Sauðárkrókur er kaupstaður innst í Skagafirði vestanverðum. Þar er blómleg útgerð og fiskvinnsla og öflug þjónusta við nágrannasveitir. Ferðaþjónusta er í örum vexti, enda er margt að skoða í sjálfum bænum og nágrenni. Þessi vinalegi kaupstaður, sem er á hárri fallegri strönd við fjörðinn, býður upp á skemmtilegt útsýni til tígnarlegra fjalla og fagurrar náttúru. Fyrir utan Sauðárkrók eru eyjarnar Drangey og Málmey. Farnar eru skipulagðar ferðir út í Drangey og er fólki boðið að ganga upp á eyna í fylgd reyndra heimamanna. Bílferðir eru út á Reykjaströndina. Þar er jarðhiti og mikið af rekaviði og gaman er að skoða steinvölur í öllum regnbogans litum í fjörunni. Sauðkrækingar, eins og aðrir Skagfirðingar, eru miklir hestamenn og eru haldin árleg hestamannamót að Vindheimum í Skagafirði.
Sæluvika Skagfirðinga er árlegur viðburður, sem dregur til sín fólk alls staðar að og er þá mikið um dýrðir. Sjóbirtingsveiði má stunda frá ströndinni og góð veiði er í nálægum vötnum og ám. Bátaleiga og hestaleiga eru á boðstólunum og 9 holu golfvöllur er fyrir ofan bæinn.
Vegalengdin frá Reykjavík (Langidalur) er um 320 .
Blönduós um Þverárfjall (744) 47 km.