Bolungarvík er kaupstaður við utanvert Ísafjarðardjúp og tengist Ísafirði með Óshlíðarvegi, sem þótti mikil framkvæmd um miðja öldina. Útræði hefur verið stundað þar allt frá landnámsöld og er Bolungarvík ein af merkustu verstöðvum landsins.
Vinsælt er að aka um 12 km. langan fjallveg til Skálavíkur og njóta náttúrufegurðar og berja miðnætursólina augum. Eftirlíking gamallar verbúðar var reist skammt sunnan bæjarins og þar er gaman að staldra við og hverfa aftur í tímann (Ósvör). Reglulegar ferðir til Hornstranda eru í boði frá Bolungarvík sem og önnur fjölbreytt afþreying fyrir ferðamenn.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 500 km.