Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 6. dagur

Frá Furufirði í Barðsvík 10 km um Göngumannaskörð (366 m)

Að morgni er haldið út með Furufirði og er för nú heitið til Barðsvíkur. Við leggjum af stað nokkru fyrir hálffallinn sjó, því út með hlíðinni er svonefnd Bolungavíkurófæra, sem hægt er að komast fyrir, ef ekki stendur hærra á sjó en svo.

Fyrst er gengið út með firði um grundir neðan lágra bakka, grasi gróinna. Á að gizka miðja leið milli Nausts og Ófæru rennur dálítil á, sem venjulega er nefnd Áin í Landinu, en er þó ekki alls kostar rétt, því Land heitir allnokkru utar, þar sem landi tekur að halla meir til bjargsins. En utan og ofan við, þar sem við förum yfir ána er sérkennilegur klettur, sem nefndur er Máfnaberg.* Þar sem gróið land þrýtur tekur Bolungavíkurbjarg við. Við göngum eftir fjörunni og í gegnum þröngt sund milli tveggja kletta og stöndum þá í Ófærubásnum. Gegnt okkur er hár klettastapi út úr bjarginu og gengur hann nokkuð niður í fjöruna. Þetta er Ófæran, sem ekki er hægt að komast fyrir ef sjór fellur upp að. Við höfum gætt þess, að vera á réttu falli, en komi menn að þegar sjór stendur hátt, þá er til önnur leið. Hægt er að komast um mjóan þræðing út á Ófæruklettinn og klöngrast niður urðina hinum megin. Þessi leið er ekki ráðleg lofthræddum og reyndar ekki þægileg umferðar með byrðar á baki. Þó á öllum, sem ekki þjáir lofthræðsla, að vera þessi leið fær með því fororði þó, að hún er greiðfærari Furufjarðarmegin frá en Bolungavíkur.

Einhverju sinni var presturinn í Grunnavík á ferð undir Bolungavíkurbjargi við þriðja mann og féll þá á þá snjófloð. Komust allir lífs frá flóðinu og einnig sá þeirra, sem tók út á sjó. Honum skolaði aftur upp í fjöruna.

Í urðarfætinum liggur leiðin svo áfram nokkurn spöl unz komið er út á Drangsnes, yzt við fjörðinn. Þar taka við grasi vaxnir bakkar, sem land tekur að sveigjast inn til Bolungavíkur. Á nesi þessu er lítil vík, umkringd háum bökkum og út í sjó á miðri vík er drangurinn, sem nesið og vík þessi eru kennd við. Drangur þessi er sagður vera annað tröllahjóna, sem voru á ferð um Strandir og dagaði uppi. Hann er karlinn og má greina bát hans í klettunum skammt undan. Kerling er handan fjarðar undir Furufjarðarnúpi og hjá henni kletturinn Kanna, sem áður er getið. Segja sumir það vera silfurkönnu kerlingar en aðrir vilja hafa kú hennar.

Bolungavík er láglend og votlend, umkringd bröttum fjöllum í öllum áttum utan vestri, þar sem liggur vegur um smáhækkandi klapparholt upp á Bolungavíkurheiði yfir í Álfsstaðadal í Hrafnfirði. Í Bolungavík eru ýmis örnefni tengd þjóðsögum svo sem víðar á Ströndum. Rétt ofan Bolungavíkurbæjar eru tveir stórir steinar nefndir Tvísteinar, sem í munu búa álfar og var börnum óheimilt að hafa þar í frammi háreysti eða annan óskunda. Til þess bar, að eitt sinn áttu unglingar að hafa verið þar að leik og álfarnir kvartað við foreldra þeirra. Ekki var því sinnt og hefndu álfarnir sín með því að æra einn drengjanna og fannst hann dauður inni undir heiði.

En þar inni undir heiðinni eru aðrir tveir steinar, sem kallast Dvergasteinar og segir sagan að Bolvíkingar hafi átt góð skipti við dvergana, sem þar bjuggu. Steinar þessir eru einnig kennileiti á leið um Bolungavíkurheiði.

Eftir að ísöld lauk fyrir l0000 árum, hefur víða safnast fyrir sandur í víkur- og fjarðarbotnum hér um slóðir og er mikil sandfjara fyrir botni Bolungavíkur og fellur Bolungavíkurós um sandinn miðjan. Á fjöru er ósinn vel væður við sjó og á flóði rétt ofar. En nokkru ofar er á honum fornt vað, sem Kirkjuvað heitir, frammi undir vatni því, sem er ofan sandsins. Það heitir Kirkjuvatn og eins og nöfn þessi benda til var hér eitt sinn kirkja. Ekki er mönnum ljóst hvar hún muni hafa verið, en líklegast er talið að hún hafi staðið á svo nefndum Fremri-Auðnum, en Auðnur heita þar sem nú má sjá tvo skrúðgræna bletti nokkuð nær norðurhlíðinni en miðja vegu frá ósnum, milli vatns og sjávar. Út með sjó undir Skarðsfjalli, norðan víkurinnar, er sumarhús, þar sem áður var Bolungavíkursel.

Skarðsfjall liggur norðan að Bolungavík. Yzti endi þess heitir Straumnes og má þar komast fyrir til Barðsvíkur, en sú leið er torsótt og varhugaverð ókunnugum. Út með Straumnesi heitir Ófæra og rétt þar innan við Skriða, stórgrýtisurð. Þar er sagt að eitt sinn ræki hval. Að venju söfnuðust menn víða að til skurðar á hvalnum og er hann var nokkuð skorinn tóku menn að deila, líklega um skipti á hvalnum, án þess þó um það sé getið. Gengu menn frá skurði um stund og þá féll Skriðan úr fjallinu og huldi jafnt skorið sem óskorið og var þá ekki um meira að deila. Á ofanverðri liðinni öld vildu menn kanna sannleik þessarar sagnar og þóttust þá finna hvalþjósir, furðu lítt skemmdar, djúpt í urðinni.

Almannaleið til Barðsvíkur var um Göngumannaskörð og þá leið förum við. Fyrsti hluti leiðarinnar er erfiður, brött og grösug brekka upp á Bæjarhjalla ofan Bolungavíkursels. Þegar Þorvaldur Thoroddsen var hér á ferð 1884 var snjóföl á og efst í þessari brekku missti einn hesta hans fótanna og þeyttist niður hlíðina; gjarðir og koffort hoppuðu niður undir jafnsléttu. Hesturinn var að mestu óskaddaður. Hann stöðvaðist hálfur á kafi í dýi við brekkurætur.

Síðan liggur leiðin áfram inn og upp svonefnda Selhjalla, þar sem hefur verið merkt með málningu á efsta stein í hverri vörðu. Ekki eru klettar á þessari leið, en sumir hjallanna allbrattir upp.

Göngumannaskörð eru tvö og það er hið lægra og ytra, sem leiðin liggur um. Þegar komið er upp í 366 m hátt skarðið sést vítt um Strandir. Leiðin niður Barðsvíkurmegin er merkt á sama hátt með málningarblettum niður efstu hjallana, en þegar kemur að gróðurmörkum þá tökum við stefnu á bæjartóttir í Barðsvík, sem eru handan óssins um 1½ km frá sjó, rétt neðan til við stóra sveiginn á ósnum. Brattir hjallarnir í hlíðinni geta verið erfiðir yfirferðar ef blautt er á, því þeir eru að mestu grónir og því hálir á stundum. Enn fremur er rétt að segja þeim, sem kynnu að ætla sér að fara þangað, sem skýli SVFÍ stendur í Sandshorni, austan megin víkur, að bezt er að fara sömu leið og við förum nú, þ.e.a.s. í átt að Barðsvíkurbæ og beygja síðan út með hlíðinni er neðar kemur í hana. Annars er hætt við að menn lendi í ógöngum í klettahjöllum, sem eru á leiðinni og erfitt er að sjá fyrr en alveg er komið að þeim ofan frá.

Barðsvík er líkt og Bolungavík, sléttlend, en öllu votlendari. Barðsvíkurós rennur um miðjan dalinn niður að sandinum fyrir víkurbotni. Þar beygir hann og fellur til sjávar við fjallsrætur að norðanverðu. Ekki skyldi vaða hann við sjó og helzt ekki neðar en ofan við eyraroddann, þar sem ósinn klofnar í tvær kvíslar um lítinn grashólma. Við förum hins vegar yfir ósinn á móts við bæjartóttirnar á svonefndu Kúavaði og þar reynist dýptin mest vera í hné. En beggja vegna óssins er mýrlendi, sem sandur hefu fokið í og er miður geðslegt að ösla þar. Bezt er því að vera annað hvort vel stígvélaður eða berfættur.

Vel má sjá þess merki við Barðsvíkurós að lengi hefur rekið þangað við og einnig sandur fokið, því við Kúavað má sjá mikla rekadrumba í bökkum óssins sem eru allt að l½ m háir. En uppi við bæjarrústir er betri jarðvegur og fastari og við tjöldum þar og höfum næturstað hér í Barðsvík.

Myndasafn

Í grennd

Göngubók Snorra Grímssonar Inngangur
HORNSTRANDIR - JÖKULFIRÐIR GÖNGULEIÐIR UM HORNSTRANDIR OG JÖKULFIRÐI Kuldaleg nöfn setja gjarnan hroll að manni. Hefur líka löngum legið það orð á…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )