Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 5. dagur

Frá Reykjafirði til Furufjarðar 16 km um Þaralátursnes (100 m) og fyrir Furufjarðarnúp

Eftir morgunbað verður mönnum tíðrætt um hversu notalegt sé að hafa laugina þarna, en endir getur orðið á því fljótlega ef ekki verður að gert. Laugarbotninn er mjög lélegur orðinn og hefur orðið að þétta hann með torfi og plasti og yfirleitt öllu tiltæku. Reykjafjarðarbræður hafa í hyggju að gera við laugina, sem var reyndar byggð árið 1938, en sú viðgerð verður dýr. Okkur kemur því saman um það, að vilji menn láta í ljós þakklæti sitt fyrir að fá að njóta laugarinnar og tjaldstæða í Reykjafirði, þá sé bezta leiðin vafalaust sú, að láta fé renna í sundlaugarsjóð. Öðrum, sem sammála kunna að vera er bent á þetta hér rneð.

Enn er lagt af stað og nú er gengið upp á Reykjafjarðarháls beint upp af bæjunum, þar sem skarð er í klettahjallana. Þaðan er vörðuð leið, sem við fylgjum yfir í Þaralátursfjörð. Á einum stað þarf að fara niður klettahjalla um þrönga gjótu og er þar kölluð Meinþröng. Niður í Þaralátursfjörð er komið í svonefndri Viðarskálavík. Þar má sjá veggjabrot, sem líkast til eru leifar beitarhúsa. Hlíðin frá Viðarskálavík inn í fjarðarbotninn heitir Steinbogahlíð og þar liggur leið okkar nokkuð hátt til að forðast stórgrýtisurð í hlíðinni. Bezt er að fara eftir gömlum fjárgötum, sem liggja alveg uppi undir klettum ofan urðarinnar. Þær sneiða síðan hlíðina og koma niður að sjó við Steinbogalæk, rétt utan við Sandshorn í botni fjarðar. Við þrömmum svo sandinn þvert yfir fjarðarbotninn og komum þar að, sem á flóði er stórt lón, en á fjöru eru leirur, sem ósinn fellur um tiltölulega breiður og grunnur. Við vöðum ósinn þar sem kallast Vaðal1, á móts við eyri, sem teygist frá hlíðinni hins vegar.

Sé komið að ósnum á flóði, þarf að vaða ofar, jafnvel inn við Óspakshöfða. Á leiðinni þangað fram eftir eru tjarnir eða lóri, sem í getur verið sandbleyta og standi hátt í sjó er ekki ráðlegt að fara ósmegin við tjarnirnar, heldur fara í skriðufætinum ofan við þær. Þar er stórgrýtt og klungur mesta og því væri bezt, til að komast hjá öllum slíkum vandræðum að athuga sjávarstöðu áður en farið er frá Reykjafirði og fara þá efri leiðina um Reykjafjarðarháls að Óspakshöfða ef flóð er.

Þegar við erum komin yfir ósinn sjáum við hvar liggur gata á snið inn og upp hlíðina. Þetta er leiðin, sem farin var frá Þaralátursfirði upp á Svartaskarðsheiði.

Rétt utan við ósinn komum við að bæjarrústum í Þaralátursfirði. Bærinn stóð í litlu túni, aðkrepptu að utan og ofan af stórgrýtisurð, að innan af tjörn og svo af sjónum fyrir neðan. Nokkuð skýlt hlýtur að hafa verið þarna og er gott tjaldstæði í túninu. Lengst af var þarna örreytiskot, en síðast var búið góðu búi. Þangað mun hafa verið keypt einhver fyrsta vél, sem notuð var til að saga rekavið á Ströndum og höfðu ýmsir ótrú á í fyrstu, en síðar snerist dæmið. Sögðu þá þeir sömu að „mikið helvíti hlyti hann Gvendur að græða á þessu“.

Sem fyrr segir er mikil urð ofan og utan við bæinn og er af því tagi, sem á Vestfjörðum nefnist hraun. Gífurlegt framhlaup hefur orðið þarna og er stórt hvolf í fjallið með þverhníptum klettaveggjum ofan við hraunið. Svo einkennilegt sem það má vera, er þessa framhlaups að engu getið í riti Ólafs Jónssonar um berghlaup, né er það sýnt á Jarðfræðikorti Guðmundar Kjartanssonar

Í gegnum hafa kindur og menn troðið götu, sem við göngum út með firði. Þar sem hrauninu lýkur má enn sjá móta fyrir garði, sem hlaðinn var milli fjalls og fjöru svo sauðfé gengi ekki út undir Núp Heitir þar Klif. Þar fyrir utan taka við sléttar og grónar eyrar, Hvanneyrar, og eru þar tóttir beitarhúsa. Í nánd er einnig lítið sker steinsnar frá landi og í því sjáanlegir staurar. Mun æður eitthvað hafa orpið þar meðan sinnt var um. Handan fjarðar á utanverðu Þaralátursnesi sjáum við Hvítsanda, sérkennilega gráhvíta skeljasandsfjöru, sem sker sig glöggt úr svörtum fjöruklettunum.

Brátt er komið að fallegu fyrirbrigði náttúrunnar skammt utan Hvanneyra, svonefndri Könnu, stórum kletti, til að sjá alveg eins og kanna með handfangi. Sagt er, að á Könnunni hafi einnig verið vör, en hún fallið af. Virði maður klettinn fyrir sér landmegin frá, með handfangið næst, má einnig ímynda ser að þetta sé fíll og er þá handfangið orðið að rana. Skammt frá Könnu, nær berginu, er klettadrangur, sem heitir Kerling. Til að komast hjá Könnu og fyrir Furufjarðarnúp verður að sæta sjávarföllum og þegar fært er á fjörunni er betra að gæta sín á hálu þanginu í stórgrýtinu.

Þá liggur leiðin fyrir Furufjarðarnúp. Fyrsti spölurinn inn með Furufirði er dálítið erfiður, því ganga verður í urð og stórgrýti allnokkurn spotta inn að Bjarnaesi. Þaðan er gengið á fjörukambi inn að Furufjarðarófæru, en fyrir hana er ekki fært með sjó. Verður að þræðagötur ofan Ófæru og liggur önnur á brún klettanna, en hin hærra. Ekki er þetta hættuleg leið að sumarlagi, en þó skyldu menn taka sér vara á hvönninni sem vex fram á yztu brún, ef farin er neðri leiðin. Hvönnin verður hál þegar hún treðst og það er ekkert gamanmál að falla niður í fjöru.

Á vetrum eru þarna svellalög og hefur mönnum hlekkst á. Fyrir nokkrum áratugum var þarna á ferð bóndinn í Reykjafirði, Jakob Kristjánsson. Hann hrapaði fram af Ófærunni og slapp, þótt ótrúlegt megi virðast, lifandi og óbrotinn, en allmikið var hann marinn. Það er talið hafa hlíft honum hve stórgrýtið fjörunni var sýlað og að hann bar bagga af netgarni, sem þó hjóst nokkuð við fallið.

Þegar komið er hjá Ófæru förum við gömlu fjárgöturnar, sem eru í hlíðarfætinum um Saltvík og Hóla allt inn í Sandshorn. Þar eru klettar skammt frá sjónum og milli þeirra hlaðnir veggir, þar sem voru fjárréttir. Í þessum klettum má einnig sjá, ef vel er að gáð, skemmtilegar holur, þar sem bergkvikan hefur storknað utar um trjáboli, sem nú eru horfnir. Frá klettunum höldum við svo beint heim að bæ í Furufirði og öslum ósinn. Tjaldstað höfum við sem fyrr við Naust.

Myndasafn

Í grennd

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )