Þjóðvegurinn yfir heiðina var að mestu ruddur um grýttar brekkur og gróðursnauðar melöldur upp úr botni Þorskafjarðar niður í Langadal við Djúp á árunum 1940-46. Heiðin er allt að 490 m há og talsvert ekin á sumrin en lokast strax og fer að snjóa. Vegurinn um Steingrímsfjarðarheiði var lagður vegna þessara erfiðu vetrarsamgangna og var opnaður árið 1984. Skammt frá vegamótum þessara tveggja fjallvega er sæluhús frá 1956. Tótt eldra sæluhúss sést nokkuð lengra til norðurs.
Þorskafjörður er u.þ.b. 16 km langur. Hann er mjór og í honum er mikið útfiri. Ferðafólk reið gjarnan vaðlana milli Skóga og Múla á fjöru. Músará og Þorskafjarðará falla út í fjarðarbotninn og báðar eru góðar silungsár. Gömul reiðleið liggur frá Múla norður Þorskafjarðarheiði.
Hjallaháls er á milli Þorskafjarðar og Djúpafjarðar. Vestfjarðavegur liggur yfir hann. Víða á hálsinum finnast margs konar náttúrusteinar (jaspís, bergkristallar, geislasteinar o.þ.h.). Margir álíta Hjallaháls bezta útsýnisstað yfir Breiðafjörð, Gilsfjörð og nánasta umhverfi.