Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Djúpalónssandur og Dritvík

Dritvík

Djúpalónssandur er malarvík með hraungjám í botni á milli Einarslóns og Dritvíkur. Þar var löngum stór verstöð fyrrum. Eitt íveruhúsa sjómanna hefur verið endurhlaðið, en er að hruni komið á ný.

Aflraunasteinarnir, Fullsterkur (154 kg), Hálfsterkur (100 kg), Hálfdrættingur (54 kg) og Amlóði (23 kg), liggja fyrir neðan stall við stíginn niður frá bílastæðinu. Hraunmyndanir, s.s. Gatklettur fyrir ofan aflraunasteinana og Draugahellir, eru sérstakar og fallegar.

Járnbrakið í fjörunni er að hluta úr enska togaranum Epine GY-7, sem strandaði austur af Dritvíkurflögum kvöldið 13. marz 1948. Björgunarsveitir frá Arnarstapa, Hellnum og Hellissandi brugðust við. Aðstæður voru erfiðar, vont veður, aðfall og mikið brim. Menn sáust á skipinu á hvalbak, á stýrishúsi og bundnir við reiðann. Stórsjóir gengu yfir skipið í aðfallinu. Einn mann með lífsmarki bar upp í fjöruna. Með útfallinu tókst að skjóta út línu, sem skipverjar festu við mastrið. Aðeins fjórir menn voru eftir á lífi og voru dregnir í land í björgunarstól. Fleiri skip hafa strandað á svipuðum slóðum, m.a. Ása RE-18 21. desember 1925. Skipverjar hröktust í björgunarbát í 7 klst áður en norskt flutningaskip og þýzkur togari björguðu þeim. Fólk er beðið að hrófla ekki við járninu í sandinum.

Dritvíkingar urðu að sækja allt drykkjarvatn til Djúpalónssands um Suðurbarða eða Víkurbarða. Tröllakirkja er fram af nesinu nær Dritvík, sem er í djúpri kvos með hraun á allar hendur. Sandurinn í víkinni heitir Maríusandur og þar standa tveir klettar, kenndir við Bárð Snæfellsás, Bárðartrúss og Bárðarskip. Sundið inn að víkinni þótti hættulegt, en lending var góð, þegar inn var komið.

Öldum saman var Dritvík einhver fjölmennasta og aflasælasta verstöð landsins. Oft réru þaðan 60-70 bátar og fjöldi vermanna var þá 300-400. Talið er, að útgerð hafi hafizt í Dritvík á 16. öld, en var farin að dragast saman á 19. öld. Tíu þurrabúðir stóðu þar, þegar flest var. Verbúðirnar voru hlaðnar úr grjóti, sem sandi var mokað að, og tjaldað yfir. Nú ber lítið á rústum þessara verbúða nema leifum fiskigarða og fiskreita uppi á hrauninu. Skipbrotsmannaskýli stendur í Dritvík.

Djúpalónssandur og Dritvík eru í landi Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull.

 

 

Myndasafn

Í grennd

Arnarstapi, Snæfellnes
Arnarstapi er lítið útgerðarpláss undir Stapafelli á milli Breiðuvíkur og Hellna. Norðan í fellinu er sönghellir, þar sem Bárður Snæfellsás er sagður …
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…
Vesturland, ferðast og fræðast
Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá  Hvalfirði að Króksfjarðarnesi. Merkis- og þéttbýlisstaði má sjá hér að neðan. Vesturland er allþéttbýlt, byggðar…
Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull
Þjóðgarðurinn á Snæfellsjökull Rekja má aðdraganda að stofnun þjóðgarðs á utanverðu Snæfellsnesi rúmlega 30 ár aftur í tímann en   skriður komst fyrs…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )