Eyjar í Atlantshafi, sem orðið hafa til á rekás Atlantshafshryggjarins: Asoreyjar, Bermuda, Madeira, Kanaríeyjar, Ascension, St. Helena, Tristan da Cunha o.fl. Gliðnun Atlantshafshryggjar byrjaði að norðanverðu fyrir u.þ.b 150 milljónum ára og fyrir 90 m. ára að sunnanverðu.
Ísland er stærsta eyjan á Atlantshafshryggnum vegna þess, að saman fara plötuskil eða rekás hryggjarins og heitur reitur, sem plöturnar hafa færzt yfir og er enn þá undir landinu. Landið færist smám saman norðvestur yfir hann. Þetta samspil er einsdæmi á Atlantshafshryggnum. Ísland væri líklega ekki til, ef einungis hefðu komið til gos vegna landreks. Landið væri allt öðruvísi í lögun, ef heiti reiturinn hefði einn valdið gosum, líklega eitthvað í líkingu við Hawaii. Flekarekið er í austur og vestur, en ameríska og evróasíska kerfið færist saman í norðvestur yfir heita reitinn. Hægt er að rekja feril, sem heitir reitir mynda á plötunum vegna þess, að þær færast yfir þá líkt og þykk stálplata sé logskorin, loginn er fastur en flekarnir færast. Ofan á heita reitnum, undir mestöllu landinu er 20 – 100% hlutbráðið lag. Það er ofan á möttulstreyminu á ca. 5 – 20 km dýpi, þannig að þar er nóg efni í eldgos. Heiti reiturinn veldur gosum á Suðurlandsgosbeltinu (Surtsey, Vestmannaeyjar, Katla, Eyjafjallajökull, Tindfjöll, Hekla, Mýrdalsjökull, Lakasvæðið, Veiðivatnasvæðið og Vatnajökull). Hann er kominn austur fyrir rekásinn á Reykjanesi, sem er samt enn þá mjög gosvirkur vegna austur-vestur reksins. Rekásar um Snæfellsnes og Húnaflóa hættu að vera virkir fyrir u.þ.b. 7 millj. ára. Þar var heiti reiturinn fyrir u.þ.b. 60 millj. ára nærri núverandi Færeyjum. Hann skildi þá eftir basalt á Grænlandi (Gunnbjörnsfjall) og neðansjávarhrygginn til Færeyja.
Núverandi lega miðju heita reitsins er undir Trölladyngju og er hann 275 – 375 km djúpur. Hann nær líklega undir meginhluta Vatnajökuls og allan Hofsjökul, þar sem stendur líklega stærsta eldfjall landsins (askja) undir ísnum. Kvikuþrær (100% bráðið berg) eru 100 – 1000 km3 að stærð og eru á u.þ.b. 10 km dýpi undir eldvirku beltunum. Þær fæða kvikuhólf undir megineldstöðvunum. Lögun þrónna sést vel á yfirborðinu, sbr. Krafla, þar sem hún er á u.þ.b. 3 km dýpi, en kvikuhólfið enn þá grynnra (700 m). Undir Heklu er ekkert kvikuhólf, en kvikuþróin er á u.þ.b. 8 km dýpi, 40 km löng. Hólf eru ca. 10% af stærð þróa, t.d. 42 km3 undir Kröflu. Þegar gýs í Kröflu, kemur kvikan úr hólfinu en úr þrónni, sem er dýpra, þegar gýs í Gjástykki. Þetta hafa rannsóknir á efnasamsetningu hrauna á hvorum stað sannað. Líparít er ekki til á Íslandi heldur ríólít, dasít, millidasít o.fl. súrar bergtegundir. Þær eru u.þ.b. 10% af íslenzku bergi. Þóleiít er algengasta tegund basalts á landinu, en það skiptist í fjölda tegunda innbyrðis. Hreinn ólivínsandur finnst í Háleyjarbungu á Reykjanesi, skammt frá saltverksmiðju. Jökull var útbreiddur lengur á Íslandi en menn héldu. Jöklullaust varð fyrir ca. 9000 árum. Jökulskeið (ca. 30 á ísöldinni) voru ca. 100.000 ára löng og hlýskeið á milli þeirra ca 10000 ár. Jökulskeið koma og fara mjög snöggt (ca. 50 – 100 ár). Sveiflur eru sneggri en áður var talið, þótt tiltölulega langan tíma taki að ná hámarkinu.
„Jökull“ grein eftir Ólaf Ingólfsson o.fl. „Iceages” eftir Jon Ericson, fæst í Bóksölu Stúdenta.
Aldur berglaga frá vestri til austurs 16 – 10 milljónir ára. Átta megineldstöðvar þekkjast af ljósu bergi (t.d. gabbró) og háhitaummyndunum. Gullleit 1992-93 í tengslum við háhitasvæði. Hrappsey er gerð úr Anortosíti (tunglbergi; hin teg. á tunglinu er nórít), en anortosít er ljósa bergið á tunglinu. And- og samhverfuhugtökin eru fengin að láni frá lýsingu fellingafjalla. Hér verða þær til vegna fergingar og e.t.v sigs, sem skapar halla inn að rekbeltunum. Rekásarnir gömlu færast með öðru til austurs og vesturs.
Litla ísöld: Árið 2012 komu fram niðurstöður rannsókna setlaga í Hvítárvatni, sem benda til fjögurra stórra eldgosa á árabilinu 1275-1300, sem ollu verulegri kólnun langt fram á 19. öld. Íslenzkir og bandarískir vísindamenn voru þarna að verki og þeir álíta að þessi setlög geri þeim kleift að tímasetja litlu ísöldina nokkuð nákvæmlega (Áslaug Geirsdóttir, prófessor við jarðvísindadeild H.Í.; skv. fréttum 1. febrúar 2012).
Einhugur hefur ekki verið um upphaf litlu ísaldar og margir vísindamenn töldu hana hafa hafizt í kringum 1450 og ýmist var hún tengd eldgosum eða sólblettum. Þessi rannsókn bendir til að þessi fjögur gos hafi orðið í hitabeltinu, þótt lítið sé vitað um þau, en íslenzk eldfjöll hafi líka lagt sitt af mörkum við kælingu alls norðurhvels jarðar í u.þ.b. 600 ár. Niðurstöðurnar fengust við samanburð á rannsóknum á Baffinslandi og borkjarna úr Grænlandsjökli.
Hvítárvatnssetlögin, sem voru óvenjulega þykk, benda til þess, að Langjökull hafi verið óvenjulega stór á þessu árabili og aftur í kringum 1450. Eldgosin þeyttu upp geysimiklu magni brennisteinsagna, sem drógu verulega úr áhrifum sólarljóss. Það var ekki næg ástæta til viðvarandi kólnunar í svo langan tíma, en mikil útbreiðsla hafíss á norðurhveli hélt kuldanum lengur við. Nú er talið, að meðalhiti hafi lækkað um 1-2 gráður af þessum sökum og því hafi orðið hið kaldasta skeið á undanförnum 8000 árum.