Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Kverkfjöll

Kverkfjöll

Kverkfjöll er stórt fjalllendi í norðanverðum Vatnajökli. Það blasir við af þjóðveginum í góðu veðri. Þarna eru tvö af hæstu fjöllum (1920m og 1860m) og eitthvert stærsta háhitasvæði landsins (10 km²) í Hveradal, hátt uppi í hlíðum Vesturfjallanna (1800m). Austan við hverasvæðið, uppi há hæstu bungu Vesturfjallanna (1860m) er skáli Jöklarannsóknarfélagsins frá 1977. Kverkin skilur hæstu fjöllin að og vestan við þau er Dyngjujökull, en Brúarjökull að austanverðu. Undan skriðjöklinum, sem mjakast niður Kverkina, streymir heit á um allt að 30 km löng ísgöng.

Það hefur þótt mikið ævintýri að ganga eins langt inn undir jökulinn og komizt verður og baða sig í volgri ánni. Þeir, sem það gera, verða að gera sér grein fyrir hættunni á hruni. Mikið hrun var í og við íshellin sumarið 2011 og hörmulegt banaslys varð þar.

Kverkfjöllin eru hluti stórs eldvirks svæðis, sem hefur gosið nokkrum sinnum á sögulegum tímum án þess að vitað sé um hraunmyndanir tengdar gosunum. Líklega gaus þar í kringum 1930. Leiðin frá þjóðveginum um Möðrudal suður til Kverkfjalla er u.þ.b. 90 km löng. Þegar yfir Kreppubrú er komið, hefst Kverkfjallarani. Sumir hafa aldrei getað lýst tilfinningum sínum við fyrstu heimsókn í þennan undraheim. Það er talsvert seinekið um hann að Sigurðarskála, en á leiðinni er upplagt að stanza og skoða bústað Fjalla-Eyvindar í Hvannalindum.

Sunnar eru vegamót og þaðan er hægt að halda yfir brúna á Jökulsá á Fjöllum við Upptyppinga til Öskju í stað þess að aka áfram að Sigurðarskála í Kverkfjöllum. Frá Sigurðarskála er hægt að aka svolítið sunnar, stundum alveg að jaðri Kverkjökuls, ef árnar eru ekki í ham. Gönguferð yfir skriðjökulinn, upp Bröttufönn í Hveradalinn og upp í skála Jörfi tekur allan daginn fram og til baka og er talsvert erfið. Það er ekki ráðlegt að ganga þessa leið nema að vera í góðu formi og hafa vanan mann með í för, því að hætturnar á leiðinni eru margar, en þessi fjallganga er ógleymanleg!

Meira um Kverkfjöll:

Kverkfjöll eru tiltölulega lítt rannsökuð en vafalaust meðal helztu megineldstöðva landsins. Fyrstu athuganir þar gerði W. L. Watts árið 1875 og síðan landmælingamaðurinn danski, J. P. Koch árið 1912. Síðan gerðist lítið á því sviði fram yfir 1930, þegar ýmsir þjóðkunnir ferðalangar og vísindamenn komu til skjalanna. Árið 1970 gerði Guttormur Sigurbjarnarson frumkort af jarðmyndunum í Krepputungu. Bæði loftmyndir og innrauðar myndir hafa gefið hugmyndir um skipan eldstöðvarinnar síðan. Hlaup í Jökulsá á Fjöllum voru jarðvísindamönnum ráðgáta þar til í janúar 2002, þegar í ljós kom, að lónið austan skála Jöklarannsóknarfélagsins hafði tæmzt. Áður var ekki ljóst, hvort þau kæmu undan Dyngju- eða Kverkjökli. Lón í vestanverðum fjöllunum eru afleiðing mikillar jarðhitavirkni háhitasvæða.

Kverkfjöll heita eftir Kverkinni milli Eystri- og Vestari-Kverkjfalla. Hin eystri rísa upp í 1920 m hæð yfir sjó en hin vestari í rúmlega 1860 m, þar sem Jöklarar eiga skála. Sprunguþyrpingar þessarar eldstöðvar teygjast a.m.k. 50 km til norðausturs á 10-15 km breiðu belti og gizkað er á, að suðurhluti þeirra liggi í átt að Grímsvötnum vegna þess, hve kvikan, sem kemur til yfirborðsins í báðum eldstöðvunum er lík.

Landslagið í Krepputungu er að mestu gróðurvana og hreint ótrúlegt yfirlitum. Þar skiptast á móbergsfjöll, eyðisandar og misgömul hraun, sum frá nútíma.

Eini gróðurreiturinn er Hvannalindir, þar sem vatn er nægilegt. Lindahraun, 20-25 km², er í suðurjaðri þeirra, þar sem Fjalla-Eyvindur gerði sér bústað. Jarðvísindamenn álíta, að Kverkfjallakerfið sé austasta eldstöðvakerfi landsins, þótt Öræfajökull sé austar.

Vatnajökull hylur mikið land, sem er órannsakað og kynni að vera eldvirkt að hluta. Jökulsá á Breiðamerkursandi hefur hlaupið í aldaraðir á sögulegum tíma og árið 1927 var talað um ösku og brennisteinsfnyk á Sandinum.

Eftir stofnun þjóðgarðsins Vatnajökuls hinn 7. júní 2008 Kverkfjöll eitt aðsetra þjóðgarðsvarða.

Myndasafn

Í grennd

Eldgos á Íslandi
Eyjar í Atlantshafi, sem orðið hafa til á rekás Atlantshafshryggjarins: Asoreyjar, Bermuda, Madeira, Kanaríeyjar, Ascension, St. Helena, Tristan da Cu…
Gæsavatnaleið
Nú á dögum eru fáar fjallaleiðir eftir fyrir þá, sem kæra sig ekki um uppbyggða vegi og brýr yfir allar . Gæsavatnaleið liggur frá Tómasarhaga og Haga…
Hálendið, ferðast og fræðast
Þegar talað er um (Hálendið) miðhálendið, er yfirleitt miðað við landsvæði ofan 400 m hæðar yfir sjó. Þetta svæði nær yfir u.þ.b. 76% af flatarmáli la…
Holuhraun
Holuhraun eldgos Holuhraun kom líklega úr gígaröðum við jaðar Dyngjujökuls og í hrauninu sjálfu, nokkuð norðar. Það er úfið og illt yfirferðar sunnan…
Hvannalindir
Hvannalindir eru gróðurreitur í 630 m hæð yfir sjó á lindasvæði í Krepputungu. Lindirnar streyma fram undan Lindahrauni og Lindakvíslin rennur til Kre…
Kverkfjallaskáli
JÖKLARANNSÓKNARFÉLAG ÍSLANDS Kverkfjallaskáli var byggður árið 1977 í 1718 m.y.s. Hann hýsir 6-12 manns. GPS hnit: 64° 40.350' 16° 41.385'. Hei…
Sögustaðir Hálendinu
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Sögustaðir. Nýjar og gamlar Hálendisleiðir, útilegumenn, þjófar og draugar eru meðal þess sem finna má á sö…
Vatnajökulsþjóðgarður
Vatnajökulsþjóðgarður / Skaftafell /Jökulsárgljúfur var stofnaður 7. júní 2008. Hann nær í upphafi yfir 12.000 ferkílómetra svæði (12% landsins) en mu…
Þjóðgarðar Íslands
Þingvellir (1928) er sögufrægasti staður landsins og er í hjarta Þingvallasveitar. Þar ber Almannagjá  hæst og hinn forna þingstað við Öxará. Þingvall…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )