Snæfellsnes er þekkt fyrir fjölbreytta fegurð og dramatískt landslag og fjölbreytt afþreying. Á Snæfellsnesi má m.a. finna ölkeldur, lifandi strandmenningu, fjörur og lífleg fuglabjörg, fallegar sveitir, skemmtileg þorp og bæi:
Stykkishólmur er oft kallaður höfuðstaður Snæfellsness. Bærinn stendur á innanverðu Snæfellsnesi, yzt á Þórsnesi. Byggðin stendur á klettaborgum með flóasundum á milli.
Grundarfjörður er sérlega fagur fjörður, umluktur fjöllum á þrjá vegu, sem eiga vart sinn líkan að fjölbreytni, og er þar Kirkjufell mest áberandi. Samnefnt kauptún er staðsett í vinalegu umhverfi inni í firðinum og er þar mikil fiskvinnsla og útgerð. Í botni Grundarfjarðar á Grundarkampi er forn verslunarstaður og eru þar tóftir allt frá tímum einokunarverslunarinnar.
Ólafsvík byggð myndaðist snemma , enda góð fiskimið úti fyrir og góð lending. Hafnaraðstaða var bætt mjög um miðja 20. öldina og óx byggðin hratt í kjölfarið. Gamalt pakkhús frá 1844 er á staðnum og er nú minjasafn.
Hellissandur var mikil verstöð á líkt og víðar á útnesinu. Sjóminjasafnið í Sjómannagarðinum geymir m.a. Blika, elzta varðveitta áraskip á Íslandi, smíðað 1826. Staðurinn er dæmigert sjávarþorp þótt engin sé höfnin.
Arnarstapi er lítið útgerðarpláss undir Stapafelli á milli Breiðuvíkur og Hellna. Norðan í fellinu er sönghellir, þar sem Bárður Snæfellsás er sagður hafa búið. Vitinn er frá 1941. Þar var verzlunarstaður á einokunartímanum.
Hellnar eru lítið sjávarpláss vestan Arnarstapa. Þar var fyrrum einhver stærsta verstöð á Snæfellsnesi, nokkur grasbýli og 32 þurrabúðir.
Einnig er þar Gvendarbrunnur (sem einnig hefur verið kallaður Maríulind á síðustu árum), bergvatnslind, sem sprettur undan hraunjaðrinum í túni Skjaldartraðar. Þar hafa sumir, sem vita lengra en nef þeirra nær, séð heilagri guðsmóður bregða fyrir.
Hellnar eru í næsta nábýli við nýjasta þjóðgarðinn okkar, Snæfellsjökul, í u.þ.b. 6 km fjarlægð.
Hefjum ferðina frá Stykkishólmi:
Grundarfjörður 46 km <Stykkishólmur> Búðardalur 86 km, Borgarnes 98 km.