Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 3. dagur

Frá Hrafnfjarðareyri til Furufjarðar 11 km um Skorarheiði (188 m)

Enn liggur leið með sjó og nú er för okkar heitið áfram inn Hrafnfjörðinn og síðan austur yfir Skorarheiði í Furufjörð. Þar gistum við næstu nótt, áður en við höldum í tveggja daga krók til Reykjafjarðar.

Um 4-5 km fyrir innan Hrafnfjarðareyri er önnur eyri, sízt minni. Þangað sigldu enskir eða írskir kaupmenn og segir Olavius í ferðabók sinni frá 1775, að menn haldi þá hafa komið „síðast fyrir 69 árum“. Dragi eyrin nafn sitt af þessum siglingum kaupmannanna þangað og heiti Skipeyri. Enn segir Olavius að þar megi sjá tóttir svonefndrar írsku krambúðar og séu veggir allt að því álnar háir. Lítil sér þess merki nú.

Handan fjarðar er Álfsstaðadalur, heitinn eftir bæ, sem stóð þar utanvert við dalsmynnið. Inn eftir þessum dal liggur leið ur Bolungavíkurheiði til Bolungavíkur á Ströndum. Hún er lítt vörðuð nema efst í skarðinu og því varasöm ókunnugum nema í björtu veðri. Utan við dalinn eru klettabelti af allt öðru tagi en gerist annars hér um slóðir.

Eins og áður hefur verið sagt, eru stórir líparítflákar í botni Hrafnfjarðar og teygjast þeir út með firðinum sitt hvorum megin. Hér er um að ræða leifar tertíerrar eldstöðvar sem nær austur yfir Skorarheiði og niður í Furufjörð og Bolungarvík.

Frá Skipeyri höldum við á inn fjörðinn og komum þar að, sem eru dökkir klettar við sjóinn í smávogi. Heita þar Sólheimar og Sólheimadalur hvilft í fjallið upp af. Þarna var fé af Austur-Ströndum tekið á skip eftir að farið var að flytja það til Ísafjarðar til slátrunar. Við göngum áfram fyrir lítið klettanef og þá blasa við okkur þrjú hús, þar sem er eilítið vik inn í ströndina og heitir Skipanaust. Hið næsta er elzt; það var geymsluhús Strandamanna, sem þeir fluttu í vetrarbirgðir sínar úr kaupstað og sóttu síðan smám saman. Næst er það, sem gárungarnir hafa viljað nefna þjónustumiðstöð Náttúruverndarráðs, kamar til að sinna nauðsynjum ferðamanna. Og innst er skýli Slysavarnafélags Íslands, lítið hús, sem rúmar á að gizka 6 manns.

Handan við Skipanaust eru klettar niðri við sjó og heita þeir Heiðingjaklettar. Þótti þar löngum reimt. Fyrir neðan Heiðingjakletta er gengið í fjörunni, en varast ber þó að sjór fellur alveg að þeim á flóði. Áfram göngum við í fjörunni inn í fjarðarbotn, sem er örskammt undan. Fyrir botni gnæfa áberandi fjöll, talin frá norðri til austurs: Hvítserkur, keilulagaður tindur, gjarna snævi hulinn, er með líparítrákum; Bláfell, fyrir miðju með háum klettabeltum efst; og Hattarfell er austast. Niður frá því til vesturs gengur klettahöfði mikill og sérkennilegur, Gýgjarsporshamar. Sagt er að í hann ofanverðan sé far, sem eigi að vera eftir tröllsfót og dragi hann nafn af því.

Gatan liggur nú upp með á þeirri, sem fellur með hamrinum og um fjarðarbotninn, Skorará, sem í Landnámu er nefnd Gýgjarsporsá. Þar heita Andbrekkur, stutt brekka en allbrött. Er upp brekkuna er komið, sjáum við Gýgjarsporshamarinn gnæfa yfir okkur, en Skorará rennur í um 15 m djúpi gili á milli. Gýgjarsporshamar var sagður stærsta álfabyggð í Hrafnfirði og þar átti að vera kirkja og fjölmargir bæir. Ýmsar frásagnir eru af samskiptum manna við álfana þar. Ein er, að ung stúlka var á ferð yfir Skorarheiði í vondu veðri og villtist. Hún gafst upp og lagðist fyrir og beið dauða síns. Fannst henni þá, sem hún lægi í hlýju rúmi og fengi þar ágæta aðhlynningu og hresstist hún mjög við þetta. Þegar veðrinu slotaði var hún við hamarinn og þótti víst að álfarnir hefðu hjálpað henni.

Í hamrinum var einnig kaupstaður álfanna og var líkt hjá þeim og mönnum, að flytja þurfti ýmsar nauðsynjar að. Var m.a. haft á orði, að þegar gufuskip Ásgeirsverzlunar á Ísafirði kom með vörur frá Kaupmannahöfn hafi fylgzt með því yfir hafið annað skip og skyldi þar vera skip álfanna í Gýgjarsporshamri. Sagði skipstjói Ásgeirs, danskur maður, frá þessu og sagði að er hann hefði haldið inn Djúp og til Skutulsfjarðar, þá hafi hann séð hitt skipið hverfa inn Jökulfjörðu.

Gatan liggur þarna yfir holt eitt mikið, en ofan við það eru rennisléttar grundir, sem áin liðast um á malareyrum. Liggur næst að álykta, að þetta sé fyrrum botn á stöðuvatni, sem hafi þornað er Skorará brauzt í gegn um holtið. Á grundum þessum tjölduðu leiðangrar oft á árunum 1977-9 og skildu eftir miklar grjótrústir, sem enn sjást. Þarna er ákjósanlegt tjaldstæði í þurrviðrum, en gæta verður hófs í grjótburði að tjöldunum og lagfæra það, sem fært er úr skorðum.

Yfir Skorará er ýmist vaðið á eyrunum ofan gilsins, þar sem áin er grynnst og breiðir úr sér í 2-3 kvíslum, eða þá að farið er inn grundirnar og stiklað yfir nokkru ofar en svonefndur Skorarlækur* fellur í ána. Skorará kemur af Jökladölum vestari og er hluta jökulvatn. Getur hún því stundum verið allmikil, en ekki á að vera hætta af henni nema í mestu vöxtum. óneitanlega yrði það þó til hægðarauka ef hún yrði brúuð rétt neðan stiklanna, þar sem hún fellur í fremur þröngum stokki, auk þess sem það létti af mönnum freistingunni að fara ána á mistraustum snjóbrúm. Spottakorni ofan við þann stað, sem við stiklum ána er foss í henni. Þar segja sumir að hafi farizt bændur tveir frá Álfsstöðum og farið fram af fossinum. En nokkuð fer tvennum sögnum af dauða þeirra, eða öllu heldur þrennum, því aðrir segja þá hafa gengið fram af Gýgjarsporshamri og enn aðrir að engin slík slys hafi hent, heldur hafi þeir orðið úti. Voru Álfsstaðabændur aðeins tveir margra, sem hafa farist á ferð yfir Skorarheiði.
Hér er allt kennt við Skor. Þegar við erum komin yfir Skorará á stiklunum, þá höldum við á meðfram Skorarlæknum upp sniðgötu í Skorarbrekku sunnan lækjarins í Skorina, þar sem lækurinn á upptök sín í Skorarvatni á Skorarheiði. Ekki er vitað til þess að fiskur sé í Skorarvatni, en þjóðsagan hermir að svo hafi eitt sinn verið. Tröll, sem sitt heima áttu í Lónafirði spilltu bændum þeirri veiði endur fyrir löngu. Sagnir eru um að slegið hafi í brýnu milli bænda og tröllanna og hafi bændur orðið að láta í minni pokann.

Þegar við göngum götuna, sem er á aurum sunnan vatnsins, sjást hvorki tröll né fiskur. Þarna er gatan skýr og að auki merkt með staurum, því villugjarnt getur verið í dimmu veðri, einkanlega ef snjór er á. Aurar þessir eru gjarna blautir lengi sumars og skyldu menn taka sér vara á því að þeir geta sokkið ökkladjúpt í eðjuna.

Austan vatnsins er svo lág brekka upp, Vatnsbrekka, og í henni snjóskafl, sem sjaldnast leysir. Þarna mun Skorarheiði hvað hæst og fljótlega erum við komin á austurbrún hennar.
Um tvær leiðir er að velja niður af heiðinni. Til vinstri er varðaða leiðin, sem gengin var niður Brekkur og Hvolf, en til hægri er hestagatan, óvörðuð, en mjög skýr og góð. Þar förum við. Gatan liggur niður svonefnt Tagl og rétt neðan við brúnina komum við á ræstan og upphlaðinn veg, eitt síðasta verk búenda hér áður en þeir fluttust burt. Til skamms tíma hefur mátt sjá leifar flutningatækja þeirra við enda hlaðna vegarins. Okkur á hægri hönd nokkuð frá vegi, er (H)Rafnshaugur, þess er nam Hrafnfjörð. Í honum munu eiga að vera fjármunir miklir, en líkt og með marga aðra hauga svipaða má ekki við honum snerta, því þá virðast hús í Furufirði brenna.

Er Taglinu lýkur þrýtur einnig hlaðna veginn, en hestavegurinn lá áfram beint af augum, stundum margsinnis yfir sömu lækina og eftir árfarvegum og er það sú leið, sem sýnd er á kortum. Gönguleiðin var hins vegar í framhaldi af vörðuðu leiðinni niður af heiðinni og því beygjum við til vinstri í átt að þremur giljum, sem eru þar með stuttu millibili. Neðan undir giljum þessum nefnast Gileyrar og þar förum við yfir sem næst hlíðinni. Rétt þar utan við fellur Furufjarðarós upp að hlíðinni og fylgir henni langt til sjávar. Ekki er gott að ganga á bökkum hans sökum bleytu, heldur ergengið á barði þar ofan við og í mólendum slakka, þar sem nefnast Teigar og Teigabarð unz kemur að Krók, þar sem ósinn þverbeygir um 200 m frá sjó yfir undir miðjan fjörð, þar sem hann tekur aðra beygju og þá beint til sjávar. Á tanganum, sem myndast milli sjávar og óss, standa Furufjarðarbær og bænhús og var þar nefnt á Auðnum. Furufjörður var einhver álitlegasta bújörð Hornströndum og var þar gjarna margbýlt. Einn ókostur var þó nefndur þar við í Jarðabók Árna Magnússonar, óbærileg gestanauð af þeim, sem sóttu rekavið á Strandir um Skorarheiði. Bænhús er í Furufirði eins og áður er nefnt, lítið hús og vingjarnlegt, reist um síðustu aldamót. Þess biðja þeir, sem varðveita húsið, að gestir gangi vel um og virði helgi hússins og minningar þeirra, sem þaðan eru.

Við komum ekki við á Auðnunum núna, heldur förum beint frá Króknum með hlíðinni til sjávar. Á leiðinni göngum við þar hjá, sem einn Furufjarðarbæja stóð áður uppi á bökkum og sér nokkuð til rústanna fyrir ofan klett þann í framanverðum bakkanum, sem heitir Vínklettur. Þar mun búa huldufólk og á að hafa sézt til þess og búfjár, en nafnið er sagt frá 12. eða 13. öld, er þar hafi fundizt rekin vínáma.

Tjaldstæði okkar í Furufirði eru þar sem heita Naust í fjarðarhorninu norðan megin. Þar eru einnig skýli SVFÍ og kamar Náttúruverndarráðs, en þeir eru einatt merki þess, hvar þess er vænzt að fólk tjaldi. Rétt utan skýlisins er lítill lækur og niður af honum vör og er venjulega lent þar, komi menn til Furufjarðar af sjó.

Myndasafn

Í grennd

Hornstrandir
Hornstrandir Vestfjörðum Nyrsti hluti Vestfjarða er Hornstrandir, sem markast af Geirólfsgnúpi í austri og nú eru vesturmörkin oftast miðuð við Rit v…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )