Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Herðubreið og Herðubreiðarlindir

Austan Dyngjufjalla í Ódáðahrauni rís rofinn fjallgarður, syðst Herðubreiðartögl, svo Herðubreið og norðan hennar Herðubreiðarfjöll með tindinum Eggert, Hrúthálsum og Gjáfjöllum. Herðubreið er áberandi og fallegt stapafjall (1682m) með allstóran gíg á kolli. Hún rís 1000-1100 m yfir umhverfið, snarbrött með hamrabelti efst. Ummál grunnflatarins er 8-9 km. Hátindurinn, sem er hæsti hluti gígsins, er á fjallinu suðaustanverðu. Útsýni er geysileg af tindinum í góðu veðri. Þaðan sést til sjávar allt í kringum landið á góðum degi. Eina velfæra leiðin upp fjallið er að norðvestanverðu. Þar eru skriðurnar og móbergshellan á leiðinni talsvert brattar, svo að bezt er að halda hópinn vel.

Talið er að fjallið hafi fyrst verið klifið 13. ágúst 1908. Herðubreið og nágrenni hennar var friðlýst 1974. Herðubreiðarlindir og Grafarlönd eystri eru innan friðlandsins. Herðubreiðarlindir eru ein fegursta hálendisvin landsins. Þær eru 5-6 km norðaustan Herðubreiðar, u.þ.b. 60 km sunnan þjóðvegarins á Mývatnsöræfum. Fjöldi linda kemur upp undan hraunjaðri Ódáðahrauns og myndar Lindaá, sem fellur til Jökulsár á Fjöllum 10 km norðar.

Á þremur smávötnum sunnan Lindanna eru oftast álftir, endur og jafnvel himbrimar á sumrin. Gróðursæld umhverfis þau og við Lindaá er mikil.

Gulvíðir, hvönn og sóleyjar eru meðal 72 tegunda jurta, sem hafa fundizt þar. Ferðafélag Akureyrar reisti Þorsteinsskála þar árið 1960. Talið er að Fjalla-Eyvindur hafi búið í Lindunumm einn vetur. Vegur var ruddur þangað árin 1938-39.

Herðubreiðarfjöll eru norðan Herðubreiðar. Syðst þeirra er Eggert (1332m), sem Þorvaldur Thoroddsen gaf nafn E. Ólafssonar. Hann er sundursprungið móbergsfjall norðaustan Kollóttudyngju. Á fjallinu vestanverðu er mikill gjallgígur auk fleiri á sömu sprungu. Það er bratt en ekki erfitt uppgöngu. Norðan Eggerts eru Hrúthálsar og Gjáfjöll (1094m) nyrzt.

Kollóttadyngja (1177m; halli 8°; Þvermál 6-7 km) rís 450 m yfir umhverfið norðvestan Herðubreiðar, syðst hinna svonefndu Herðubreiðarfjalla. Gígur dyngjunnar er u.þ.b. 800 m í þvermál og 20-30 m djúpur með stampi í miðju. Hann er 60-70 m djúpur og 150 m í þvermál. Úr honum er runninn fjöldi eldri hrauna í Útbruna og helluhraun umhverfis Herðubreið. Rétt norðaustan dyngjunnar er fjallið Eggert. Vestan hans eru Hrúthálsar, lágur og eggjóttur fjallgarður, sem nær norður að Gjáfjöllum. Gróðurlendið milli Eggerts og dyngjunnar er kallað Hrútsrandir. Bræðrafell er í suðurjaðri dyngjunnar (skáli FA 1977; tekur 12 manns).

Herðubreiðartögl eru sunnan Herðubreiðar, 8 km langur móbergsrani. Milli hans og Herðubreiðar er skarð, sem annaðhvort er gengið eða ekið að uppgöngustað Herðubreiðar. Töglin ná 450 m hæð yfir umhverfið.

Eftir stofnun þjóðgarðsins Vatnajökuls hinn 7. júní 2008 urðu Herðubreiðarlindir eitt aðsetra þjóðgarðsvarða.

Myndasafn

Í grennd

Askja Dyngjufjöll
Dyngjufjöll eru mikið fjallabákn (600 km²) í sunnanverðu Ódáðahrauni. Þetta fjalllendi umlykur 50 km² stóra sigdæld (öskju), sem heitir Askja. Fjöllin…
Grafarlönd eystri
Grafarlönd eystri eru í austanverðu Ódáðahrauni, norðan Herðubreiðar við veginn í Herðubreiðarlindir. Gróðurræmur eru meðfram Grafarlandaá, þar sem er…
Sögustaðir Hálendinu
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Sögustaðir. Nýjar og gamlar Hálendisleiðir, útilegumenn, þjófar og draugar eru meðal þess sem finna má á sö…
Vatnajökulsþjóðgarður
Vatnajökulsþjóðgarður / Skaftafell /Jökulsárgljúfur var stofnaður 7. júní 2008. Hann nær í upphafi yfir 12.000 ferkílómetra svæði (12% landsins) en mu…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )