Ferðavísir:
Borgarnes 71 km, Þingvellir 42 km, <Mosfellsbær> Selfoss 57 km, Keflavík 55 km, Grindavík 57 km.
Nesvallaleið um Hólmsheiði að Nesjavöllum er um 25 km. R 431/435
Innan bæjarlands Mosfellsbæjar er mikið um jarðhita og því margar gróðurstöðvar á svæðinu. Frá 1933 hefur Mosfellsbær, þá Mosfellssveit, séð Reykvíkingum fyrir heitu vatni. Nóbelsverðlaunaskáldið Halldór Laxness (1902-1998) var heiðursborgari Mosfellsbæjar en hann bjó þar alla sína tíð og sótti hann efnivið í margar sögur sínar í Mosfellssveit. Mörg fyrirtæki í verzlun og iðnaði eru í bænum. Stærsta flugfélag landsins, Antlanta, hafði höfuðstöðvar sínar í bænum, þar til það fluttist til Reykjavíkur árið 2003 og síðar í Kópavog. Kjúklinga- og kalkúnarækt er í Mosfellsbæ og má segja að þar hafi verið unnið brautryðjendastarf hérlendis í fuglarækt og fara afurðinar á markað um allt land. Óspillt náttúra umlykur bæinn og býður upp á allt það helzta sem útivistarmenn sækjast eftir, s.s. fjallgöngur, fallegar og skemmtilegar gönguleiðir, góð skíðasvæði og veiði í ám og vötnum hvar silung og lax er að finna.
Stutt er til Þingvalla, höfuðborgin á báðar hendur og góðar samgöngur í allar áttir. Á 19. öld var hreppurinn stór og íbúar hlutfallslega margir. Þeir bjuggu á dreifðum býlum frá Elliðaám að Mosfellsheiði. Björn Þorláksson, smiður, kom upp tóvinnslu við Varmá árið 1896 og byggði íbúðarhús, sem er hluti elzta hússins í Mosfellsbæ. Þetta framtak þróaðist í ullar- og klæðaverksmiðju og íbúðahverfi starfsfólks byggðist. Sigurjón Pétursson, forstjóri Álafoss, kom upp aðstöðu til sundkennslu og íþróttaskóla. Íbúum hreppsins fækkaði til 1920 en þá voru þeir 268. Árið 1924 hófst ræktun í fyrsta gróðurhúsinu og nýting jarðhitans til ræktunar jókst, m.a. í landi Suður-Reykja og víðar. Byggð myndaðist í kringum þennan rekstur og íbúum fjölgaði á ný (373 árið 1930). Alþingi afhenti Reykjavík nokkrum sinnum hluta af landi hreppsins, þannig að hann minnkaði stöðugt (1923, 1929 og 1943; Elliðaár, Ártún, Árbær, Gufunes, Keldur, Korpúlfsstaðir o.fl. jarðir). Nokkur þúsund hermenn bjuggu í bröggum í Mosfellssveit í síðari heimsstyrjöldinni (frá Lágafelli að Suður-Reykjum og Hafravatni).
Nærvera þeirra hafði hvetjandi áhrif á atvinnulífið. Hersjúkrahús, sem Íslendingar tóku við eftir stríðið, var byggt við Amsterdamhver í landi Suður-Reykja. SÍBS reisti þar vinnuheimilið Reykjalund og notaði braggana á meðan á byggingu nýja hússins stóð.
Í upphafi Vestmannaeyjagossins 1973 fluttust margir Vestmannaeyingar til Mosfellshrepps. Árið 1970 var íbúafjöldinn 986 en fimm árum síðar voru þeir orðnir 1744. Sveitarfélagið fékk kaupstaðarréttindi árið 1987.
Eins og sjá hér að neðan, tengdar færslur er nat.is að reyna að halda jafnframt um gamlar og nýjar heimildir: