Snæfellsnes:
Snæfellsjökull (1446m) á Snæfellsnesi er meðal formfegurstu jökla landsins. Flatarmál hans hefur minnkað mikið, að vart er meira eftir en u.þ.b. 7 km². Hann hvílir á keilulaga eldfjalli, sem hefur ekki gosið síðustu 1800 árin og umhverfis það eru nokkur hraun og fallegir gígar frá nútíma. Sum hraunanna hafa runnið í sjó fram og styrkt yzta hluta Snæfellsness gegn ágangi sjávar. Gosin í Snæfellsjökli eru talin hafa verið bæði sprengigos og hraungos, eins og glögglega má sjá í hlíðum fjallsins.
Stykkishólmur er oft kallaður höfuðstaður Snæfellsness. Bærinn stendur á innanverðu Snæfellsnesi, yzt á Þórsnesi. Byggðin stendur á klettaborgum með flóasundum á milli. Þarna eru þrír aðalklettahryggir, sem liggja frá norðaustri til suðvesturs, Ytrihöfði, Höfði og Steinólfshóll. Bærinn ber nafn sitt af klettahólmanum Stykki, sem er nú undir aðalbryggjunni. Höfnin er góð frá náttúrunnar hendi, þar sem Súgandisey, sem er tengd landi með hafnargarði, liggur þvert fyrir landi og ver hana fyrir norðanáttinni. Nánar um Stykkishólm undir áhugaverðir staðir hér að neðan. Fransiskussystur komu til landsins árið 1935 og reistu sér klaustur, skóla, prentsmiðju og kirkju í Stykkishólmi. Þær byggðu síðan spítala þar af miklum stórhug og er hann starfræktur enn þá. Árið 2009 voru þær aðeins fjórar og ákveðið var að þær hættu og Maríusystur tækju við starfseminni. Amtbókasafnið var stofnað árið 1847 og árið 1960 var byggt hús yfir það á Þinghúshöfða.
Grundarfjörður er sérlega fagur fjörður, umluktur fjöllum á þrjá vegu, sem eiga vart sinn líkan að fjölbreytni, og er þar Kirkjufell mest áberandi. Samnefnt kauptún er staðsett í vinalegu umhverfi inni í firðinum og er þar mikil fiskvinnsla og útgerð. Í botni Grundarfjarðar á Grundarkampi er forn verslunarstaður og eru þar tóftir allt frá tímum einokunarverslunarinnar.
Ólafsvík Byggð myndaðist snemma í Ólafsvík, enda góð fiskimið úti fyrir og góð lending. Hafnaraðstaða var bætt mjög um miðja 20. öldina og óx byggðin hratt í kjölfarið. Gamalt pakkhús frá 1844 er á staðnum og er nú minjasafn. Til margra ára var blómleg útgerð og fiskvinnsla í Ólafsvík og fjöldi aðkomufólks sótti vinnu þangað. Fyrrum var mikil verstöð á Hellissandi og er þar sjóminjasafn, sem geymir m.a. Blika, elzta áraskip landsins, smíðað 1826.
Bæjarskrifstofur Snæfellsbæjar eru staðsettar á Hellissandi.
Rif var einhver mesta verzlunarhöfn á Snæfellsnesi áður fyrr, en höfnin eyðilagðist þegar Hólmkelsá breytti farvegi sínum. Góð höfn er nú á Rifi. Útgerð og fiskvinnsla eru uppistaðan í atvinnulífi Ólafsvíkur, Hellissands og Rifs. Ólafsvík, Hellissandur og Rif eru nú hlutar Snæfellsbæjar.
Stykkishólmur
Grundarfjörður 46 km <Stykkishólmur> Búðardalur 86 km, Borgarnes 98 km.