Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Göngubók Snorra Grímssonar Inngangur

Vigur Vestfjörðum

HORNSTRANDIR – JÖKULFIRÐIR
GÖNGULEIÐIR UM HORNSTRANDIR OG JÖKULFIRÐI

Kuldaleg nöfn setja gjarnan hroll að manni. Hefur líka löngum legið það orð á, að þetta séu eitthver  Hornstrandir | Visit Westfjords Icelandmestu harðindabæli landsins. Í gömlum lýsingum jarða á Ströndum er oft getið illviðra, sem þar séu tíð og óbærilegra snjóþyngsla, er ekki létti fyrr en síðla sumars og séu jafnvel fannir í miðjum hlíðum óleystar er aftur taki að snjóa.

Þetta kann satt að vera, en þeim nútímamanni, sem þangað kemur og kynnist Ströndum að nokkru marki, er ekki kuldi og harka efst í hug, heldur svipfagurt land með hýru brosi. Það er stórskorið að vísu og tröllslegt, en líka blítt og viðkvæmt rétt eins og sumt fólk, sem er stórgert og ófrítt, en svo aðlaðandi í fasi að mönnum gleymist fljótt grófleikinn.

Einn kafli Hornstrendingabókar heitir Vörður og vörðubrot. Þar leiðir Þórleifur okkur um landið og söguna, reisir við vörður sögunnar eins og Grímur Thomsen kallar það í erindunum hér fyrir framan. Ég vona að okkur auðnist að reisa fleiri fallnar vörður og halda við þeim, sem uppi standa. Kannski þessi bók geti átt sinn þátt í því. En við megum ekki gleyma hinum eiginlegu vörðum, þeim, sem vísa okkur veginn um erfiðar leiðir. Hjálpi hver vegfarandi til og hlaði steini í fallnar vörður á leið sinni, þá skýrast aftur fornar leiðir og týnast ekki.

Á Hornströndum hefur verið lýst friðland, svo varðveita megi óspillta náttúru þeirra. Þess bið ég alla þá, sem þangað fara, að í friðlandinu jafnt og utan þess gangi þeir vel um, minnugir þess, að ein rispa getur skemmt hina fegurstu perlu: Réttur þeirra, sem um svæðið fara takmarkast af rétti hinna, sem þar eiga lönd og sinn rétt tryggir hver bezt með því að virða annarra.

Fyrir margar sakir eru Hornstrandir og Jökulfirðir forvitnileg ferðamönnum. Þar er stórbrotið landslag og þar bjó stórbrotið fólk. Líf þess og saga mótaðist af landinu og landið nokkuð af því. Nú er fólkið farið og búsmali allur með, utan hvað fáeinar skjátur að langfeðgatali ættaðar úr Jökulfjörðum, en nú búsettar í Djúpinu, sækja til Grunnavíkur og Leirufjarðar á sumrin með lömbin sín. Það sama gerir reyndar fólkið, því römm er sú taug er rekka dregur föðurtúna til.

En síðan flutt var burt hefur margt breytzt á Ströndum. Nú er þar til muna meiri gróður en áður var og fjöldi plantna áberandi nú, sem vart sáust þá. Þessa grósku má að miklu leyti rekja beint til þess, að fénaður gengur þar ekki lengur og bítur hvern vaxtarbrodd um leið og hann birtist. Snjór liggur líka á lengi fram eftir vori og undan honum kemur græn jörð að kalla. Og nu getum við séð hvers íslenzk náttúra er megnug, fái hún frið.

Á Íslandi er það áberandi, að plöntur, sem sunnar skiptast greinilega í háfjalla-, láglendis- og strandplöntur, vaxa hver innan um aðra án þessara greinilegu marka. Á Ströndum ber enn meira á þessu sökum þess, hve snælína er lág og gróðurbeltið mjótt; nær venjulega ekki nema um 2-300 m hæð. Eitt dæmi þessa er, að jöklasóley sjá menn gjarna í vegarbrún á Skorarheiði í um 160 m hæð, en hún vex annars staðar hátt til fjalla. Snjódældagróður, sem erlendis er háfjallafyrirbæri og hérlendis í um 2-300 m hæð og ofar teygir sig alveg niður að fjöru, sbr: burknadældir í Hrafnfirði. Mig langar að nefna nokkrar þeirra plantna, sem hvað mestan svip setja á landið. Ég stikla þar mjög á stóru og er það af tveim ástæðum aðallega. Hvort tveggja er, að mig skortir kunnáttu til þess að fjalla um efnið ýtarlega og einnig hitt, að mér er til efs að það þjóni miklum tilgangi né eigi heima í riti sem þessu.

Efst í fjörum getur að líta bláliljuna, skriðula jurt með þykkum blágrænum blöðum og fallegum bláum blómum. Þar sem er sandfjara vex líka fjörukál með sætilmandi hvítum blómum. Rétt ofan fjörunnar tekur melurinn (melgresi) gjarnan við og hefur mjög breytt svip landsins á mörgum stöðum. Þar sem áður var ógróinn sandur, sem rauk upp ef hreyfði vind, er nú fokið mjög heft af melnum, sem hér vex algjörlega sjálfsáinn. Þannig er t.d. á Látramel í Aðalvík og Þverdalssandi, en hvað verst virðist ganga í Höfn í Hornvík. Í skjóli melsins vaxa svo ýmsar plöntur, sem taka við er melurinn hefur lokið hlutverki sínu, og þekja sandinn og mynda jarðveg. Eina þessara plantna langar mig að minnast á, sem er áberandi og falleg. Það er baunagrasið, sem vex m.a. í Reykjafirði og Fljóti og setja blóm þess sterkan rauðfjólubláan blæ á sandinn. Sjaldgæft er að baunirnar nái þroska, en þó gerist það í beztu sumrum og geta menn þá um eða eftir miðjan ágúst farið að dæmi nokkurra Breta, sem voru orðnir matarlitlir í Reykjafirði fyrir nokkrum árum, og eldað baunasúpu.

Gömlu túnin eru mjög gróðursæl og oft mjög litskrúðug breiða sóleyja og blágresis og í kringum hús og tóttir eru risavaxin hvannstóð, sem oft ná manni yfir höfuð. Á stöku stað er kerfill einnig áberandi kringum bæina s.s. á Sætúni í Grunnavík og á Hesteyri. Í vætutíð og eftir náttfall er betra en ekki að vera vel búinn til fótanna, því í túnunum og á skjólsælum stöðum á láglendi og í neðanverðum hlíðum ösla menn hnédjúpar breiður blóma. Þarna vaxa margar blómfagrar jurtir, sem þekja landið og mætti lengi dvelja við að greina tegundir. Fallegir maríustakkar af ýmsum tegundum, sumir með hlemmistór blöð; brönugrös, sem eitt sinn voru sögð geta tryggt karlmönnum kyngetu; smjörgras eða lokasjóðsbróðir; fjalldalafífill, sem sumir nefna biskupshatt; fíflar og sóleyjar, fjandafæla og margt fleira, sem ég ýmist nenni ekki nefna eða kann ekki.

Víði, sem sást varla áður vegna beitar, er víða að finna og hefur hann á þessum árum risið upp í allt að 120 til 130 cm hæð. Birki vex á nokkrum stöðum s.s. í Leirufirði og Hesteyrarfirði og hefur jafnvel fundist í Hornvík. Fjalldrapa og lyng er mikið um, en ekki vaxa þó alls staðar ber á lynginu. Í Jökulfjörðum finnast einhver beztu berjalönd landsins.

Björg og klettar eru víða á Ströndum og er þar ekki fyrir ýkja mikilli fjölbreytni að fara í gróðri. En af því mikið er um sjófugla hér, sem einkum verpa í björgum, þá er gróðurinn vöxtulegur vegna áburðar þeirra. Bjargfuglarnir skreyta híbýli sín og húsagarða skarfakáli og túnsúru, burnirót og hvönn (sbr. Fóstbræðra sögu, er Þorgeir hékk á njólanum). Uppi á brúnum fuglabjarganna er svo fyrirbrigði, sem furðar marga: Á Hornbjargi er t.d. sams konar blómgróður og jafn gróskumikill og sá, sem er niðri á túni á Horni og samfelldur gróður nær allt upp á Kálfatinda í 534 m hæð. Þarna gætir áburðar frá fuglinum og einnig er þar nokkurt skjól fyrir naprasta norðanvindinum. Komi menn í Hornvík þegar jörð er að byrja að grænka, sjá þeir að fyrst grænkar uppi við bjargbrún og niðri við sjó og svo færist grænkan upp þar til saman kemur.

Á melum og öðrum berangri eru holtasóley og rjúpnalaufið hennar ásamt hinni ljósgulu frænku valmúans og einkennisjurt Vestfjarða, melasólinni, hvað mest áberandi. En fleira getur þar að líta, s.s. Ólafssúru, geldingahnapp, burnirót og hrossanál. Ólafssúru er gott að japla á gegn þorsta og svengd, en hér er líka blóðberg, sem af má laga hið bezta te, einkum ef blandað er með öðrum jurtum, t.d. ljónslappa og silfurmuru eða með aðalbláberjalyngi. Á jökulaurum í Þaralátursfirði og Reykjafirði eru fagurrauðar breiður eyrarrósar, sem annars er fátíð á Vestfjörðum.

Sem fyrr segir má finna snjódældir allt niður undir sjó þótt meira sé að vísu um þær er ofar dregur. Í þessum dældum vex margs kyns blómgróður og lyng, en í öðrum eru alls ráðandi grámulla og fjallasmári, litunarjafni og skollafingur, að ógleymdum grasvíði. Gróskumiklir burknar eru í mörgum þessara lauta í breiðum og gætir þar mest þúsundblaðarósar, en fjöllaufungur er þar einnig.
Rétt er að útskýra nokkuð orðaval mitt þar sem tvímælis kann að orka. Ég hef haldið ýmsum málvenjum, sem ríkja hér vestra og mér eru tamar, en kunna að vera villandi fyrir þá, sem ekki þekkja.

Fyrst vil ég nefna þá einkennilegu venju, sem sumum finnst vera, sem á Vestfjörðum ríkir um gagnstæðar áttir og má segja nokkuð gróflega að hún sé sú, að frá Látrabjargi að Horni séu áttirnar vestur og norður gagnstæðar, en handan Horns eru það norður og austur. Þar af leiðir, að Bæir á Snæfjallaströnd eru norðan Djúps, en Skutulsfjörður vestan. Og á sama hátt er Geirólfsgnúpur á austurmörkum Hornstranda en Horn er nyrzt (Hin endimörkin þá í vestur frá Horni).

Innan fjarða eru höfuðáttir sjaldnast nefndar, heldur er talað um „inn“ og „út“ í fjörðum og víkum og til er, að talað sé um að fara inn Strandir (þ.e. austur) og út (norður) og er þá viðmiðunin Húnaflói. Þegar komið er í fjarðar- og víkurbotna heitir „fram“ áttin til fjalla, en „niður“ eða „út“ til sjávar, sbr. Fremri-Bakki og Neðri-Bakki. Þó hefur það verið valið í þessari bók, til að forðast misskilning, að segja „inn“ eða „upp“ dali í stað „fram“. En menn skyldu hafa hitt í huga ef þeir fara um þessar slóðir og ræða við heimamenn.

Þar sem ég veit til þess, að fólk, sem er óvant veru við sjó, hefur misskilið orðalagið „á fjöru“ og skilið það sem „í fjöru“, þá vil ég skilja þar glöggt á milli. „Á fjöru” merkir þegar lágsjávað er, en „í fjöru” merkir hins vegar landið, sem kemur upp úr sjó á fjöru. Þetta er mikilvægt að hafa í huga, þegar ósarnir eru vaðnir.

Hrafnfjörð nefni ég svo, en ekki Hrafnsfjörð (með s) vegna þess, að ég er vanur þeirri mynd orðsins, en báðar munu notaðar af heimamönnum. Reykjafjörð og Bolungavík rita ég r-laus að venju heimamanna. Og nú minnir þetta heimamannatal mig á, að mér var bent á það við yfirlestur, að ég talaði um bæina eins og þeir væru enn í byggð, sem þeir eru vitaskuld ekki. En svo ríkt er það í mér, að tala um „heim” að hinum eða þessum bænum, að ég treysti mér ekki til að breyta því, þar sem ég vissi ekki hvað segja skyldi þess í stað.

 

 

Landhelgisgæslan

Landhelgisgæsla Íslands annast löggæslu og eftirlit á hafinu umhverfis Ísland og ber ábyrgð á yfirstjórn vegna leitar og björgunar á sjó.

Read More »
Snæfelssjökull
Framsóknarflokkurinn

Framsóknarflokkurinn var stofnaður 16. desember 1916 við samruna Bændaflokksins og Óháðra bænda og er elsti starfandi stjórnmálaflokkurinn á Íslandi. Fyrir

Read More »
valthofskirkja
Valthjofsstadur

Þetta forna höfuðból og kirkjustaður frá a.m.k. 14. öld er í Fljótsdal. Staðarkirkjan var Maríukirkja að fornu en varð aðalkirkja 1306, sem áður var að Bessastöðum

Read More »

Myndasafn

Í grennd

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 1. dagur
GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 1. Dagur: Frá Grunnavík að Dynjanda í Leirufirði 16 km um Staðarheiði (153 m) Við hefjum för frá Ísafirði snemma morgu…
GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 2. dagur
GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR, 2. dagur: Frá Dynjanda að Hrafnfjarðareyri 10 km (för inn að Jökulgarði 7 km) Að morgni er risið árla og nú skal hald…
GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 3. dagur
Frá Hrafnfjarðareyri til Furufjarðar 11 km um Skorarheiði (188 m) Enn liggur leið með sjó og nú er för okkar heitið áfram inn Hrafnfjörðinn og síða…
GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 4. dagur
Frá Furufirði til Reykjafjarðar 12 km um Svartaskarðsheiði (393m) og Reykjafjarðarháls (150m) Snemma morguns leggjum við upp frá Furufirði. Við gön…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )