Leifar braggahverfisins í löndum Mið- og Litla-Sands, sem reis í síðari heimsstyrjöldinni (Bretar og Bandaríkjamenn), og mannvirki, sem risu síðar, aðallega í tengslum við Hvalstöðina, fékk nafnið Sandaþorp í munni manna. Ofan þess eru olíutankar, sem íslenzk fyrirtæki nýttu sér að lokinni styrjöldinni. Vestan byggðarinnar eru eldsneytistankar Atlantshafsbandalagsins fyrir kafbáta og sérstök bryggja fyrir þá.
Á flatlendinu austan þorpsins er talið, að Hvalstrendingar og Botnverjar hafi keppt í knattleik, sem leiddi til dauða 6 Hvalstrendinga (Harðarsaga).
Jarðirnar Mið- og Litli-Sandur voru teknar eignarnámi í upphafi stríðsins og ábúendum vísað brott. Meðal þeirra var gömul ekkja, sem fór mjög nauðug og lagði svo á, að enginn mætti búa þarna lengur en 10 ár. Í landi Litla-Sands er einnig álagabrekka, sem mátti ekki slá eða hreyfa við og varð báðum stórveldunum ofurefli (Jörð í álögum). Í Jörð í álögum segir einnig frá draug úr Harðarsögu, sem stríddi þeim.
Til skamms tíma var þarna veitinga- og benzínsala, sem var lokað. Slíka þjónustu er enn þá að hafa í Ferstiklu á Hvalfjarðarströnd, þar sem áhugaverðar myndir frá stríðsárunum hanga á veggjum.
Opinberlega var hvalveiðum í vísindaskyni hætt árið 1989, þannig að braggahverfið hefur ekki verið nýtt fyrir starfsfólk Hvalstöðvarinnar síðan. Engu að síður hefur húsnæðinu verið haldið við á meðan beðið hefur verið eftir leyfi stjórnvalda til hvalveiða á ný (leyfi til veiða 38 hrefna var gefið út 1. október 2003). Alls staðar á landinu hefur minjum frá síðari heimsstyrjöldinni verið eytt eða þær grotnað niður, þannig að hvergi er að finna jafnmiklar og heillegar minjar og þær, sem standa enn þá í Sandaþorpi.