Ísland státar ekki af mörgum tegundum villtra dýra miðað við mörg önnur lönd og álfur. Landið er og hefur verið einangrað og einkum vettvangur fugla og sjávardýra. Fljúgandi tegundir skordýra hafa borizt seint til landsins með vindum og innfluttum varningi, og hefur fjölgað smám saman. Varpfuglaflóran hefur einnig stækkað smám saman. Einu tegundir fljúgandi spendýra (leðurblökur), sem hafa borizt til landsins, þrífast ekki hér. Slöngur, snákar og skriðdýr þrífast ekki utanhúss hérlendis, þótt ýmsar slíkar tegundir hafi verið fluttar inn ólöglega sem gæludýr. Flestar dýrategundir, sem hafa borizt með farartækjum frá öðrum heimshlutum, hafa sem betur fer ekki þrifizt í íslenzkri náttúru. Nokkrar tegundir hafa verið fluttar inn í tilraunaskyni, en fæstar þeirra lifað af, s.s. sauðnaut og snæhérar. Samskipti manna og villtra dýra og viðhorf til þeirra fara mikið eftir nytjamöguleikum eða ógagnsemi hérlendis. Engar tegundir villtra landspendýra eru alfriðaðar, sjávarspendýr eru friðuð að selum frátöldum, nokkrar fuglategundir eru alfriðaðar, margar tímabundið ár hvert og aðrar ófriðaðar. Fáar eða engar skordýrategundir eru friðaðar.
Lög og reglur um innflutning húsdýra, gæludýra og framangreindra dýra eru mjög strangar og skýrar, þar sem þau dýr, sem fyrir eru í landinu, eru mjög næm fyrir flestum sjúkdómum vegna aldalangrar einangrunar landsins. Tilraunir til innflutnings ýmissa húsdýra hafa endað með ósköpum eins og dæmin sanna, en ekki virðist hafa gætt afleiðinga af innflutningi villtra dýra, þótt sú hætta sé vissulega fyrir hendi.