Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Ingjaldshóll

Ingjaldshóll

Ingjaldshóll var bæði höfuðból og þingstaður.

Aðsetur lögmanna og sýslumanna og umboðsmanna bæði Helgafellsklausturs  og Danakonungs. Núverandi Rifsland sem og höfn tilheyrðu Ingjaldshóli fram á tuttugustu öld (Sjá Rif). Þar er kirkja, sem var byggð árið 1903 og er elsta steinsteypta kirkja heims (Hörður Ágústsson Íslensk byggingararfleifð. Útg. Húsafriðunarnefnd ríkisins 1998). Í kirkjunni eru margir merkir og gamlir munir. Kirkjan var upphaflega helguð Maríu guðsmóður, guði, Cosmos og Damian, píslarvottum, og öllum öðrum helgum mönnum kaþólskum. Þriðja stærsta kirkja á Íslandi stóð á Ingjaldshóli fram á 19. öld, enda sóknin fjölmenn og margt aðkomumanna á vertíðum. Hún mun hafa rúmað allt að 400 manns í sæti og sést enn móta fyrir henni í kirkjugarðinum. Margir merkisprestar hafa þjónað á Ingjaldshóli. (Sjá: Ingjaldshólskirkja).

Á þessu höfuðbóli bjó Ingjaldur Alfarinsson, svo sem Landnáma segir. Hans er betur getið í Bárðar sögu Snæfellsáss. Ingjaldur átti í erjum við Hettu tröllkerlingu í Ennisfjalli. Hún gerði allt sem hún gat til að koma Ingjaldi fyrir og gerði honum m.a. gjörningaveður, eitt sinn er hann fór í róður. Var hann hætt kominn, en komst heim með heila há með aðstoð Bárðar. Þessi frásögn er fyrsta skráða sagan um fiskiróður á íslenska tungu. Sonarsonar Ingjalds, Þrándar, er getið í Eyrbyggju. Hann var sagður heljarmenni, frár mjög og tröllslegur á meðan hann var heiðinn. Var Þrándur Snorra goða á Helgafelli mjög hjáplegur þegar hann þurfti mikils við.

Eignir Ara Þorgilssonar hins sterka á Stað á Ölduhrygg komust í hendur Sturlunga. Því eftir að Þórður Sturluson fékk Helgu dóttur Ara tóku þau arf eftir hann er hann lést árið 1188.(Sturlunga) Ingjaldshóll mun hafa verið meðal þeirra eigna. Böðvar sonur Þórðar notaði svo síðar Ingjaldshól sem bætur til Böðvars Þórarinssonar fyrir það rán sem hann rænti hann í Langadal. Um það rán er ekkert vitað.

Árið 1317 er vígð ný kirkja á Ingjaldshóli. Þá var eigandi jarðarinnar Gunnar Hauksson. Haukur sonur hans tók við búi á Ingjaldshóli af föður sínum en seldi jörðina 1356 Órækju Sturlusyni sem var af ætt Sturlunga. Hann var sonur Sturlu Snorrasonar, Sturlusonar Þórðarsonar sagnritara og lögmanns. Órækja var eigandi Ingjaldshóls í 21 ár, en þá seldi hann Ásgrími Jónssyni ábóta á Helgafelli jörðina, klaustrinu til handa ásamt Kjalvegi. Þar með hvarf Ingjaldshóll úr eigu einstaklinga og er svo enn. Með siðaskiptunum voru jarðeignir klaustranna lagðar undir kóng og krúnu sem skiluðu þeim svo til íslenska landssjóðsins.

Ráðsmenn á vegum klaustursins á Helgafelli stjórnuðu búrekstri og útgerð á Ingjaldshóli næstu tvær aldirnar. Klaustrið eignaðist allar jarðir frá Ólafsvík að og með Arnarstapa. Ráðsmaðurinn á Ingjaldshóli hefur sjálfsagt haft yfirumsjón með eignunum og athöfnum á þeim og ráðið flestu. Frá Ingjaldshóli hefur svo Helgafellsklaustur fengið nauðsynlegar vörur til reksturs og uppihalds stofnunarinnar, skreið, lýsi ofl. frá útgerðinni, kálfskinn til bókfells, ull, húðir og kjöt frá stórbúinu.

Klaustrið aflaði sér útlendrar vöru og hafði erlend samskipti um verslunarhöfnina í Rifi. Enda með á boðstólum mjög eftirsótta vöru, skreið og lýsi.

Með siðaskiptunum og yfirtöku konungsins í Kaupmannahöfna á jarðeignum klaustra á Íslandi varð mikil breyting. Daði Guðmundsson í Snóksdal var sá fyrsti sem fékk allar jarðir Helgafellsklausturs á leigu af konungi. En fyrsti umboðsmaður Helgafellsjarða (Stapaumboðs), í kringum árið 1570, hét Marteinn Erasmusson. Jón lögmaður Jónnsson hélt Stapaumboð og Snæfellsnessýslu frá 1598 til 1606. Hann hafði mikil umsvif, en mælt er að hann hafi í einu haft úti 50 skip undir Jökli. Gera verður ráð fyrir að drjúgur hluti þeirrar útgerðar hafi tengst Ingjaldshóli. Meðal dóma Jóns lögmanns var dauðadómur yfir Axlar-Birni Péturssyni árið 1596. Næstu rúmar tvær aldir sátu Ingjaldshól, allt að því óslitið, margir valdsmenn. Sýslumenn lögmenn og jafnframt umboðsmenn fyrir Arnarstapaumboð. Flestir þeirra skildu eftir sig þing- og dómabækur. Nokkrir munu halda nöfnum sínum og ferli í Íslandsögunni um ókomin ár. Til skamms tíma gátu menn undir Jökli sagt sögur af lögmönnunum Magnúsi Jónssyni, Oddi Sigurðssyni og Jóhanni Gotturp. Þau Eggert Ólasfsson skáld og náttúrufræðingur og kona hans Ingibjörg Guðmundsdóttir, áttu sín æskuár á Ingjaldshóli og einnig Halldór Brynjólfsson biskup á Hólum.

Síðasti sýslu- og umboðsmaður sem sat á Ingjaldshóli var Stefán Scheving á árunum 1790 til 1830. Stefán var þar með gott bú og mikil umsvif í sjávarútvegi. Samkvæmt búnaðarskýrslu frá árinu 1793 átti hann þá tíu skip 8 – 10 róin og fjögur 4 – 6 róin. Á manntali frá árinu 1801, kemur fram að 204 manns hafi tilheyrt höfuðbólinu, Ingjaldshóli, hjáleigum þess og 48 heimilum í Rifi. Þar af voru 17 manns á heimili aðalbóndans sem reyndar var allsráðandi yfir þessum hópi manna likt og fyrirrennarar hans höfðu verið. Eftir að embættismenn héldu ekki lengur Ingjaldshól, sátu jörðina leiguliðar sem ráku þar rausnarbúskap allt til ársins 1965. En þá var hefðbundnum búskapi þar hætt.(Guðlaugur Jónsson. Ingjaldshóll, handrit í Landsbókasafni)

Af Ingjaldshóli er mikilfenglegt útsýni. Í suðri blasir við Snæfellsjökull með undirfjöllum, í austri Enni og fjallaröðin inn Snæfellsnesið. Í átt til sjávar, má sjá byggðinar á Hellissandi og í Rifi og í vesturátt gnæfir 412 m. hátt mastrið á Gufuskálum. Í bakgrunni eru samfelldar hraunbreiður í vesturátt, sem enda á Saxhóls- og Öndverðarnesbjörgum, fuglabjörgum sem bera nafnið Svörtuloft frá sjó.

Fjölmörg örnefni fylla þennan sjóndeildarhring. Á þessum slóðum er sögusvið Haustskipa skáldsögu Björns Th. Börnssonar, Bárðarsögu Snæfellsáss og Víglundarsögu. Víglundarsteinn er örskammt bak við kirkjuna. Grónar tóttir bæjarhúsa höfuðbólsins og hjáleiganna Þrándarstaða og Stapatúns sem og grunnur stórkirknanna í kirkjugarðinum minna á margþætta sögu liðinna árhundruða. Neðan við hólinn er Æsutjörn sem ber nafn Æsu Þorkelsdóttur í Hómlátri er eignast hafði Þrándarstaði og gaf þá Helgafellsklaustri árið 1174.

Þeir sem sátu Ingjaldshól dæmdu oft þunga dóma. Gapastokkur stóð á Hólnum, skammt frá kirkjudyrum. Þar var tekist á um völd. Margir gestir sóttu staðinn heim.

Sagt er að Kristófer Kólumbus hafi setið þar einn vetur. Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson lögðu upp frá Ingjaldshóli til að ganga á Snæfellsjökul 1. júlí 1753. Jónas skáld Hallgrímsson ferðaðist um Snæfellsnes árið 1841. Hann kom að leiði vinar sín í kirkjugarðinum á Ingjalshóli og orti í tilefni af því eitt af sínum fegurstu ljóðum, kvæðið:
Á gömlu leiði. 1841
Fundanna skært í ljós burt leið,
blundar hér vært á beði moldar,
blessaðar fært á náðir foldar,
barnið þitt sært, ó beiska neyð!

Sofið er ástaraugað þitt
sem aldrei brást að mætti mínu;
mest hef eg dáðst að brosi þínu,
andi þinn sást þar allt með sitt.

Stirðnuð er haga höndin þín,
gjörð til að laga allt úr öllu,
eins létt og draga hvítt á völlu
smámeyjar fagurspunnið lín.

Vel sé þér, Jón! á værum beð,
vinar af sjónum löngu liðinn,
lúður á bón um himnafriðinn.
Kalt var á Fróni, Kjærnesteð!

Slokknaði fagurt lista ljós.
Snjókólgudaga hríðir harðar
til heljar draga blómann jarðar.
Fyrst deyr í haga rauðust rós.

Jónas Hallgrímsson

GOMERA:KANARÍEYJAR – SPÁNN. þar sem Kólumbus hlóð skip sín og undirbjó þau til ferðar vestur um haf.

Við Ingjaldshólskirkju er nýbyggt glæsilegt safnaðarheimili. Sunnan við kirkjuna hefur Eggerti Ólafssyni og konu hans Ingibjörgu Guðmundsdóttur, verið reist svipmikið minnismerki. Allt umhverfi kirkjunar er vel frá gengið. Stórt landsvæði milli Rifs og Ingjaldshóls varð örfoka á nítjándu og fyrri hluta tuttugustu aldar vegna sandfoks. Skóræktar- og landverndarvélag undir Jökli, ásamt fleiri félögum, hafa á síðustu árum unnið að því að græða þetta landsvæði upp. Landið er nú að mestu gróið. Landgræðsluskógareitur Skógræktarfélagsins er hluti svæðisins. (sa)

Myndasafn

Í grennd

Ingjaldshólskirkja
Ingjaldshólskirkja er í Ingjaldshólsprestakalli í Snæfells- og Dalaprófastsdæmi. Þar er kirkustaður og   kirkja sem var byggð 1903 og er elsta seinste…
Ólafsvík
Byggð myndaðist snemma í Ólafsvík, enda góð fiskimið úti fyrir og góð lending. Hafnaraðstaða var bætt mjög um miðja 20. öldina og óx byggðin hratt í k…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )