Bárðardalur er milli Fljótsheiðar í austri, Fnjóskadals í vestri og Aðaldals í norðri. Hann teygist suður að mörkum Sprengisands og Ódáðahrauns og er meðal lengstu, byggðu dala landsins (35 km milli efsta og neðsta bæjar). Hann er víðast fremur mjór milli brattra og gróinna hlíða. Dalbotninn er víðast flatur og þakin hraunkvísl úr Ódáðahrauni. Ofan á henni er að mestu víðir, lyng og fjalldrapi eða valllendisgróður. Skóglendi eru aðallega í vesturhlíðunum og víða er dalurinn vel fallinn til ræktunar. Talið er, að dalurinn hafi orðið til við sig. Vestan hans eru blágrýtisfjöll (600-700m) en austan hans er móberg (Fljótsheiði; 200-300m). Skjálfandafljót (175 km) fellur um dalinn allt frá efstu upptökum í Vonarskarði. Efst í dalnum er Aldeyjarfoss, umgirtur stuðlabergi, og neðst í honum er Goðafoss.
Fyrsti landnámsmaðurinn í dalnum var Bárður Heyangurs-Bjarnason, sem byggði bæ að Lundarbrekku. Síðar fluttist hann búferlum suður yfir hálendið að Núpum í Fljótshverfi.
Ferðalög á miðhálendinu voru tíð á söguöld en síðan fór að draga úr þeim, þegar hjátrú magnaðist, og lengi lágu ferðalög niðri, eða allt fram á 18.öld. Nú á dögum er ferðast um hálendið allt árið. Vegakerfið er víða orðið fært öllum tegundum farartækja á sumrin, einkum fyrir tilstuðlan Landsvirkjunar.