Gönguleið: Laugavegur – Landmannalaugar – Þórsmörk
Gönguvegalengd u.þ.b. 55 km. Þórsmörk – Skógar 24-26 km. Laugavegurinn er nafn, sem hefur festst við þessa leið á undanförnum árum. Leiðin er stikuð og skálar eru í Hrafntinnuskeri, við Álftavatn og í Fremri-Botnum við Syðri-Emstruá auk leitarmannaskála í Hvanngili og Hattfellsgili, þannig að dagleiðir eru þægilegar. Tæpast er hægt að finna fegurra og litskrúðugra landslag til að ganga um en á þessari leið.
Fyrsti áfangi úr Landmannalaugum liggur í Hrafntinnusker, 10-12 km með 470 m lóðréttri hækkun og 50 m lækkun. Göngutíminn er 4-6 klst.
Annar áfangi endar við Álftavatn, 10-12 km með 490 m lóðréttri lækkun. Göngutími er 4-5 klst.
Þriðji áfanginn liggur til Fremri-Botna við Syðri-Emstruá, 16 km með 40 m lóðréttri lækkun. Göngutíminn er 5-6 klst.
Fjórði áfanginn endar í Þórsmörk, 15-16 km með 300 m lóðréttri lækkun og 100 m hækkun um mishæðótt land. Göngutíminn er 5-6 klst.
Leiðin frá skála Útivistar í Básum yfir Fimmvörðuháls til Skóga er 22-24 km. Uppi á hálsinum er nýlegur skáli Útivistar, þannig að hægt er að skipta göngunni milli tveggja daga, 5 klst. hvorn dag. Leiðin er vel stikuð, en bæði slóð og stikur hverfa í snjó efst. Nauðsynlegt er að vera vel búinn, því allra veðra er von. Árið 1970 urðu illa búnir göngumenn úti á hálsinum.
Bent skal á bókina „Gönguleiðir að Fjallabaki” eftir Guðjón Ó. Magnússon til frekari glöggvunar.
Sannir göngumenn skilja aðeins sporin sín eftir og taka aðeins með sér minningarnar!
Gönguleiðir Laugavegur 2 dagar:
1. Álftavatn-Emstrur-Þórsmörk:
Fyrsti áfangi liggur frá Álftavatni til Fremri-Botna við Syðri-Emstruá, 16 km með 40 m lóðréttri lækkun. Göngutíminn er 5-6 klst.
Annar áfangi frá Emstrur og endar í Þórsmörk, 15-16 km með 300 m lóðréttri lækkun og 100 m hækkun um mishæðótt land. Göngutíminn er 5-6 klst.
2. Álftavatn-Hrafntinnusker-Landmannalaugar:
Fyrsti áfangi liggur frá Álftavatni í Hrafntinnusker, 10-12 km. Göngutími er 4-5 klst.
Annar áfangi liggur frá Hrafntinnuskeri, 10-12 km til Landmannalauga. Göngutími er 4-6 klst.
SKÁLAR Á GÖNGULEIÐINNI LANDAMANNALAUGAR – ÞÓRSMÖRK
Landmannalaugar Hrafntinnusker Álftavatn Emstrur