Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Skoða Hvalfjörð frá Reykjavík

hvalfjordur

Hvalfjörður:

Hinn fagri Hvalfjörður gengur inn úr Faxaflóa milli Akraness og Kjalarness. Hann er u.þ.b. 30 km langur, 4-5 km breiður og víðast alldjúpur. Mesta dýpi er utan Kiðafells í Kjós, 84 m. Innarlega kvíslast hann í Laxárvog, Brynjudalsvog og Botnsvog, sem eru grunnir og þar koma upp leirur á útfallinu. Innantil við fjörðinn eru fremur sæbrött fjöll, en undirlendi er talsvert við hann utanverðan. Innanvert ber mest á Múlafjalli, Hvalfelli (848m), Botnsúlum (1095m) og Þyrli.

Fyrrum gekk mikið af fiski inn í Hvalfjörð og þar upplifðu Vestlendingar stutt síldarævintýri 1947-48. Örnefnið Síldarmannagötur í Botnsvogi gæti bent til síldveiða í firðinum fyrrum. Hvalir sáust þar oft, síðast, að vitað er, árið 1998, þegar heil háhyrningafjölskylda var að leik eða í ætisleit í Brynjudalsvogi. Nöfn fjarðarins, hæsta foss landsins, Glyms, Hvalfells og Hvalvatns eru dregin af ferð illhvelisins „Rauðhöfða” inn fjörðinn, upp Botnsá og Glym, allt upp í Hvalvatn, þar sem hann bar beinin.

Síldarmannagötur eru götuslóði, sem liggur upp fjallið rétt fyrir utan Botnsskála í Hvalfirði yfir í Skorradal. Gatan hlykkjast upp eftir Síldarmannabrekkum skammt utan við Brunná. Við upphaf leiðarinnar hefur verið hlaðin stór varða og öll leiðin var stikuð og vörðuð sumarið 1999. Ganga um Síldarmannagötur tekur um 4 tíma og er hvorki erfið né hættuleg. Útsýnið af Þyrli er mikið og fagurt, landslagið fjölbreytt og örnefni fjölmörg. Við Bláskeggsá má velja um að ganga áfram norður Síldarmannagötur eða fara eftir gamalli götu niður í Litlasandsdal.

Verzlunarstaðirnir Hvalfjarðareyri og Maríuhöfn í Kjós voru fjölsóttir fyrrum og líklega lögðu kaupmenn, sem skunduðu á Þingvöll með vöru sína um þingtímann þar upp. Talið er að Hvala-Einar hafi komið þangað árið 1402 og flutt með sér svartadauða, skæðustu drepsótt, sem hefur geisað hérlendis fyrr og síðar (u.þ.b. þriðjungur landsmanna féll í valinn).

Bretar og Bandaríkjamenn byggðu herstöðvar á Hvítanesi, Litlasandi og Miðsandi. Lítil merki sjást um veru þeirra á Hvítanesi en handan fjarðar hafa margir braggar verið varðveittir. Fjörðurinn var mikilvægur viðkomustaður skipalesta frá Englandi og Bandaríkjunum, sem voru á leið til Murmansk í Rússlandi í síðari heimsstyrjöldinni. Bandamenn reistu bryggju undir Þyrilsklifi. Hún var síðar notuð fyrir hvalveiðara Hvals hf., sem byggði hvalstöðina, sem enn stendur.

Hernámssetrið að Hlöðum
Á Hernámssetrinu er rakin einstök og merkileg saga hernáms á árunum 1940 til 1945, saga sem breytti friðsælli sveit í umgjörð heimsviðburða og skipti sköpum fyrir sigur bandamanna í síðari heimsstyrjöld.

Hvalfjörður er m.a. tengdur Harðarsögu og hólmverja, sem settust að á Geirshólma og stunduðu gripdeildir sér til framfæris. Þeir voru að lokum lokkaðir með svikráðum í land og drepnir, en frægt er sund Helgu með börnin tvö í land, enda voru þau hin einu, sem komust af.

Litlu vestan Ferstiklu á Hvalfjarðarströndinni liggur vegur að Hótel Glymi í mynni Mjóadals og Vatnaskógi, þar sem KFUM rekur sumarbúðir drengja. Fyrrum voru tvö býli í Vatnaskógi, Oddakot og Fúsakot. Friðrik Friðriksson (1866-1961) stofnaði KFUM í Reykjavík 1899 og knattspyrnufélagið Val. Hann fæddist að Hálsi í Svarfaðardal og var afkastamikill rithöfundur.

Loðdýrabúin sem voru fyrir neðan Ferstiklu heita Krókar og Oddsmýri.
Byggðin og sundlaugin vestan Ferstiklu heitir Hlíðarbær. Sundlaugin er jafnframt félagsheimilið Hlaðir.

Akranes 34 km, Borgarnes 60 km, Húsafell 117 km.<Kjósarhreppur>Reykjavík 15 km

Myndasafn

Í grennd

Ferstikla
Ferstikla á Hvalfjarðarströnd var í upphafi bústaður landnámsmannsins Kolgríms hins gamla frá Þrándheimi. Tengdafaðir hans, Hróðgeir spaki, bjó að Sau…
Geirshólmur
Geirshólmur er næstum kringlóttur klettshólmur, nærri Þyrilsnesi í Hvalfirði. Hans er getið í Sturlungu Harðar sögu og hólmverja. Hörður Grímkelsson …
Hvalfjarðareyri
Hvalfjarðareyri gengur út í Hvalfjörð sunnanverðan. Þaðan stytti fólk sér leið með ferju að Katastaðakoti  áður en vegur var lagður fyrir fjörðinn. Ef…
Kjósarhreppur
Kjósarhreppur Sveitafélagið er dreifbýlishreppur (landbúnaðarhérað), 298 ferkílómetrar að stærð. Íbúar með  lögheimili í hreppnum 1. janúar 2020 vor…
Maríuhöfn
Maríuhöfn er forn verzlunarstaður við Laxárvog utan- og norðanverðan í Hvalfirði. Allt frá þjóðveldisöld   var Maríuhöfn meðal aðalsiglingastaða lands…
Sandaþorp
Leifar braggahverfisins í löndum Mið- og Litla-Sands, sem reis í síðari heimsstyrjöldinni (Bretar og Bandaríkjamenn), og mannvirki, sem risu síðar, að…
Sögustaðir Vesturlandi
Ýmsir staðir tengdir sögu landshlutans Borgarfjörður Snæfellsnes Dalir Landshlutar Ferðavísir…
Þyrill
Þyrill er fjall (388m) og bær við innanverðan Hvalfjörð. Nafn fjallsins er talið dregið af miklum  sviptivindum, sem oft gera vart við sig. Í fjallinu…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )