Sprengir er talinn vera suðvestan Fjórðungsvatns og vera staður, þar sem hestar sprungu á reiðinni, þegar fólk reið eins hratt og það gat til að komast hjá því að hitta illar vættir, drauga eða álfa fyrir á leiðinni.
Eldra nafn á Sprengisandi er Gásasandur, sem margir telja að hefjist norðan Háumýra, efsta gróðurlendis á Holtamannaafrétti.Leiðin yfir Sprengisand er bæði gömul og ný, þótt þar hafi ævinlega verið færra fólk á ferðinni en yfir Kjöl og Kaldadal. Ástæðan var einkum tvíþætt, annars vegar var mun lengra á milli áfangastaða og vegalengdin milli byggðra bóla á Norður- og Suðurlandi einnig.
Hinn 15. ágúst 1933 var fyrst farið á bíl norður yfir Sprengisand. Ferðin tók sex daga að Myri í Báðardal
Gamla leiðin liggur frá Þjórsárdal í Bárðardal. Skjálfandafljót var oft riðið neðan Kiðagils og haldið áfram að Svartárkoti. Hagar voru fáir, hinir efstu að sunnan voru við Hreysiskvísl en að norðan við Kiðagil.
Milli Eyvindarvers og Kiðagils var u.þ.b. 75 km reið. Vegalendin milli grasa fyrir sunnan og norðan var 70-80 km. Stundum var farið frá Galtalæk á Landi, yfir Tungná á ferju, þar sem var bílakláfur og norður Búðarháls að Sóleyjarhöfða.
Núverandi leið, svokölluð Ölduleið er mun austar. Hún er greiðfær traustum bílum, þótt hún verði yfirleitt ekki fær fyrr en í júlí á sumrin. Helztu tálmar þar eru óbrúaðar ár, einkum Nýjadalsá og Hagakvísl og stundum er bezt að reyna ekki við þær einbíla.
Ferðalög á miðhálendinu voru tíð á söguöld en síðan fór að draga úr þeim, þegar hjátrú magnaðist, og lengi lágu ferðalög niðri, eða allt fram á 18.öld. Nú á dögum er ferðast um hálendið allt árið. Vegakerfið er víða orðið fært flestum tegundum farartækja á sumrin, einkum fyrir tilstuðlan Landsvirkjunar.