Sagt er að Þjórsárdalur hafi verið í byggð frá landnámi til stórgoss Heklu árið 1104, þegar byggðin eyddist næstum alveg í dalnum.
Þjóðveldisbærinn var reistur þar og vígður árið 1974 á 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar og er opinn almenningi á sumrin. Hann var byggður með rústirnar að Stöng, ofar í dalnum, sem fyrirmynd (uppgröftur 1939). Stöng er tengd örstuttri sögu um Gauk trandil, sem er sagður hafa búið þar og fíflað bóndakonuna á Steinastöðum, systur fóstbróður hans, Ásgríms Elliðagrímssonar. Þrátt fyrir blóðböndin vó Ásgrímur Gauk á Gaukshöfða við Þjórsá fyrir þessar ávirðingar. Þar fannst kuml með vopnum og öðrum minjum, sem eru varðveittar á Þjóðminjasafni.
Í þjórsárdal er útisundlaug, sem starfsmenn Landsvirkjunar byggðu á meðan Búrfellsvirkjun var í byggingu. Hún er opin almenningi á sumrin. Næsthæsti foss landsins, Háifoss, er innst í dalnum í Fossá. Annar foss, Granni, fellur fram af sömu bjargbrún við hliðina á honum. Það er auðveldara að komast að fossunum frá línuveginum ofan við þá en að aka upp allan dalinn (aðeins fjórhjóladrifsbílar). Rétt hjá fornleifauppgreftrinum að Stöng er önnur náttúruperla, Gjáin, sem enginn ætti að láta fram hjá sér fara.
Þar sést fagurt samspil landslags, gróðurs, fossa og lækja. Hægt er að aka frá Stöng upp að góðum útsýnisstað við Gjána og áfram upp á Haf að Hólaskógi og Sandafelli við Þjórsá og inn á leiðina að Hrauneyjum, Sigöldu, Sprengisandi og Landmannalaugum.
Enn þá eru tveir bæir í byggð í Þjórsárdal, Ásólfsstaðir (gistihús 1928-52) og Skriðufell, sem er í eigu Skógræktar ríkisins (tjaldstæði; mannamót).
Rauðukambar eru skrautlegir og litríkir ríólíthryggir, sem skipta Þjórsárdal í tvo botna. Fossá steypist niður í eystri botninn, Fossárdal, en Bergálfsstaðaá rennur eftir vestari botninum. Milli Reykholts og Rauðukamba er sundlaugin, sem er getið hér að ofan.
Skriðufell er bær í Þjórsárdal í eigu Skógræktar ríkisins. Þarna er birkiskógur, sem hefur verið girtur og friðaður og mikið hefur verið gróðursett af öðrum tegundum, aðallega greni. Tjaldstæði er að Skriðufelli.