Aðalatvinnuvegir í hreppnum eru landbúnaður, þjónusta við íbúa og sumargesti og ferðaþjónusta í vaxandi mæli. Einnig hafa nokkrir atvinnu við Sogsvirkjanirnar, en þar hefur myndast lítið þéttbýli og anga af slíku er að finna við Borg. Þar var fyrst skóli og síðar félagsheimili og verzlun. Stærsti byggðarkjarninn er að Sólheimum, þar sem u.þ.b. þriðjungur íbúa sveitarfélagsins býr. Kirkjur eru á Mosfelli, Stóru-Borg og Búrfelli auk kapellu á Sólheimum.
Jarðhiti hefur fundizt á nokkrum stöðum með borunum og notendum hitaveitu fer fjölgandi í sveitinni. Fiskeldi, iðnaður og gróðurhúsarækt eflast smám saman. Sumarhúsabyggðin í Grímsnesi er hin stærsta á landinu og þenst stöðugt út. Kunnustu staðir sveitarinnar eru Kerið, Seyðishólar, Þrastarskógur og virkjanir við Sogið. Kerið og Kerhóll auk svæða við neðri hluta Sogsins, sem eru á náttúruminjaskrá.
Sólheimar. Segja má, að eina alvöruþéttbýli Grímsness sé að Sólheimum. Þar býr u.þ.b. þriðjungur íbúa sveitarfélagsins. Þar eru starfrækt a.m.k. fimm fyrirtæki og fjögur verkstæði. Þar hófst fyrst lífræn ræktun á Norðurlöndum. Sesselja Hreindís Sigmundsdóttir (1902-1974) stofnaði Sólheima 5. júlí 1930 sem barnaheimili og síðar jafnframt miðstöð þjónustu við fatlaða. Sesselja var ekki einungis brautryðjandi í málefnum fatlaðra á Íslandi, heldur í öllum heiminum með stefnu sinni um blöndun (samskipan) fatlaðra og ófatlaðra.
Sólheimar eru fyrsti staðurinn í heiminum, þar sem þjónusta við fatlaða er veitt utan stofnana og vistheimila og fatlaðir og ófatlaðir búa saman og deila kjörum. Í apríl 1997 voru Sólheimar útnefndir fyrsta sjálfbæra byggðahverfið á Ísland af alþjóðasamtökunum „Global Eco-village Network”.
Á Sólheimum er m.a. verzlunin Vala og listhús, skógræktarstöðin Ölur, garðyrkjustöðin Sunna, Kertagerð Sólheima, hljóðfærasmiðja, leikfangasmiðja, vefstofa, listasmiðja og gistiheimilið Brekkukot, sem er opið allt árið, auk Sólheimabúsins. Á staðnum er m.a. sundlaug og íþróttaleikhús.
Gönguleiðir eru víða í Grímsnesi, s.s. meðfram Soginu, á Búrfell, að Hestvatni og á Hestfjall.
Hvað er betra enn að Ferðast og Fræðast !!!