Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 12. dagur

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR

12. dagur:
Frá Látrum að Sæbóli í Aðalvík 9 km fyrir Hvarfnúp

Þá er lagt af stað yfir að Sæbóli. Við göngum fjöruna, sem er slétt og hörð eftir lamstur öldunnar svo ekki markar spor í. Það sýnist ekki langur spotti frá Látrum að ganga yfir að Kleif, en hann reynist sporadrjúgur og meðan við örkum sandinn, þá ætla ég að segja frá annarri leið héðan: Frá Látrum til Hesteyrar.

Sú leið liggur yfir Látramelinn og er stefnt beint að bæ í Stakkadal. Þar sem saman koma ós og vatn er þröngur stokkur, sem nefndur er Skjónuhylur. Þar er sögð hafa drukknað niður um ís hryssa ein er Skjóna hét, elskuð mjög af eigandanum, Jóni í Stakkadal, og syrgð er hún var dauð. Jón varð seinna úti á Látramel, þar sem kallaðist Jónsklakkur. f stærstu straumum gætir flóðs allt upp í Skjónuhyl, en þá er vætt á hnédjúpu skammt ofan hylsins. Þar gengur lítil eyri út í vatnið, Silungseyri, og er vað af henni nefnt Kúavað. Rétt neðan hylsins er annað vað, sem kallað var Mjóavað. Nokkru þar neðar eru grynningar í ósnum og kallast þar að fara á Vörðu. Kemur það við sögu á eftir.

Er yfir ósinn er komið liggur leiðin upp bakka að bæjarrústum í Stakkadal. Þar var eitt sinn draugur allmagnaður, sem Móri hét. Hann gerði af sér ýmsar hörmungar, en var svo mildaður nokkuð af Staðarpresti. Hann fylgdi þó niðjum bónda þess, er hann hafði verið vakinn upp gegn og sást allt fram yfir miðja 19. öld og gerði glettur þar sem fólk hans bar að garði. Máttlítill var hann þó orðinn þá og lauk svo að bóndi einn í Miðvík, fjölkunnugur talinn, kvað hann niður og hefur Móri ekki bært á sér frá því.

Í Stakkadal eru tveir hólar, sem bera nöfnin Stakkshóll og Kistuhóll. Á Stakkshóll að vera haugur landnámsmanns, en í hinum að vera kista hans með fé í. Skömmu fyrir aldamót tóku nokkrir menn sig til og grófu í Kistuhól. Hvort heldur það var gert til að finna gull eða afsanna slíka trú, þá fundu þeir stóru hellu og undir henni aðrar reistar á rönd, svo og stóran stein, sem þeir sprengdu. Ekkert fémætt fannst, en mikið vatn spratt fram.

Frá bæ er haldið upp túnið og þegar kemur á holtin þar fyrir ofan sést gatan nokkuð skýr. Hún skásneiðir hlíðina upp dalinn. Uppi undir brún sjást svo vörður, sem fylgja má yfir til Hesteyrar. Uppi á fjallinu er grýtt og erfitt yfirferðar fylgi menn vörðunum, sem standa á grjótholtunum eins og símastaurarnir, sem einnig má nota sem leiðarmerki. Rudda gatan er hins vegar nokkuð til hliðar við vörðuðu leiðina, orðin máð sums staðar og annars staðar gjarna undir snjó lengi sumars. Á brún hins vegar er komið á góðan veg, sem liggur niður til Hesteyrar.

Þegar þessari ræðu er lokið, erum við komin að Stakkadalsósi. Áður rann hann alveg upp við stóra sandflákann í hlíðinni, sem nefndur er Teigur, og síðan fast með Kleifinni og náðu þeir þá næstum saman, Stakkadals- og Miðvíkurósar. Á flóði þurftu menn þá að vaða ósinn við Vörðu og ösla síðan neðst í sandbrekkunni niður með ósnum og yfir Kleif. Þetta var erfitt og ekki alltaf hættulaust, því sandbleyta var oft mikil. Undir sandinum í Teignum leynist snjór, sem ekki nær að bráðna yfir sumarið. Um síðustu aldamót var talsvert um að skútur kæmu inn á Aðalvík til ístöku í Teignum. En fljótlega eftir að banaslys hafði orðið við að koma ísnum á bát niður ósinn hætti þessi iðja.

Nú rennur ósinn fjær hlíðinni og er vel væður við sjó á fjöru, en aðgæzlu þarf þó sökum sandbleytu. Einna þægilegast er að vaða alveg á mörkum sjávar og óss; þar er grynnst og þar hefur ósinn ekki enn hreyft lábarinn sandinn. Við notum þetta ráð og vöðum þannig að einn fer fyrir með göngustaf, en hinir koma í halarófu á eftir og haldast í hendur.
Jónas Hallgrímsson fór her um eitt sinn og þurfti að fara ósinn. Ekki var þá margt góðra hesta hér ef marka má umsögn Jónasar* :

„Þegar þú kemur þar í sveit,
sem þrímennt er á dauðri geit,
og tíkargörn er taumbandið
og tófuvömb er áreiðið,
og öllu er snúið öfugt þó
aftur og fram í hundamó,
svo reiðlagið í ringli fer
og rófan horfir móti þér,-
veittu þeim draugi blundarbið,
bölvaðu ei né skyrptu við,
en signdu þig og seztu inn
sunnan og fram í jökulinn,
lúttu þar að, sem loginn er,
og láttu bráðna utan af þér,
og seinna þegar sólin skín,
sendu geisla með boð til mín.“

Lélegur hefur hesturinn verið og megum við vera jafnfegin að ferðast um á okkar tveimur jafnfljótum. En þegar upp úr kemur hinum megin tekur því varla að fara í skó aftur. Við förum heldur að klettabásnum undir Kleifinni, þar sem kallast Stofa og tökum okkur örstutta hvíld á meðan við lögum byrðarnar á okkur og bindum upp skóna. Hér beint framundan Kleifinni er þekkt mið sem menn reru á til kúfiskjar. Og sjálfsagt eru þar aðrar skeljar líka, því sandurinn ber þess öruggt vitni, sterkgulur af skeljamylsnu.

En menn sóttu til Aðalvíkur til annarra hluta en veiða. Oft er þar leitað vars undan stórviðrum og í september á Alþingishátíðarárinu 1930 var einum slíkum gesti tekið á óvenjulegan hátt, því hann var handtekinn. Hann hafði stolið opnum vélbáti í Reykjavík um hálfum mánuði fyrr, sett í hann þilfar, málað og breytt að ýmsu öðru. Til Ísafjarðar kom hann rúmri viku eftir stuldinn og fór þaðan áleiðis til Grænlands eða Ameríku, en varð að leita vars á Aðalvík, þar sem hann var tekinn höndum eins og fyrr segir. Viku síðar strauk hann úr fangahúsinu á Ísafirði og segir svo ekki sögu meir.

Að lokinni áningu er lagt af stað að nýju. Með skóna bundna upp á okkur göngum við berfætt það, sem eftir er sandfjörunnar yfir undir Hvarfnúp. Við Miðvíkurós gilda sömu reglur og hinn og við komumst klakklaust þar yfir líka.

Nokkrir úr hópnum vilja fara inn að bæ í Neðri-Miðvík.Þar bjó á síðari hluta 18. aldar Jón Guðlaugsson, sterkur mjög og mikill íþróttamaður. Hagmæltur mun hann líka hafa verið, þótt ekki liggi mikið eftir hann. Einhverju sinni fór Jón til Grunnavíkur og var spurður, er til baka kom, hvort Grunnavíkurklerkur hafi verið heima. Svaraði Jón því svo til:

„Ekki heirna hýr þá var Herrans sendiboði.
Lét hann sveima súðafar
síls um mar til kaupstaðar.“

Það er stutt leið og létt að Neðri-Miðvík og þar sjást hálffallin bæjarhús á kafi í hvönn. Og muni einhver sjónvarpsþátt Ómars Ragnarssonar, „Eyðibyggð“, þá var það einmitt hér, sem myndirnar af mesta gróðrinum voru teknar. Á móts við bæinn er auðvelt að vaða ósinn og engin sandbleyta er þar. Frá Neðri-Miðvík sér inn um víkina alla. Hún er láglend og slétt langt fram, gróin vel en votlend. Bæjarrústir sjást uppi undir fjalli að sunnanverðu nokkuð inni í víkinni. Það er Efri-Miðvík. Samtímis því er Jón Guðlaugsson var í Neðri-Miðvík, bjó um nokkur ár í Efri-Miðvík Ebenezer Jónsson, sem síðar bjó lengst á Dynjanda í Leirufirði. Eins og minnzt er á þar sem segir frá Dynjanda, þótti Ebenezer göldróttur. Eitthvað er sagt þeir Jón muni hafa átzt við, en galdrar Ebenezers og draugar hans ekki fengið unnið á karlmennsku Jóns. Var fremur fátt með þeim grönnum. Nú er í Efri-Miðvík minnisvarði um síðustu bændur þar, skorsteinsbrot, sem komið hefur verið fyrir á grunni eins bæjarhúsanna, með áletraðri plötu greyptri í. Frá Miðvík er leið yfir fjall til Þverdals og er hún gjarna notuð ef rnenn ná ekki á lágu falli fyrir Núp eða treystast ekki til að fara þá leið. Er þá gengið upp með ósnum að vestan, þar til komið er að síki einu, sem á er gömul brú. Þaðan er farið beint upp að bæ og síðan upp og inn með hlíðinni. Þar má greina slitinn götuslóða, fremur óskýran þó, og vörðubrot á hjöllum. En snjór liggur oft lengi í lægðum og þarf þá að fara á sköflum. Er hærra dregur sjást vörður til tveggja átta þegar komið er upp að svonefndu Gvendaraltari. Beint fram liggur leið að Sléttu, en til hægri niður í Þverdal og er þar innan skamms komið á götutroðninga, sem liggja niður dalinn.

En við höldum frá Neðri-Miðvík og göngum áfram með sjó og er sandinn þrýtur tekur við grýtt fjara undir hlíðum Hvarfnúps. Þar verðum við að fara aftur í skóna og klöngrast í stórgrýtinu út með fjallinu. Sumir steinanna í fjörunni eru auðsýnilega nýkomnir niður, svo við flýtum heldur för okkar. Það er farið að sjást fyrir Núpinn og Sæból skammt undan þegar urðinni lýkur og við taka klappir, þægilegar umferðar. En þeirra nýtur ekki lengi. Aðeins steinsnar frá þeim stað, sem klettunum yfir höfði okkar lýkur og grundirnar taka við, gengur vogur inn í klappirnar að lóðréttu bergi. Þar heitir Posavogur. Að sögn er nafnið þannig til komið, að maður var á ferð með barn til skírnar að Stað og er hann fór um Hyrningsgötu, rétt ofan við voginn, þá losnaði af honum reifastranginn, sem hann hafði bundið við sig með barninu í, og féll í voginn. Sagt er að 20 manns hafi farizt í þessari götu, en þá flestir að vetrarlagi er svell voru.

Um Posavog má komast á fjöru og klífa þá 3-4 m háan klett niður í voginn, þar sem við tekur hált stórgrýti. Ekki er ráðlegt að fara voginn nema í fremur kyrru veðri þannig að ekki brimi og einungis innan stundar á hvorn veg frá háfjöru. Önnur leið hjá voginum er Hyrningsgata eða Posavogshilla, sem áður er nefnd.

Það er einstigi á afsleppri klettasyllu og lóðrétt berg ofan og neðan. Áður var þetta tiltölulega auðveld leið meðan haldið var við, en mun hafa skemmst af hruni. Hægt verk er með verkfærum að hreinsa sylluna og hefur það stundum verið gert á undanförnum árum, en þó einungis rétt fyrir voginn. Þriðja leiðin er að fara Tök og þá leið förum við. Fyrst þarf að klífa upp í götuna, 3-4 m hátt klettabelti, og er sú leið nokkru áður en komið er að Posavogi, á að gizka 40-50 m frá honum. Frá þolli, sem rekinn hefur verið niður ofan klettanna, liggur vaður niður í götuna og reyndar tveir frekar en einn. Á þeim er hægt að handstyrkja sig upp fyrir klettana og er auðvelt að ná fótfestu.

Er þar komið upp á grasflös í hlíðinni, svonefnt Land, og er auðgengt þaðan niður á sléttar Þverdalsgrundir. Þar fyrir neðan er sandfjara, nefnd Þverdalssandur. Á grundunum er lítið hús, sem heitir Holt. Við göngum hjá því og komum brátt að Staðará. Yfir hana er brú og þótt hún sé bara tveir staurar, sem lagðir hafa verið hlið við hlið ofan á gömlu brúarstólpana, þá ber hún okkur vel yfir. Er þangað er komið erum við ekki lengur bara á manna troðningi eða dýra, heldur er hér bílaslóð. Hún er eftir jeppann í Þverdal, Willy’s módel 1946, hálfgert þjóðsagnafyrirbæri hér um slóðir. Hann hefur verið notaður m.a. til að flytja varning frá lendingunni á Sæbóli heim að garði í Þverdal. Hann hefur sinnt andlegum þörfum líka ekki síður en veraldlegum og flutt orgel inn að Stað svo hægt væri að messa eins og messa ber. Nú er jeppinn orðinn svo roskinn að óvíst er að hann verði mikið á ferli framar.

Við fylgjum slóð jeppans út grundirnar að skólanum, sem stendur ofan við þar, sem nefnist Pollur í fjörunni ; þaravaxnar grynningar, sem upp koma er fjarar. Skóli þessi var byggður 1933 og er grafið var fyrir honum fundust þar einhver mannabein. Ekki hefur óró fylgt þeim, en eftir að byggðin lagðist af var skólinn notaður sem slysavarnaskýli og var svo til skamms tíma. Nú hefur nýtt skýli verið sett ofan við lendinguna á Sæbóli og munu því Átthagafélög Sléttuhreppinga hafa forráð skólans nú.

Þarna rétt hjá er ein „þjónustumiðstöðva“ Náttúruverndarráðs og tjaldstæði ekki þar fjarri, rétt ofan fjörunnar. Við tjöldum þar og reikum síðan um í kvöldblíðunni. En þótt fallegt sé í kvöldsólinni á Sæbóli og friðsælt, þá virðast ekki allir vilja halda friðinn. Mývargur í stórum skýjum sveimar allt í kringum okkur og gerir lífið leitt. Suma bítur mýið, aðra lætur það að mestu í friði, utan hvað það sækist eftir skjóli í nefi, munni og eyrum. Altént er það víst, að flest þau blótsyrði, sem mönnum hrökkva af vörum þetta kvöld, eru mýinu að kenna.
Við göngum grundirnar heim að Sæbóli og förum þar hjá, sem standa tveir nýlegir sumarbústaðir. Þarna var reist nýbýli skömmu fyrir 1940 og hét Sæborg, oftast þó nefnt Borg. Stendur annar bústaðanna á grunni þess. Á Sæbóli er allt þakið í hvönn, en eigendur sumra húsanna þar hafa slegið blettina kring um hús sín. Þrna eru mörg hús; sum ný, sum gömul. Hér, eins og Látramegin, hefur hvert þeirra sitt nafn s.s. Bólið, Steinhús, Yztibær og meira að segja eitt nýjasta húsið hefur þegar fengið nafn og heitir Fjósatunga. Ekki veit ég að vísu hvort eigendur eru sammála nafninu, en gömlum heimamönnum finnst sjálfsagt að húsið heiti örnefni staðarins, sem það er á.

Á Sæbóli var eitt þriggja þorpa, sem mynduðust í Sléttuhreppi um og eftir aldamót. Ekki varð þar jafn margt manna og á Látrum, en um 60 manns bjuggu á Sæbóli um 1920. En á nærliggjandi bæjum bjuggu 40-50 manns, svo nokkuð hefur verið jafnt hvorum megin víkur.
Árið 1757 skrifuðu 4 bændur úr Aðalvíkursveit bréf til landfógeta og báðu þess, að „þessir að dauða komnu sveitarinnbyggjarar mættu og einnig hafa part í þessari kóngsins ölmusugjöf“. Er í þessu bréfi vísað til þess, „að oss hefur til eyrna borizt, að hans allranáðugasta Majestet af sinni stórri kónglegri mildi og föðurlegri með aumkvan til þessa lands nauðlíðandi innbyggjara hafi í þetta land innsent undir yðar herradóms úthlutan kost, sem skal vera mjöl og brauð til þeirra sern mest stórlíðandi eru . . .“ Undir þetta rita 4 hreppstjórar* Aðalvíkursveitar nöfn sín. Nær 200 árum síðar var ritað annað bréf þar sem farið var fram á aðstoð ráðamanna þjóðfélagsins vegna brottflutninga úr sveitinni. Ráð kunnu menn engin, því orsök vandans var óljós. Vera má að mönnum hafi einnig þótt því fé sólundað, sem lagt væri í slíkt. Því fór sem fór; öll byggð lagðist af og eftir stóðu verðlausar eignir manna, sem hófu nýtt líf annars staðar með lítið fé handa á milli og með slitnar rætur. Þessi ömurlega saga blasir við hverjum þeim, sem kemur og má lesa úr auðum húsum, föllnum girðingum og úrsprottnum túnum. En þar er líka önnur saga; saga fólksins, sem bjó þar.

Einn þeirra, sem átt hafa heima á Sæbóli, er Finnur Gestsson, títt nefndur Galdra-Finnur. Einhvern tíma var hann staddur á Ísafirði og gerði þá norðan áhlaup og máttu Aðalvíkingar, og Finnur þar með, sitja kyrrir og komast ekki heim. Danskur verzlunarmaður bauð Finni, honum til háðungar, allmikla vöruúttekt í verzluninni ef hann beitti nú kunnáttunni og bætti veðrið. Kvað Finnur það létt verk, en hinn bjóst við litlum efndum. Morguninn eftir var hið bezta veður og heimti Finnur launin, en svo sagði hann síðar, að ekki hefði hann verið í annan tíma eins hræddur um galdrarykti sitt sem þá.

Utar með fjörunni, úti undir Skáladalsbjargi, verður fyrir okkur vogur, sem Kirfi kallast og klettur þar utan við, lóðréttur í sjó, en rofinn djúpu skarði. Um það verður ekki komizt nema á fjöru og er þá farið til Skáladals. Við horfum þangað út eftir og sjáum grænan blett á bakkanum fyrir ofan fjöruna. Þar stóð bærinn og verbúðir neðan bakkans, við sjóinn. Skáladalur var mikil verstöð og reru þaðan þeir, sem bjuggu nærsveitis og jafnvel lengra að komnir einnig. Nokkuð var þar talið reimt og jafnvel svo, að illvært þótti stundum. Eitt sinn er sagt að maður að nafni Jósef hafi orðið eftir einsamall í verbúð þá aðrir fóru heim um hvítasunnu. Um kvöldið gekk hann til svefns, en hafði hjá sér hlaðna byssu sína. Er hann var að festa svefn, var allt í einu kippt í brekán hans, en hann hélt. Tvívegis var aftur kippt og sterkast síðast, svo Jósef missti það úr höndum. Seig nú í hann og hélt hann í fyrstu einhvern heimamanna vera að stríða sér, en sá þó engan og dyrnar voru luktar. Opnaði hann þær og skaut um þær þremur skotum; einu við gólf, þá nokkru ofar og loks efst í dyrum. Eftir það svaf hann ótruflaður þá nótt og þær næstu. En sagt er, að ekki hafi allir sloppið svo vel frá næturgistingu í verbúðum í Skáladal sem Jósef.

Um aldamótin birtist auglýsing í Þjóðviljanum unga, sem gefinn var út á Ísafirði, og sýnir hún okkur að enn greinir menn á um sömu mál og fyrr:

AUGLÝSING: Jörð friðlýst gegn skotum.
Jeg undirritaður Árni Sigurðsson bóndi að Skáladal í Aðalvík í Sléttuhreppi í Ísafjarðarsýslu.
Gjöri kunnugt: Að eg fyrirbýð öllum hér með einum og sérhverjum að skjóta nokkurn fugl, hvort sem er bjargfugl eða annar fugl, hvar sem er í Skáladalslandareign, og svo sem landamerki téðrar jarðar frekast segja.
Sérstaklega finn eg ástæðu til þess, að taka það hér fram, að jörðin Skáladalur á Rit allan alla leið út í svonefnt Nálarsker. Brjóti einhver gegn þessu banni mínu, má hann vænta þess, að hann verði lögsóttur til sekta, skaðabóta og málskostnaðarútláta.
Skáladal 4. okt. 1899 Árni Sigurðsson.

Úr Skáladal er auðgengt á Rit og vel þess virði í góðu skyggni. Tekur gangan frá Sæbóli um 4-5 stundir, fram og til baka. En þangað förum við ekki núna, heldur snúum við og göngum inn með fjöru á Sæbóli. Við rekumst þar á grunna gamalla verbúða og gangspil, sem enn standa þótt gömul séu og lúin. Þar fyrir neðan eru varir; hér er lendingin. Innan vìð Traðará eru sandklakkar og upp frá þeim er sjáanlegur uppgróinn vegur. Hann virðist liggja í allar áttir, því þarna eru vegamót. Ein greinin liggur inn í tún á Sæbóli, önnur þvert yfir Sæbólsflóa í átt að holtunum milli Þverdals og Staðar. Sú þriðja liggur til fjalls og þegar við röltum hana förum við hjá skálarústum og vélbyssustæðum frá því er Bretar dvöldust hér í heimsstyrjöldinni síðari. Eftir þessum vegi og eftir járnbraut upp fjallið fóru öll aðföng, sem Bretarnir þurftu til stöðvar sinnar á fjallinu. Stöð þessi var aðeins til í raunveruleikanum; á pappírnum hét hún HMS Baldur og var skip.

Þegar við erum komin þarna upp að hlíðinni sjáum við eitt hús enn, sem stendur ofar en húsin á Sæbóli. Það er í Görðum, en þar hefur verið reist nýtt hús á gömlum grunni og vel tekizt til. En látum nú lokið næturgöltri og förum að sofa, þegar þokan fossar fram af Straumnesinu, gulllituð af miðnætursólinni.

Til baka

 

Myndasafn

Í grennd

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )