Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Íslenskir Nautgripir

Íslenzka kúakynið. Íslenzka kúakynið er talið að uppruna hið sama og var flutt hingað við landnám fyrir   um 1100 árum og er þar af leiðandi skylt norska kúastofninum. Mikil litafjölbreytni er í einkennir stofninn. Kýrnar geta verið rauðar, svartar, kolóttar, skjöldóttar, bröndóttar, gráar, sægráar og svo mætti lengi telja. Kýr gera einnig verið hyrndar, hníflóttar eða kollóttar. Áður fyrr var megnið af kúm hyrnt en í dag eru kollóttar kýr í miklum meirihluta. Í fyrstu voru nautgripir aðallega notaðir til jarðyrkju en síðar fóru bændur að huga meira að mjólkurnytjum.

Fjöldi nautgripa á Íslandi. Samkvæmt hagtölum landbúnaðarins 2005 voru nautgripi á landinu alls 65.971 og þar af 24.537 mjólkurkýr.

Þess má svo til gamans geta að á Sturlungaöld er tali að gífurlegur fjöldi nautgripa hafi verið á landinu eða allt að 135,000 gripir og þar af um 80,000 mjólkandi kýr. Munu bændur hafa sett stolt sigg í það að hafa eina mjólkandi kú á hvert hjú sitt.

Meðan Snorri Sturluson var sem voldugastur átti hann bú á mörgum stöðum, þar á meðal var stórt nautgripabú á Svignaskarði í Borgarfirði. Þar gerðist það hinn harða vetur 1226 að 120 nautgripir féllu og sýnir það nokkuð hversu stórt þetta kúabú hefur verið. Talið er að þar hafi hann meðal annars látið verka skinn til handritaskrifta. Frásögn þessi upplýsir einnig nokkuð um meðferð á nautgripum í þá tíð. Þeir hafa augljóslega verið látnir ganga sjálfala úti að vetrarlagi og heyskapur verið í takmarkaðra lagi.

Nautgriparækt. Eiginleg ræktun nautgripa hófst ekki fyrr en upp úr 1930. Þá var farið að halda kúm undir ákveðin naut sem þóttu skara framúr að einhverju leyti. Fram að þeim tíma tíðkaðist ekki að láta naut verða mjög gömul. Fyrsta nautið sem eitthvað lætur að sér kveða er Máni frá Kluftum sem fæddur var árið 1936 og út frá honum verður kluftarstofninn þekktur. Að vísu voru áhrif einstakra nauta takmörkuð vegna takmarkaðrar notkunar sem hægt var að fá á hvert naut auk þess sem notkun þeirra var svæðisbundin. Á þessum tíma var algengt að nautin yrðu nokkuð gömul jafnvel talsvert aldri en 10 ára.

Það var ekki fyrr en árið 1946 sem ræktunarmál taka miklum breytingum með tilkomu sæðingarstöðva og á rúmum áratug koma upp stöðvar á Hvanneyri, Lágafelli á Mosfellssveit, í Þorleifskoti og á Blönduósi. Þessar stöðvar náðu að þjóna stórum hluta kúastofnsins í landinu en þá var nautum safnað saman á þessar stöðvar. Það er svo árið 1969 sem Nautastöð BÍ á Hvanneyri tekur til starfa. Með tilkomu hennar var farið að djúpfrysta sæði og þar með var kominn möguleiki á sæðingum nautgripa um allt land.

Nytjar. Nautgripir eru einkum ræktaðir vegna mjólkur og kjöts. Íslenska kúakynið er smávaxið og gefur minna kjöt en mörg önnur kyn sem ræktuð hafa verið í nágrannalöndum okkar. Íslenskir bændur hafa verið að flytja inn holdanaut (Galloway) sem eru af skoskum uppruna til að auka kjötgæfni gripa sinna. Kjöt af nautgripum sem framleitt var árið 1997 var 3440 tonn og kjötsala á hvern íbúa í landinu var 12,7 kíló. Mjólkursalan var aftur á móti 361 lítrar á íbúa. Inni í því er viðbit, rjómi, ostur og aðrar mjólkurafurðir. Alls voru framleiddir 101,945 þúsund lítrar af mjólk á árinu 1997. Góð mjólkurkú getur mjólkað allt að 25-30 lítra á dag sem samsvarar 25-30 mjólkurfernum. Til þess að kýrnar nái að halda mjólkurnyt svona hárri þarf að huga vel að fóðrun, þær þurfa að fá kjarngott hey og hafa óheftan aðgang að vatni. Það er talið að kýr drekki allt að 100 lítra af vatni á dag.

Kýrin og kálfurinn. Kýr ganga með kálfa í rúma níu mánuði (287 daga að meðaltali). Það er enginn ákveðinn fengitími en tími milli gangmála (gangferli) er að meðaltali 21 dagur og hvert gangmál (beiðmál) er að meðaltali 20 klukkustundir. Þegar kýr er með kálfi segjum við að kýrin sé kelfd. Yfirleitt eiga kýrnar einn kálf í einu en þær geta átt tvo í einu þó að það sé fremur sjaldgæft.

Síðustu vikurnar fyrir burð er kýrin ekki mjólkuð. Eftir burð fer mjólkurstarfsemin í gang og kallast fyrsta mjólkin sem kemur ú kúnum broddur. Mikilvægt er að kálfurinn fái broddinn því í honum er heilmikið af efnum sem eru nauðsynleg ónæmiskerfi líkamans. Afganginn af broddinum nýtir bóndinn sér til matar því ef broddurinn er hitaður þá hleypur hann og myndar búðing vegna þess að hann inniheldur mikið af prótíni. Kallast það ábrystir sem eru sérlega góðar með kanilsykur út á.

Yfirleitt fá kálfar ekki að sjúga mæður sínar. Aðalástæðan fyrir því er sú að þá tapa bændur miklum hluta mjólkurinn en að auki þá breytist lögun spenanna við það að kálfar fá að sjúga þá. Þeir varða þykkir og kýrnar verða mjög fastmjólkandi, þ.e. erfitt er að ná mjólkinni út þeim. Eins er nánast ógjörningur að koma mjaltavélum á spena á kúm sem hafa verið sognar í einhvern tíma. Þess má geta að ein kýrin hér í Húsdýragarðinum, Gráskinna, er nánast aldrei mjólkuð því hún er látin taka að sér alla kálfa sem fæðast hér í garðinum. Spenarnir hennar eru því orðnir mjög stórir og breiðir.

Hringur í nefi nautgripa. Þegar naut eru orðin stór og myndarleg er yfirleitt settur hringur í nef þeirra. Ástæðra þess er sú að nautir eru aflmiklar skepnur en þeirra akkilesarhæll er þó sá að miðnesið á þeim er mjög viðkævmt. Þannig að ef þeim rennur í skap er hægt að snúa upp á hringinn og ná þannig valdi yfir þeim. Stundum má einnig sjá kýr með hring í nefinu og hann er með göddum á. Tilgangurinn er sá að hringnum er ætlað að koma í veg fyrir að kýrnar sjúi hvorki sjálfan sig né aðrar kýr.

Jurtaæta. Kýrnar eru jurtaætur og jórturdýr. Einkenni jurtaætna eru m.a. að augun eru á hliðunum og eyrun eru hreyfanleg. Þetta er til þess að jurtaæturnar eigi auðveldar með að vara sig á rándýrunum. Jórturdýr eru með fjórskiptan maga (vömb, keppur, laki og vinstur). Grasið er í fyrstu ótuggið og geymist í stórri vömbinni. Í vömbinni malast fæðan og þar er hún brotin niður. Jórtrunin fer þannig fram að hluta af því sem kýrin étur ælir hún upp í munn og tyggur hana aftur. Fínmöluð fæðan berst svo áfram í hin magahólfin þrjú þar sem hún meltist enn frekar áður en hún berst til smáþarmanna. Nýting jórturdýra á fæðu sinni er alveg til fyrirmyndar en með þessari aðferð er fæðan nánast fullnýtt.

Þjóðsögur. Á jónsmessunótt tala allar kýr. Á Hafrafelli í Laugardalnum dvaldist eitt sinn fjósamaður þessa nótt, þegar fjósverkum var lokið og leyndist í moðbás. Hann beið þar fram undir miðnætti og varð einskis var; kýrnar lágu og voru að jórtra. En um miðnættisskeið stóð sú upp sem næst var dyrum annars vegar í fjósinu og sagði: „Mál er að mæla.“
Þá stóð önnur upp sem næst var og sagði: „Maður er í fjósi.“
Síðan stóð upp hver af annarri og töluðu:
Þriðja: „Hvað mun hann vilja?“
Fjórða: „Forvitni sýna.“
Fimmta: „Ærum við hann, ærum við hann.“
Sjötta: „Tölum þá og tölum þá.“
Sjöunda: “ Fýkur í fossa, segir hún Krossa.“
Áttunda: „Ég skal fylla mín hít, segir hún Hvít.“
Níunda: „Ég stend á stálma, segir hún Hjálma.“
Tíunda: „Ég skal halda, segir hún Skjalda.“
Ellefta: „Ég ég sem ég þoli, segir hann boli.“
Þá sleit hin fyrsta sig upp og svo hver af annarri. En fjósamaðurinn hljóp í rangala sem lá úr fjósinu og í fjósheyið og út um gat á heyinu og komst svo inn í Hafrafaell. Um morguninn sagði hann tíðindin. En þegar menn komu í fjósið voru allar kýrnar lausar.

Ein helsta sögnin fjallar um það, er þrælar Hjörleifs, fóstbróður Ingólfs, felldu uxa hans og sögðu að skógarbjörn hefði drepið, til að að leiða Hjörleif og menn hans í gildru. Í ásatrú var tengdur við nautgripi einhvers konar hryllingur, sem nálgaðist draugagang (sbr. Þorgeirsboli).

Fjölskyldugerð: naut, kýr og kálfur.
Þyngd: kýr u.þ.b. 450 kg. og naut 600 kg. (Guttormur er 897 kg.)
Fengitími: allt árið.
Meðgöngutími: rúmlega 9 mánuðir.
Fjöldi afkvæma: 1 kálfur (sjaldan 2).
Nytjar: kjöt, mjólk, húð og horn.

Heimild: Efni af vef Húsdýragarðsins í Laugardal.

Myndasafn

Í grennd

Íslensku Húsdýrin
Ísland státar ekki af mörgum tegundum villtra dýra miðað við mörg önnur lönd og álfur. Landið er og hefur verið einangrað og einkum vettvangur fugla o…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )