Hveravellir er mjög áhugavert jarðhitasvæði, sem kúrir í lægð norðan undir Kjalhrauni. Þar er vinsæll viðkomustaður ferðamanna, sem baða sig gjarnan í uppbyggðri laug, skoða hverasvæðið og rústir kofa Fjalla-Eyvindar rétt hjá.
Kjalvegur hinn forni lá um svæðið og líklega er lægðin Hvinverjadalur hinn forni, sem nefndur er í Landnámu og Sturlungu. Norðan lægðarinnar er Breiðimelur með veðurathugunarstöð, sem var reist 1965. Hvítárnes 53 km <Hveravellir> Blönduvirkjun 37 km, Varmahlíð 108 km, Blönduós 106 km. Tréstígur liggur um svæðið og ætlast er til að fólk haldi sig á honum vegna hinna fögru og stöllóttu kísilúrfellinga, sem þola ekki ágang. Þar finnst víða fjöldi skelja kísilþörunga, sem lifa í volgu hveravatninu. Hveravellir voru friðlýstir sem náttúruvætti árið 1960. Jarðhitinn er ekki einungis bundinn aðalhverasvæðinu, heldur má sjá gufu stíga upp úr sprungum í norðanverðu Kjalhrauni. Gamla Ferðafélagshúsið er frá 1938 en hið nýja frá 1980. Svínavatnshreppur keypti aðstöðu Ferðafélagsins árið 2002. Allrahanda (Iceland Excursions) keypti aðstöðu Svínavatnshrepps árið 2013 en seldi aftur 2020. Síðan árið 2010 er hluti nýja skálans rekinn sem veitingahús, sem býður mat og drykk.
Mjög skemmtileg gönguleið er milli Hveravalla og Hvítárness.
Ferðalög á miðhálendinu voru tíð á söguöld en síðan fór að draga úr þeim, þegar hjátrú magnaðist, og lengi lágu ferðalög niðri, eða allt fram á 18.öld. Nú á dögum er ferðast um hálendið allt árið. Vegakerfið er víða orðið fært öllum tegundum farartækja á sumrin, einkum fyrir tilstuðlan Landsvirkjunar.