriður komst fyrst á málið haustið 1994. Eftir setningu laga um náttúruvernd nr. 47/1971 fjallaði Náttúruverndarráð undir forustu Eysteins Jónssonar um friðlýsingu á ytri hluta Breiðavíkurhrepps. Á fyrsta Náttúruverndarþingi árið 1972 var ályktað um stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi og í skýrslu um störf náttúruverndarráðs 1972-75 segir: „Þjóðgarður undir Jökli”. Í samræmi við ályktun fyrsta Náttúruverndarþings 1972 hefur ráðið unnið að stofnun þjóðgarðs eða annarri friðlýsingu á ytri hluta Breiðavíkurhrepps. Málefni er varða friðlýsingu lands á utanverðu Snæfellsnesi voru jafnan til umfjöllunar hjá Náttúruverndarráði og á Náttúruverndarþingum næstu árin.

Í september 1994 skipaði umhverfisráðherra, Össur Skarphéðinsson, undirbúningsnefnd um stofnun þjóðgarðs á Snæfellsnesi undir forustu Sturlu Böðvarssonar. Nefndin skilaði lokaskýrslu í júlí 1997 og hefur hún verið grunnur að vinnu við þjóðgarðsstofnunina.

Hinn 14. maí 2001 skipaði umhverfisráðherra, Siv Friðleifsdóttir, starfshóp til að vinna að og undirbúa stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi hinn 28. júní 2001. Starfshópinn skipuðu Ásbjörn Óttarsson, forseti bæjarstjórnar Snæfellsbæjar, Kristinn Jónasson, bæjarstjóri Snæfellsbæjar, Pétur S. Jóhannsson, svæðisstjóri, Guðríður Þorvarðardóttir, sviðsstjóri hjá Náttúruvernd ríkisins og Stefá Jóhann Sigurðsson, skrifstofustjóri, sem skipaður var formaður nefndarinnar. Pétur S. Jóhannsson var kosinn ritari. Þjóðgarðurinn var stofnaður 28. júní 2001.

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull var stofnaður á grundvelli laga um náttúruvernd nr. 44/1999. Í samræmi við lögin fer Náttúruvernd ríkisins með yfirstjórn þjóðgarðsins en ráðgjafanefnd verður stofnuninni til ráðgjafar um rekstur og skipulag svæðisins. Í henni sitja fulltrúar frá Snæfellsbæ, Ferðamálasamtökum Snæfellsness, Fornleifavernd ríkisins og Náttúruvernd ríkisins.

Meðal sérstöðu svæðisins er jarðfræði og landmótun, sem þar ber fyrir augu. Talið er að rekbeltið á Snæfellsnesi hafi verið virkt þar til fyrir u.þ.b. 6 milljónum ára og var virknin svipuð og hún er í núverandi gosbeltum. Ár, og síðar jöklar, surfu landið og rufu 500-1000 m ofan af jarðlagastaflanum, auk þess tróðust ísúr og súr innskotslög inn í staflann og setlög náðu að hylja berggrunninn. Gosvirkni hófst að nýju fyrir u.þ.b. 2 milljónum ára og eldstöðvarnar röðuðu sér aðallega í þrjár þyrpingar, sem kenndar eru við Ljósufjöll, Lýsuskarð og Snæfellsjökul. Þessi virkni er ólík fyrri virkni, þar sem ekki er um neitt rek að ræða og samsetning gosefna önnur. Snæfellsjökulsþyrpingin nær frá Mælifelli í Staðarsveit út á Öndverðarnes og rís Snæfellsjökull sjálfur hæst í 1446 m hæð. (Mynd: Klukkufos).

Helztu hraun á utanverðu Snæfellsnesi eru Búðahraun, Hnausahraun, Klifhraun, Hellnahraun, Háahraun, Neshraun, Saxhólahraun, Prestahraun og Væjuhraun. Allt eru þetta úfin apalhraun nema Neshraun, sem kom úr Öndverðarneshólum, er helluhraun. Af þessum hraunum eru Hnausahraun, Klifhraun, Hellnahraun og Væjuhraun líklega yngri en 1750 ára en Háahraun er talið myndað í gosinu í toppgígnum fyrir u.þ.b. 1750 árum.

Fyrr á öldum var mikið athafnalíf innan marka þjóðgarðsins. Fjöldi lendinga er á ströndinni og er Dritvík líklega einna þekktust þeirra, en talið er, að útgerð þaðan hafi hafizt um miðja 16. öld. Athafnalífið í Dritvík var með miklum blóma í nálega tvær aldir en fór að hnigna upp úr miðri 18. öld. Um 1860 var verstöðin að mestu úr sögunni og lagðist í eyði skömmu síðar.

Sagan segir, að á blómatíma athaflalífsins í Dritvík, hafi 60 bátar róið þaðan á vertíðum og 300-400 vermenn hafizt þar við. Þar eru nú friðlýstar fornminjar, sem eru verbúðatóftir og völundarhús á hraunhæðinni fyrir sunnan víkina.

Innan þjóðgarðsins er að finna sögusvið sagna og skáldsagna, s.s. Kristnihald undir Jökli eftir Nóbelsskáldið Halldór Kiljan Laxness. Meðal skáldsagna, sem einna helzt hefur borið nafn Snæfellsjökuls um heimsbyggðina, er saga franska rithöfundarins Jules Verne, sem nefnist í íslenzkri þýðingu „Leyndardómar Snæfellsjökuls”

Í samræmi við markmið laga um náttúruvernd er áherzla lögð á að auðvelda almenningi för um svæðið og kynni við náttúru landsins og menningarminjar. Þjóðgarðurinn er ákjósanlegur til fræðslu um menningarminjar, náttúrufar og náttúruvernd fyrir skóla landsins. Innan Snæfellsbæjar, á jaðri þjóðgarðsins, eru möguleikar til að taka á móti skólanemum og öðrum gestum, sem koma um lengri veg hafa áhuga á fræðslu um þjóðgarðinn.

Auk náttúruverndar verður ferðaþjónusta og útivist helzta landnýting svæðisins og verður lögð áherzla ágæðaþjónustu, sem byggir á grunni sjálfbærrar ferðamennsku. Gera má ráð fyrir, að fjölmargir gestir verði á eigin vegum og til þess, að þeir fái sem mest út úr heimsókn sinni, verður komið upp umhverfisfræðslu og umhverfistúlkun. Verndaráætlun verður unnin fyrir þjóðgarðinn og hún mun taka á öllum málefnum, sem varða vendun náttúru- og menningarminja, ásýnd þjóðgarðsins, fræðslu og umgengni o.fl. Hún er stefnumörkun fyrir svæðið til fimm ára í senn og annast Náttúruverndar ríkisins gerð hennar.

Malarrif er eyðibýli í Breiðuvíkurhreppi vestan Lóndranga á syðsta hluta nessins sunnan jökuls. Útræði fyrrum, allt til aldamótanna 1900, þótt þarna væri einhver hættulegasti útgerðarstaður á Snæfellsnesi. Fyrsti vitinn var reistur árið 1917. Nýr var byggður 1946 og stefnuviti árið 1955.

Áhugaverðir staði innan þjóðgarðsins og í næsta nágrenni: Arnarstapi, Djúpalónssandur og Dritvík, Gufuskálar, Hellnar, Hólahólar, Ingjaldshóll, Laugarbrekka, Lóndrangar og Þúfubjarg, Malarrif , Snæfellsjökull.

GÖNGULEIÐIR og FJALLASÝN:

Fjallasýnin
Útsýnið frá suðurhluta Snæfellsness er frábært á góðum degi. Þá sést fjallahringurinn allt frá Reykjanesi um Borgarfjörð allt til jökla og suðurhluti fjalllendisins á Snæfellsnesi, þar með talinn „Kóngurinn”, Snæfellsjökull sjálfur. Blómleg Staðarsveitin og strandlengjan, sem er sums staðir hulin ljósum sandi, þar sem skeljum skolar á land, Bjarnafoss ofan Búða, Breiðavík og Stapafell prýða þessa fögru mynd.

Beint norðan Búða er Mælifell, formfagurt fjall, og Stapafell er norðan Arnarstapa (526m). Þægilegast er að ganga á það að sunnanverðu, algengasta leiðin er SV., eða SA. hornið, en brattinn eykst er ofar dregur og efsti tindurinn, Fellskrossinn , er illkleifur.

Snæfellsjökull er kóróna fjallaskagans. Hann er svolítið leindardómsfullur vegna orkunnar, sem hann geislar frá sér og skáldsögunnar um ferðina að miðju jarðar eftir Jules Verne. Þarna bjó líka Bárður Snæfellsás í Sönghelli samkvæmt Báðarsögu. Það er auðvelt að ganga á jökulinn, ef farið er með gát, en Miðþúfa, sem er hæst þúfnanna þriggja, er mjög brött og ekki árennileg nema með réttum búnaði.

Snæfellseldstöðin ber merki sérstakrar eldvirkni, bæði á síðasta kuldaskeiði og nútíma. Hún er u.þ.b. 30 km löng, frá Mælifelli í austri að Öndverðarnesi í vestri og talið er að kvikuhólf sé undir henni. Allt að 20 hraun eru talin til hennar og eldkeilan sjálf er af „strato”-gerð (líkt og St. Helens). Talið er, að gos hennar hafi verið bæði mjög sprengivirk og einnig rólegri með hraunrennsli. Þess sjást glögg merki í hlíðunum, þar sem sumar hrauntungurnar teygjast alla leið til sjávar. Toppgígurinn er u.þ.b. 200 m djúpur og Miðþúfa á barmi hans er 1446 m há.

GÖNGULEIÐIR innan þjóðgarðsins.
Skipulagðar gönguferðir á vegum þjóðgarðsins eru í boði á sumrin.

Margar og fjölbreyttar gönguleiðir eru í og við Þjóðgarðinn Snæfellsjökul. Allir ættu að geta fundið leið við sitt hæfi. Sumar þeirra eru stikaðar eða merktar og flestar er auðvelt að rata. Hægt er að tengja gönguleiðirnar saman á ýmsan hátt. Vert er að hafa í huga að lítið er um drykkjarvatn í þjóðgarðinum og því nauðsynlegt að hafa með sér eitthvað að drekka þegar lagt er í göngu.

Snæfellsjökull. Ganga á Snæfellsjökul tekur um 3-4 klst. frá Jökulhálsi. Einnig er skemmtileg en nokkru lengri leið á Jökulinn frá Eysteinsdal. Þeim sem ætla á Jökulinn er eindregið ráðlagt að afla sér upplýsinga um færð og leiðir áður en lagt er af stað og gæta ítrustu varkárni. Þegar líður á sumarið myndast stórar sprungur og jökullinn verður ófær. Á Jökulinn eru einnig skipulagðar ferðir með vélsleðum og snjótroðara.

Gamlar þjóðleiðir. Áður fyrr lágu fjölfarnar þjóðleiðir um svæðið undir Jökli. Ein leiðin lá með ströndinni, hún er víðast greiðfær en á köflum stórgrýtt og erfið yfirferðar. Upplagt er að ganga hana í nokkrum áföngum. Önnur leið, Efstivegur, liggur í fjallsrótum Jökulsins. Hluti hennar, frá Beruvíkurhrauni að Skeiðsandi, er um 11 km. Styttri kaflar eru upp með Háahrauni og í Purkhóla (4 km) og frá Purkhólum um Lónland í Beruvíkurhraun (4 km). Enn ein leið lá um Beruvík, skammt neðan núverandi akvegar.

Við Gufuskála eru fiskbyrgi sem hlaðin eru í hrauninu. Þau eru örstutt frá veginum en fyrir ókunnuga er erfitt að koma auga á þau. Ganga að þeim tekur aðeins um 10 mín. Hinum megin aðalvegarins liggur vegslóði að bílastæði við Írskrabrunn. Stutt, stikuð leið er á milli Írskrabrunns og Gufuskálavarar. Í vörinni má greinilega sjá för eftir kili báta.

Móðuvör – Skarðsvík – Öndverðarnes. Falleg og gömul gönguleið er frá Móðuvör fram á Öndverðarnes (rúmir 4 km). Á þeirri leið er Skarðsvík, falleg vík með ljósum sandi í skjóli kletta. Á Öndverðarnesi má sjá minjar eftir útræði og búskap fyrri tíma. Brunnurinn Fálki er ævafornt vatnsból Öndverðarness.

Öndverðarneshólar. Frá vegi út á Öndverðarnes er hægt að velja nokkrar gönguleiðir að hólunum. Gera má ráð fyrir tveggja tíma ferð (rúmir 2 km hvor leið) að Vatnsborgarhól. Rétt austan við er Vatnsborg, hömrum girtur gígur með miklum burknagróðri í botninum. Að Grashól og Grashólshelli er um þriggja tíma ferð fram og til baka (3 km hvor leið). Frá hólunum eru skemmtilegar leiðir út á Skálasnaga og Öndverðarnes eða í Beruvík. Ef valið er að ganga svo langt er gott að vera á tveimur bílum.

Klofningsrétt í Beruvík – Litlalón – Hólahólar. Falleg leið með ströndinni. Áður fyrr var blómleg byggð í Beruvík og Hólahólar voru stórbýli. Í Beruvík var búið fram á miðja 20. öld. Ströndin er fjölbreytt en gengið er um þægilegt, grasi gróið land. Leiðin er um 4 km.

Djúpalónssandur – Dritvík. Leiðin á milli Djúpalónssands og Dritvíkur er vinsæl og auðveld. Hún tekur um 20 mín. aðra leið (tæplega 1 km) en rétt er að áætla lengri tíma. Hægt er að halda áfram eftir gamalli vermannagötu um Beruvíkurhraun og í Sandhóla. Sú ganga tekur um klukkustund frá Dritvík. Öll leiðin frá Djúpalónssandi um Dritvík í Sandhóla er um 4 km og finnst sumum fallegra að byrja gönguna í Sandhólum og enda á Djúpalónssandi. Áður fyrr bjuggu í Dritvík 200-600 manns hluta úr ári. Á Djúpalónssandi eru steintökin sem vermenn reyndu afl sitt á. Gaman er að ganga fram á Suðurbarðann en þar er völundarhús sem vermenn höfðu að leik.

Svalþúfa – Malarrif. Um 2 km leið meðfram ströndinni og Lóndröngum. Við Lóndranga halda teistur stundum til.

Eysteinsdalur. Eysteinsdalsvegur liggur upp með Móðulæk, í átt að Snæfellsjökli. Á sumrin er þaðan jeppafær slóði yfir á Jökulháls. Á leiðinni í Eysteinsdal og í dalnum sjálfum opnast fjallasalur og landslag er ólíkt því sem er á láglendinu. Gönguleiðir eru ótal margar. Stuttar göngur eru t.d. á Rauðhól og Sjónarhól en af honum þykir fallegt útsýni. Að grágrýtishöfðanum Klukku og Klukkufossi er stuttur gangur. Blágil er djúpt gil sem auðvelt er að ganga að. Fyrir þá sem vilja klífa fjöll er úr nógu að velja. Ganga á Hreggnasa, 469 m, er frekar auðveld en erfiðara er að sigra Bárðarkistu, 668 m, og Geldingafell vestra, 830 m, sem er hæst undirfjalla Jökulsins.

GÖNGULEIÐIR á vernduðum svæðum og nágrenni þeirra:
Aðalgönguleiðir í umhverfi Búða, Arnarstapa og Hellna eru merktar.

Gamla leiðin yfir Búðahraun er kölluð Klettsgata. Hún liggur að Búðakletti og Búðahelli og áfram yfir hraunið. Sums staðir sjást djúpar rásir hófa og fóta í hraunhellunum. Áætlaður göngutími um Klettsgötu er 2-3 tímar og full ástæða til að gefa sér góðan tíma til náttúruskoðunar á leiðinni, sem er létt og á flestra færi.

Jaðargatan liggur meðfram hraunbrúninni að stórum steini sunnan Miðhúsatíns, þar sem Klettsgata tekur við. Þetta er létt tveggja tíma ganga frá Búðum en sums staðar er slóðin dauf.

Frambúðir. Frá Búðum er gaman að ganga stuttan spöl að Frambúðum, þar sem andi fortíðar svífur yfir vötnum og vallgrónar rústir bíða eftir að segja sögu sína. Ganga frá Búðakirkju tekur u.þ.b. hálftíma.

Búðir – Arnarstapi – Hellnar. Þessi leið er við hæfi þeirra, sem vilja ganga allan daginn um fagurt umhverfi og tekur 6-8 klst.

Sölvahamar. Gamla þjóðleiðin liggur eftir Sölvahamri endilöngum, nálægt honum miðjum eru fornar rústir í umsjá Þjóðminjasafnsins og eru verndaðar. Ganga frá Arnarstapa yfir Sölvahamar tekur innan við klukkustund og veldur aldrei vonbrigðum.

Neðstagata. Hellnahraun nær frá jökli til sjávar á milli Arnarstapa og Hellna. Neðstagatan (af þrem, fornum leiðum yfir hraunið), sem liggur um hraunið meðfram ströndinni, býður um hálftíma göngu um höggmyndagarð náttúrunnar.

Bárðarlaug er rétt ofan Hellna. Hún er í sprengigíg, sem varð til í lok síðasta kuldaskeiðs. Gígurinn varð náttúruvætti árið 1980.

Laugarbrekkurústir eru austan Bárðarlaugar. Þar var þingstaður fyrrum. Guðrún Þorbjarnardóttir, sem var meðal víðförlustu kvenna sins tíma, fæddist að Laugarbrekku. Vestan Hnausahrauns er Rauðfeldsgjá í austanverðu Botnsfjalli. Áin Sleggjubeina rennur um hana. Það er vel þess virði að legga leið sína upp í gjána, sem er steinsnar frá þjóðveginum.

Ágæti gestur!
3558cff97b3cd7f0df9a701a737f5c20 Markmið verndunar staða og svæða er að gera þau aðgengileg í óbreyttu formi fyrir alla að njóta. Meiri meðvitund um náttúruna og aukin þátttaka í gæzlu hennar er nauðsynleg til að ná settum markmiðum.

NJÓTTU DVALARINNAR!

Heimildir: Vefsetur þjóðgarðsins og Snæbjörn Valdimarsson. og nat.is

Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull
Skrifstofa þjóðgarðsvarðar
Klettsbúð 7
S. 436-6860
360 Hellissandur.

Kort Snæfellsnes

Myndasafn

Í grennd

Gestastofur Vatnajökulsþjóðgarða
Gestastofur Vatnajökulsþjóðgarðs eru fimm talsins og eru staðsettar í kringum þjóðgarðinn. Í gestastofunum er hægt að nálgast allar upplýsingar um þjó…
Gufuskálar
Ketill gufa Örlygsson var þar um kyrrt einn vetur samkvæmt Landnámu. Búið var þar til ársins 1948 og   þá yzta býlið í Neshreppi utan Ennis. Útgerð va…
Ólafsvík
Byggð myndaðist snemma í Ólafsvík, enda góð fiskimið úti fyrir og góð lending. Hafnaraðstaða var bætt mjög um miðja 20. öldina og óx byggðin hratt í k…
Snæfellsjökull
Snæfellsjökull (1446m) á Snæfellsnesi er meðal formfegurstu jökla landsins. Flatarmál hans hefur minnkað mikið,  að vart er meira eftir en u.þ.b. 7 km…
Snæfellsnes kort
Kort af Snæfellsnesi á Vesturlandi Kort af Snæfellsnesi á Vesturlandi  …
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…
Þjóðgarðar Íslands
Þingvellir (1928) er sögufrægasti staður landsins og er í hjarta Þingvallasveitar. Þar ber Almannagjá  hæst og hinn forna þingstað við Öxará. Þingvall…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )