Grímannsfell gönguleið
Grímannsfell við Mosfellsdal er eitt af fellunum í nágrenni höfuðborgarinnar. Skemmtileg 2-3 tíma gönguleið sem hentar öllum. Lagt er af stað frá afleggjara inní Helgadal rétt áður en komið er að Gljúfrasteini, áður heimili Nóbelsskáldsins og nú safn um hans fjölskyldu og afrek.
Lýsing: Gengið er yfir móa og upp vinstra megin við grýttan hól. Þá er gengið upp lítið klettabelti og minnkar brattinn fljótlega eftir það. Nú er haldið beint af augum eftir aflíðandi ásum þar til komið er á vestari tindinn er nefnist Flatafell 436m. Til að fara á hæstu hæð fjallsins er haldið áfram í sömu átt á Stórhól 482m.
Heildargöngutími: Ganga á Flatafell tekur um 2 tíma (upp og niður aftur) en ef gengið er á Stórhól má búast við um 3ja tíma göngu.