Blöndustöð er neðanjarðarstöð, rúmlega 230 metra undir yfirborði jarðar og var tekin í notkun árið 1991. Hún stendur á brún norðanverðs hálendisins við enda Kjalvegar.
Í norðurátt er sýn niður í Blöndudal þar sem áin Blanda rennur til sjávar við Blönduós. Áin rennur um grösugar grundir á láglendi en upptök hennar eru á svæði sem fyrir nokkrum áratugum var gróðurvana eyðimörk. Í framhaldi þess að 56 km2 miðlunarlón varð til hófst hinsvegar umfangsmikil landgræðsla. Frá árinu 1981 hefur Landsvirkjun ræktað upp meira en 5.000 hektara í 400-600 metra hæð yfir sjó og er þeim haldið við með áburðargjöf. Þetta eru einhverjar mestu uppgræðsluaðgerðir sem ráðist hefur verið í á hálendi landsins.
Blanda var stífluð við Reftjarnarbungu en þar voru góðar aðstæður til miðlunar. Jafnframt var reist stífla við upptök Kolkukvíslar en hún féll í Vatnsdalsá. Með þessum stíflum myndaðist Blöndulón sem hefur um 412 Gl miðlunarrými og er þriðja stærsta stöðuvatn á Íslandi. Frá Kolkustíflu er vatni veitt um veituskurði og vötn, samtals um 25 kílómetra leið að inntakslóni virkjunarinnar, Gilsárlóni. Lónið er um 5 km2 að flatarmáli með 20 Gl miðlunarrými.
Frá inntakslóni er vatni veitt um 1.300 metra langan skurð að inntaki stöðvarinnar þar sem það er leitt niður í vélar að stöðvarhúsi. Virk fallhæð að vélum er 287 metrar. Frá hverflunum rennur vatnið um 1.700 m löng frárennslisgöng aftur út í farveg árinnar.
Ferðalög á miðhálendinu voru tíð á söguöld en síðan fór að draga úr þeim, þegar hjátrú magnaðist, og lengi lágu ferðalög niðri, eða allt fram á 18.öld. Nú á dögum er ferðast um hálendið allt árið. Vegakerfið er víða orðið fært öllum tegundum farartækja á sumrin, einkum fyrir tilstuðlan Landsvirkjunar.
Eins og sjá hér að neðan, tengdar færslur er nat.is að reyna að halda jafnframt um gamlar og nýjar heimildir: