Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 14. dagur

Sigling um Veiðileysufjörð og Lónafjörð

Síðasti dagurinn á ferð okkar er runninn upp. Kominn er bátur til að flytja okkur til fsafjarðar. Bryggja Stöðvarinnar á Hekleyri er að mestu horfin og ónýt og engin bryggja er á Hesteyri. Því verður að róa fram með fólk og farangur í bátinn: Þegar því er lokið er lagt af stað út fjörðinn. En við höldum ekki beint til fsafjarðar, heldur tökum stóran krók á leið okkar og förum inn í Veiðileysufjörð og Lónafjörð fyrst.

Við förum fyrir Lásinn og Veiðileysufjörður opnast okkur smám saman er við komum innar með Öskuhlíð. Brátt sjáum við Gjálpardal skerast inn í hlíðina, lítið dalverpi, sem komast má um upp á fjallið. Í Gjálpardal er sagt þeir hafi barizt Mörður á Marðareyri og Steigur á Steig; Mörður einn, en hinn við sjöunda mann. Mörður hafði sigur. Um 1830 var það svo, að spjótsoddur fannst í mýri einni á þessum slóðum og er síðan kölluð þar Spjótsmýri. Hvort sagan um bardagann spannst út frá því skal ósagt látið.

Hlíðin hér inn með Veiðileysufirði er eitthvert bezta berjaland hérlendis. Nálægt henni miðri er Marðareyri. Ekki er hún stór, en þar má sjá bæjartóttir og var þar búið góðu búi fram yfir aldamót. Einn þeirra, sem þar hafa búið, er Albert Benediktsson, sem segir allnokkuð frá í Hornstrendingabók. Hann bjó á Marðareyri fyrstu búskaparár sín, áður en hann fluttist til Hesteyrar.

En þeir eru fleiri, sem sagðir eru hafa búið á Marðareyri. Mörður sá, sem eyrin er kennd við og nefndur er hér á undan, kemur talsvert við sögu í þjóðsögunni um nátttröllið Bölt, sem nam ungan mann úr mannheimum til hjúskapar við dóttur sína. Hún var hins vegar hrifin af trölli, sem bjó í Kálfatindum á Hornbjargi. Og svo fór, að fyrir kunnáttu Marðar og einnig atbeina Steinólfs á Steinólfsstöðum varð manninum bjargað, en tröllið varð að steini og hermir sagan að enn megi sjá það sitja í hlíðinni skammt utan Seleyrar í Hesteyrarfirði.
Skammt frá bæjarrústunum á Marðareyri er hóll á eyrinni og lítil tjörn þar fyrir ofan. Hóll þessi heitir Marðarhóll og á Mörður að vera heygður þar og fé hans. Þau álög eru á hólnum að ekki má nytja. Hefur hann verið sleginn og hlauzt illt af. Fyrir allmörgum árum var þarna á ferð maður, sem þaulkunnugur var á þessum slóðum, en trúði ekki á álögin. Tíndi hann ber á hólnum og fékk ávítur fyrir hjá konu sinni. Á fyrsta vinnudegi eftir þessa berjaferð sagaði hann í hægri hönd sér; þá, sem tínt hafði berin.

Ofan eyrarinnar rís hlíðin brött með klettabeltum efst. Þannig eru hlíðar Veiðileysufjarðar að mestu, en þó eru undantekningar. Við förum frá Marðareyri og komum að Steinólfsstöðum innar með firðinum. Þar er allmikið hvolf í fjöllin milli Bæjarhorns og Lónhorns. Frá Steinólfsstöðum var farið til Hlöðuvíkur um Hlöðuvíkurskarð, svo sem fyrr er sagt. Sú leið er nokkuð jafnhækkandi hérna megin, en ekki mjög brött fyrr en kemur upp undir skarðið, sem er um 470 m hátt. Öll er leiðin ómerkt.

Önnur leið frá Steinólfsstöðum á Strandir var um Hafnarskarð til Hornvíkur. Var þá farið fyrst inn með sjó og komið að eyri, sem nefnd er Meleyri. Þar var á árunum 1897- 1903 hvalveiðastöð Dansk Hvalfangst og Fiskeri a/s. Stöðin var rifin og flutt á brott er vinnslu var hætt og því eru þar ekki rústir eins og á Hekleyri. Frá Meleyri er gengið áfram inn með firðinum, þar sem klettahlíðar Lónfells ná að sjó, svo þar þarf að sæta sjávarföllum til að komast fyrir. Er inn í fjarðarbotn er komið, er þar nokkurt gróðurlendi umhverfis Veiðileysuá og smákjarr í hlíðum.

Hingað í botn Veiðileysufjarðar fluttu Hornvíkurbændur gjarna matvöru frá Ísafirði á vetrum ef korn eða aðra kaupstaðarvöru þraut heima. Síðan báru menn á herðum sér þunga baggana yfir Hafnarskarð í kafsnjó og ófærð. En komi menn hér að surnarlagi er gangan léttari upp með Veiðileysuá. Gatan er máð neðst og vörður sjást ekki fyrr en kemur nokkuð upp á hjallana. Er ofar dregur skýrist gatan og er greinileg eftir það allt upp í Hafnarskarð og svo áfram niður að Höfn í Hornvík .

Fyrir fjarðarbotni er fjall, sem heitir Tafla, og sunnan við það er Karlsstaðadalur. Þar er til örnefnið Karlsstaðir og þykir benda til búsetu á fyrri tíð, en ólíklegt er þar til bús nú; urð og berir melar. Utan við Karlsstaðadal er brött hlíð og skriðurunnin; Djúpahlíð heitir hún. Við enda hennar að utan, þar sem fjörðurinn beygir allmikið, gengur eyri út í fjörðinn og heitir Langeyri. Frá henni gengur rif langt út í fjörðinn og stendur nokkuð af því upp úr sjó á fjöru.
Utan Langeyrar eru hvilftir í fjallið. Neðan undir einni þeirra, sem heitir Bæjardalur, var bærinn á Steig, þar sem þjóðsagan hermir að Steigur hafi búið (sbr. bardagann í Gjálpardal). Þaðan upp og yfir Kvíafjall var farið að Kvíum, sem er yzt á fjallsmúla þeim er gengur milli Veiðileysufjarðar og Lónafjarðar.* Við siglum út rneð hlíðinni og fyrir Kvíarnúp, sem rís þverbrattur úr sjó, með grænum flesjum hér og hvar. Undir Kvíarnúpi stendur Maður vörð eins og hann hefur lengi gert. Maðurinn var eitt miða Jökulfirðinga.

Er við siglum inn með núpnum sjáum við Kvína, sem öllu gefur nafn hér; hamrakví, lokuð að mestu. Innan hennar er Kvíadalur sem skerst nokkuð inn í fjallið og neðst í honum er bærinn Kvíar. Þar bjó lengi sama ættin og þar þótti góður garður gesti að koma. Reisulegt hús er í Kvíum og vel við haldið, en ekki hefur verið búið þar í hátt á fjórða áratug.

Frostaveturinn mikla, í febrúar 1918 nánar tiltekið, kom maður einn gangandi að Kvíum á ísi frá Höfðaströnd. Það væri kannski ekki í frásögur færandi, ef ekki væri vegna þess, að maðurinn var kominn alla leið frá Ísafirði og ætlaði áfram að Hesteyri. Guðjón Magnússon hét maðurinn og hafði verið fenginn til að flytja póst til og frá Hesteyri í veikindum þess, sem það starf hafði með höndum. Hafði Guðjón lagt af stað frá Ísafirði snemma morguns daginn áður og gengið þá yfir Djúp og að Sandeyri á Snæfjallaströnd og gist þar um nóttina. Að morgni hélt hann síðan út með Snæfjallaströnd og fyrir Bjarnarnúp á ísi að Stað í Grunnavík; þaðan yfir Staðarheiði og svo frá Höfðaströnd að Kvíum eins og fyrr segir. Þar þá hann kaffisopa og hélt síðan af stað aftur í fylgd Tómasar bónda á Höfðaströnd; sem þangað var kominn á leið til Hesteyrar eins og Guðjón. Fóru þeir yfir Kvíafjall að Steig í Veiðileysufirði og þaðan á ísi að Marðareyri og enn á ísi út að Gjálpardal. Þar fóru þeir upp og yfir fjall og komu niður í Svínadal í Hesteyrarfirði. Enn var gengið á ísi út að Hesteyri. Á næstu tveim dögum gekk Guðjón þessa sömu leið til baka utan hvað nú gisti hann á Stað í Grunnavík í stað Sandeyrar. Merkileg má þessi för heita fyrir margra hluta sakir: Fyrst má nefna, að samtals munu þetta hafa verið rúmir 125 km, sem hann gekk á fjórum dögum. Má það þykja vel af sér vikið af fimmtugum manni með póstpoka í bak og fyrir. Þetta er einnig sú einasta póstferð, sem farin hefur verið þessa leið.

Innan við Kvíar er Múli. Við siglum inn í Lónafjörð með brattar hlíðar og lítið undirlendi. Fremur er hann erfiður umferðar, einkum vegna lónanna svonefndu, sem hann er kenndur við. Engin byggð hefur verið í Lónafirði svo lengi aftur sem vitað er. Munnmæli kunna að segja frá tveimur býlum, sem þar eigi að hafa verið. Sökum þess, hve lítil umferð manna var um Lónafjörð og hann óárennilegur umferðar, virðist meiri dulúð hafa hvílt yfir honum en öðrum stöðum. Að sjálfsögðu þekktu þónæstu nágrannar s.s. Kvíabændur vel til þar. En athygli vert er, að þjóðsagnaverur ýmsar eru sagðar eiga heima hér eins og t.d. tröllin, sem rændu veiði í Skorarvatni.

Yzt við fjörðinn ganga eyrar út í hann, hvor sínum megin frá. Rétt innan við Múla er Borðeyri og gengur frá henni rif út í fjörðinn. Rif gengur einnig út frá eyrinni hins vegar fjarðar. Heitir hún Sauðungseyri og er á henni allstór tjörn. Sauðungseyri er sögð hafa heitið Sauðhúseyri áður fyrr og skyldi það dregið af sauðahúsum, sem sr. Halldór á Stað í Grunnavík hafi átt þar og geymt í sauði sína á vetrum. Halldór þessi mun sá sami og glímdi við nautið á Staðartúni. En illa gekk presti að fá menn til gæzlu sauða sinna, því um hver jól hvarf sauðamaður án þess menn vissu orsök þar í. Loks, eftir miklar fortölur prests fékkst Steinþór sá er auknefndur var Dýra-Steinþór, til þess að taka að sér gæzlu sauðanna. Á Þorláksmessu kom gýgur ein mikil, tók tvo sauði feita úr hjörðinni, krækti þeim saman á hornum og slengdi á öxl sér. Tók hún svo á rás inn með firði, en Steinþór elti. Af því hún hafði byrðar tók henni brátt að þyngjast spor og lét hún þá sauðina falla og heitir þar síðan Sleppi. Ekki lét Steinþór sér það nægja, að skessan léti sauðina, heldur elti hann hana áfram og er þau komu að Einbúa hugðist skessa vaða lónin en studdi sig við klettinn. Náði þá Steinþór til að höggva af henni höndina um úlnlið. Er ýmist sagt hún félli þar niður og drukknaði, eða að hún hafi komizt undan og Steinþór ekki treystst til að fylgja henni. Hvort heldur var, þá sást hún ekki eftir þetta og var sauðamönnurn Halldórs prests óhætt þaðan í frá. Sagt hefur verið, að skessa þessi hafi verið síðust trölla hér á landi. En um það er þó ekki öruggur vitnisburður né heldur hitt, sem sumir vilja halda fram, að stólinn þann í Staðarkirkju, sem sr. Halldór gaf og var með mynd hans málaða á hurð, hafi hann gefið í minningu þess, að hann losnaði undan ásókn skessunnar. Um það er önnur saga sögð í Grunnavík eins og fyrr er getið.

Nokkru innar en Sauðungseyri er vik í fjallið og þar niður undan nokkurt láglendi. Þar eru kallaðir Lónbjarnarstaðir og er þar sagður hafa búið sá, sem fyrstur byggði í Lónafirði, Lónbjörn að nafni. Þar eru tóttir og er sumra sögn að þar hafi verið sauðahús sr. Halldórs.
Drjúgum innar með firðinum er vík og dalverpi upp af, sem hvort tveggja er nefnt Sópandi. Innan við Sópanda er mikið fjall, hömrum girt. Þetta er Einbúi, sem að mestu lokar leiðinni inn með firðinum, en upp úr Sópanda má komast til austurs til Barðsvíkur um svonefnd Þrengsli. Leiðin er ekki vel merkt og Þrengslin sjálf vandfundin, en þeim háttar þannig til, að Sópandi og dalurinn inn af Barðsvík ganga á víxl inn í fjallið og þvert milli dalbotnanna gengur gil eða sprunga og er þar farið í gegn. Leið, sem ókunnugum reynist erfitt að finna í björtu, hvað þá ef dimmt er í veðri.

Ekki ýkja fjarri skarðinu, Barðsvíkurmegin, er lítið vatn, Þrengslavatn. Þar á náttúrusteinamóðirin að búa og um hverja Jónsmessunótt kemur hún upp úr vatninu og hristir af sér hina göfgu steina: gimsteina, huliðshjálmssteina, óskasteina o.fl. Engan mann er vitað um, sem gagn hafi haft þessa, en tveir eru sagðir hafa reynt að ná þessum steinum. Ekki veit nokkur maður hvað fyrir þá kom, því báðir urðu vitskertir.

Fjallið Einbúi, sem frá fjarðarmynninu sýnist vera fyrir miðjum fjarðarbotni, er í rauninni austanvert við hann. Þetta rúmlega 460 m háa fjall er eitt þeirra sýnilegu ummerkja eldgoss, sem finnast hér í innanverðum Jökulfjörðum. Undir hlíðum Einbúa eru svokölluð Lón, (og reyndar á fleiri stöðum einnig) sem eru þó ekki lón í venjulegustu merkingu þess orðs, heldur háttar svo til, að djúpar holur eru í sjávarbotninn fast við fjallshlíðina. Ekki er því fært gangandi manni þeim megin við þau, en utan við má komast á fjöru, með aðgæzlu þó. Margar sögur hafa spunnizt um lón þessi, og áttu þau að vera botnlaus og alls kyns ókindur að vera þar.
Fyrir innan Einbúa eru tveir dalir og gengur annar til austurs og heitir Miðkjós. Þar um lá leiðin af Snókarheiði frá Bjarnanesi. Hinn dalurinn gengur í norðvestur, heitir Rangali og er úr honum fært um Rangalaskarð til Hornvíkur. Hvorug þessara leiða er merkt, en báðar öllum færar í björtu. Í dimmu skyldi enginn ókunnugur leggja á þær án leiðsögu kunnugs.

Á móts við Einbúa er vestan fjarðar eyri ein, sem Snoðseyri heitir og nokkru utar er Gautastaðahlíð, svo heitin eftir hinum bænum, sem sögur herma að hafi verið í Lónafirði. Í Gautastaðahlíð má sjá ein elztu merki skógar á Íslandi. Eru það holur eftir trjáboli, sem lokuðust inni í hraunkvikunni, þegar hún rann yfir skóginn, sem óx þarna fyrir meira en 14 milljón árum. Kvikan hefur storknað allhratt upp við bolina, sem brunnu ekki, vegna þess að lítið sem ekkert súrefni komst að þeim. Þeir hafa síðan kolast og eyðst.

Við förum út úr Lónafirði og stefnum út Jökulfjörðu. Á leiðinni siglum við út með Staðarhlíð og sjáum Staðareyrar. Hljótt er þar nú og einungis rústir þar sem áður var iðandi mannlíf í verinu. Skammt utan Staðareyra er Pantagil, nefnt eftir Pantaleon Ólafssyni presti á Stað í Grunnavík. Sagt er að hann hafi farið um gilið bæði upp og niður er hann vildi stytta sér leið frá prestssetrinu í verið. En gilið er í raun engum fært nema fuglinum fljúgandi. Pantagil hverfur okkur fljótlega og brátt erum við komin inn á Ísafjarðardjúp. Jökulfirðir og Hornstrandir hverfa í blámóðu fjarskans rétt eins og saga fólksins sem þar bjó. Ferðinni er lokið og ég þakka samfylgdina.

Myndasafn

Í grennd

Göngubók Snorra Grímssonar Inngangur
HORNSTRANDIR - JÖKULFIRÐIR GÖNGULEIÐIR UM HORNSTRANDIR OG JÖKULFIRÐI Kuldaleg nöfn setja gjarnan hroll að manni. Hefur líka löngum legið það orð á…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )