Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR, 7. dagur

Úr Barðsvík að Bjarnanesi á Almenningum 9 km um Smiðjuvíkurháls (260 m), Smiðjuvíkurbjarg (150 m) og Digranes (150 m)

Á Ströndum gekk ljósum logum draugur, sem nefndur var Hafnar-Skotta og mun uppruna hans að leita í Höfn í Hornvík, en að því kemur síðar. Einhverju sinni var maður á leið úr Barðsvík upp í Göngumannaskörð til Bolungavíkur. Honum varð litið til baka er hann var kominn nokkuð upp í hjallana og sá þá hvar ókennileg skepna var meðal kúnna í Barðsvík. Er hann kom til baka var honum sagt að ein kýrin hefði fundizt lemstruð og brotin á sléttum grundum. Skýringin kom daginn eftir, er til Barðsvíkur kom gestur af ætt þeirri, sem Skotta fylgdi.

Fram Barðsvík var gengið um Þrengsli til Sópanda í Lónafirði. Sú er örðug ókunnugum og lítt merkt. Skyldi enginn fara hana nema í björtu veðri og í fylgd kunnugs manns.
Við leggjum nú af stað í næsta áfanga og er leiðinni heitið að Bjarnanesi á Almenningum. Við förum upp á klettaholtið, sem er upp af tjaldstaðnum, fram hjá bæjartóttunum og leggjum á Smiðjuvíkurháls. Hálsinn er um 250 m hár, þar sem leiðin liggur yfir hann, klettalaus að mestu þar, en skiptast á smá skriður og melhjallar. Utar lækkar hálsinn nokkuð, en verður brattari og endar í þverbröttum klettanúpi, sem heitir Barð. Hægt er, eða öllu heldur skyldi sagt gerlegt, að komast þar fyrir í fjörunni, en það er hið mesta klungur og hættuspil og engum manni ráðlegt.

Smiðjuvíkurháls er ómerktur og enga götu er að sjá. Upp frá tóttunum er haldið um lágar, sem þar liggja og er upp er komið, höfum við lágan klettahjalla á vinstri hönd. Til frekara miðs má nota bugðuna á Barðsvíkurósi og á hana að bera í Skarðsfjallið milli skarðanna. Eins er hins vegar, engin gata eða vegvísar eru á leiðinni, en við fylgjum lágum niður í Smiðjuvík og stefnum nú meira út hlíðina. Þegar komið er niður í dalinn sjáum við móta fyrir götuslóðum, þar sem áin kemur úr gljúfrinu, sem lækir þeir er mynda hana, sameinast í. Rétt þar neðan við má komast á stiklum, séu menn í gönguskóm, en hins vegar er hún ekki dýpri en svo að vel má vaða hana á stígvélum.

Smiðjuvík er miklu minni en hinar tvær áðurnefndu víkur eiginlega fremur grunn skál í bjargið en vík. Smiðjuvíkurbær stóð niðri við sjó á háum bökkum og sjávargatan er eini staðurinn sem fært er niður að sjó; er hún í árgljúfrinu sem hefur grafist í 8- 10 m háa klettabrún. Það er fallegt í Smiðjuvík, en menn lifðu ekki á náttúrufegurðinni þar fremur en annars staðar. Og lífsbaráttan var hörð hjá Sigrúnu í Smiðjuvík, sem að sumra sögn var fyrirmynd Hagalíns að Kristrúnu í Hamravík. En þótt hart væri til bús, var Smiðjuvík ein þeirra jarða á Ströndum, sem hafði hlunnindi af reka. Þar má því gjarna sjá nokkurn við á fjörum, en sumarið 1983 var þar annars konar og nýstárlegri reki. Stóran gám hafði rekið upp í mynni Smiðjuvíkurár og því nær stíflað farveg hennar. Gámur þessi var litt skemmdur að sjá, en rétt hjá mátti sjá annan, sem hafði farið verr, því hann var í tætlum.

Upp úr Smiðjuvík liggur leiðin fyrst út með smáhækkandi bjargbrún, en síðan upp á hjalla, sem svo er fylgt þar til kemur að smá lægð inn af brún Smiðjuvíkurbjargs, sem þar hallar inn til landsins. Við göngum um mýrasund og mela milli smátjarna og stöndum brátt á brekkubrún. Okkur á vinstri hönd höfum við fjall sem á kortum hefur verið ranglega nefnt Snókur, en heitir með réttu Rauðaborg: Þar eiga að búa álfar og eru sagnir um það, að sem laun fyrir hirðusemi búenda í Smiðjuvík gagnvart álfunum hafi þeir launað fyrir sig og jafnvel bjargað mannslífum. En Snókur heitir hins vegar fjall, sem er alláberandi og ber frá okkur séð yfir drög Drífandisdals en svo heitir dalurinn, sem við erum komin að. Eftir dalnum rennur Drífandisá og fellur hún fram af bjarginu beint í sjó í um 50 m háum fossi, sem áin og dalurinn nefnast eftir. Rétt ofan brúnarinnar er annar foss, miklu minni, en engu síður fallegur. Drífandisá skyldu menn ekki vaða nálægt brún, þó svo áin sé ekki svo djúp þar, því brúnin er sprungin og sytrar vatnið niður í sprungurnar. Bezt er að fara ofan við efri fossinn.
Frá Drífandisdal liggur leið okkar yfir Digranes og frá bjargbrúninni um stund, því til að forðast dalverpi, þar sem nefnast Hólkabætur, þá leggjum við lykkju á leið okkar og höldum hæð þar til kemur á svonefnda Bjarnaneshæð. Hún er rétt ofan Bjarnaness og á henni varða. Sú varða er reyndar ekki beinlínis ætluð til að merkja okkur leið, þótt vel henti nú, heldur er hún hluti leiðarmerkingar vestur yfir fjall norðan við Snók til Lónafjarðar. Þessi leið var ýmist kölluð Hreppavegaskarð eða Snókarheiði. Var þar sögð póstleið að Kvíum í Jökulfjörðum, en hefur lítt verið farin á síðustu árum. Ekki er hún heppileg ókunnugum án fylgdar og alls ekki nema í björtu veðri, því villugjarnt er þar og má ekki mikið út af bregða í þoku. En við förum niður af Bjarnanesshæð að Bjarnanesi. Það er lítið klettanes, þar sem eitt sinn var búið, en illbyggilegt virðist það nútímamönnum jafnvel enn frekar en þeir staðir sem við höfum farið hjá. En við ætlum að kynnast því aðeins nánar hvernig er að búa hér og tjalda til næstu nætur.

Áður en við þorum að fara að sofa hér væri kannski ekki úr vegi að vita eitthvað um það, hvað hér hefur gerzt. Á Bjarnanesi bjó nokkru fyrir síðustu aldamót Jón nokkur Guðmundsson, sem Hornstrendingar sögðu svo um, að hann væri annar tveggja vísindamanna á Hornströndum, því „annar væri í Þjóðvinafélaginu en hinn héldi Þjóðólf“. Hinn var Guðmundur bóndi í Smiðjuvík.

En því er einnig gaman að Bjarnanes skuli tengt vísindum, að þar munu bæði hafa sézt skrímsli og verið beitt göldrum að sögn og mun víst hvorugt teljast vísindalegt. Er galdrasagan sögð vegna þess, að Hornstrendingar og áhöfn norsks hvalveiðabáts höfðu deilt um hvalreka og heimamönnum þótt hinir beita rangindum . Varð ýmsum heitt í hamsi og varð síðar almælt, er báturinn hvarf í hafi næsta vor, að tveir gamlir menn hefðu magnað upp hvalbein, sem þeir sendu fyrir bátinn og það grandað honum. Varð einhverjum þá að orði: „Bænheitir þeir gömlu.“

Skrímslið sá Stefán Jóhannsson frá Látravík er hann lá fyrir tófu síðla hausts. Dimmt var yfir en rofaði þó til öðru hvoru og birti af tungli. Seint um kvöldið sá Stefán kvikindi skreiðast upp úr sjónum og stefna að sér. Ekki sá hann skepnuna gjörla, en þó sá hann að hún var á stærð við hest, með sex fætur, stuttan háls og stóran haus og þar í tvær stórar glyrnur. Ekki beið Stefán þess að óvætturin kæmi nær, heldur skaut að henni. Fyrsta skotið virtist ekki verða að meini, en eftir annað skot hristi skepnan hausinn og hvarf til sjávar með umbrotum miklum og brambolti.

Stefán glímdi einnig við draug nálægt Bjarnanesi og hafði sigur en kom illa til reika heim að bæ þar að afloknum bardaganum.

Myndasafn

Í grennd

Göngubók Snorra Grímssonar Inngangur
HORNSTRANDIR - JÖKULFIRÐIR GÖNGULEIÐIR UM HORNSTRANDIR OG JÖKULFIRÐI Kuldaleg nöfn setja gjarnan hroll að manni. Hefur líka löngum legið það orð á…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )