Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 1. dagur

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR
1. Dagur:
Frá Grunnavík að Dynjanda í Leirufirði 16 km um Staðarheiði (153 m)

Við hefjum för frá Ísafirði snemma morguns. Þegar báturinn er kominn á móts við Arnarnes blasir Riturinn við okkur í norðri, yzti vörður Djúpsins. Inn af Rit er Grænahlíð, snarbrött klettahlíð, sem oft hefur veitt sjómönnum skjól fyrir vetrarveðrum. Kvað svo mikið að því að skip sæktu þangað í var, að gárungarnir kölluðu þar Hótel Grænuhlíð.

Í Grænuhlíð sést vel hvernig tertíera blágrýtismyndunin er gerð, en hún er að mestu úr fornum hraunlögum, einkum blágrýti. Blágrýtislögin eru regluleg og má oft rekja þau um langan veg og virðist sem hraunin hafi runnið yfir frekar slétt land. Flest gosin hafa komið upp í gossprungum og eru aðfærsluæðar hraunlaganna þekktar sem gangar, er skerast í gegnum hraunlagastaflann. Stefna þeirra er oftast NA-SV eða NNV-SSA . Á milli hraunlaganna í lagskiptum berggrunninum eru víða misþykk millilög úr seti. Víða er gosmöl í þessum lögum, en rauðleit og sendin leirsteinslög virðast algengust. Surtarbrandur er á nokkrum stöðum í millilögum í Grænuhlíð. Aldur þessara jarðlaga er líklega l4-15 milljón ár.

Ekki lítur hlíðin búsældarlega út, en þó eru til sagnir um að fólk hafi búið þar. Úríðarvellir eru nefndir þar á einum stað og þar er sagt fólgið fé þeirra, sem þarna eiga að hafa búið, Úríðar nokkurrar og Björgvins. Heldur voru þau þróttmeiri en annað fólk, en mennsk þó.

Innan við Grænuhlíð opnast Jökulfirðir okkur norðan Vébjarnarnúps er við komum lengra út á Djúpið. Við sjáum þá opnast einn af öðrum, aðkreppta milli hárra múla, fyrst Hesteyrarfjörð, þá Veiðileysufjörð og síðast Lónafjörð. Lengra inn sjáum við ekki, því við höldum okkur nærri Bjarnarnúpnum, sem svo er gjarnan nefndur, eða bara Núpurinn, en heitir réttu nafni Vébjarnarnúpur eins og fyrr er nefnt. Um tilurð þess nafns er til þjóðsaga þannig, að dóttir ríks bónda í Álftafirði og leysingi hans felldu saman hugi, en voru meinaðar ástir svo sem vænta mátti. Þau struku en voru elt og náðu eftirleitarmennirnir meynni við svonefndan Brúðarhamar innarlega á Súðavíkurhlíð, en Vébjörn komst áfram og varpaði sér til sunds af eyri þeirri nálægt Arnarnesi, sem síðan er kölluð Vébjarnareyri. Menn bónda hrundu þá fram báti og eltu hann þvert yfir Djúpið og vógu hann á sundi er hann var rétt að ná Núpnum. Aðrir vilja meina að hann hafi komist í land og verið veginn þar. En hvort sem var, þá mun núpurinn síðan við Vébjörn kenndur.

Er við komum innar með Núpnum sjáum við beint fram undan okkur fallegt, pýramídalagað fjall, Maríuhorn, og á hlíðinni innan við það að norðanverðu, sem heitir Staðarhlíð, má greina klett allstóran, sem stendur út í sjó. Í gegnum klett þennan eru tvö göt og er hið efra þeirra fært gangandi á fjöru, en hið ytra má róa í gegnum á allstórum báti að sumra sögn. Þarna heitir Ófæra. Á milli Maríuhornsins og Bjarnarnúps kúrir Grunnavík.

Í Grunnavík var mikil byggð forðum tíð, en nú er hún með öllu aflögð. Þar er ferjubryggja, hin eina, sem til er í Grunnavíkur- og Sléttuhreppum. Hún er nú rétt að hruni komin og lifir að líkindum sína síðustu daga nema Grunnvíkingum takist að afla fjár til að lagfæra hana. Við lendum við bryggjuna, stiklum með föggur okkar yfir götin í bryggjugólfinu og förum með þær að litlum kofa, sem stendur uppi á bakkanum ofan við bryggjuna. Þarna staðnæmumst við og lítum á umhverfið.
Yzt á vinstri hönd, vestan við víkina, sjáum við út undir Vébjarnarnúp, en inn af honum er Snæfjallaheiði, frá okkur að sjá sem klettalaus brekka, ekki mjög brött og gróin upp undir ávala brúnina. Í brekkunni má gjörla sjá götu, sem liggur skáhallt upp frá Kumlá, en svo heitir lítil á eða lækur, sem rennur úr Kumlárdal, dalverpi í Geirsfjalli, sunnanvert við Grunnavík. Þarna er kominn vegurinn yfir Snæfjallaheiði vestur í Djúp, fögur leið í bjartviðri að sumarlagi, en að sama skapi viðsjál á vetur. Frá því segir í Söguþáttum landpóstanna er Sumarliði Brandsson póstur var á póstferð með hest sinn að áliðnum vetrardegi árið 1920 við annan mann. Dimmdi á þá af hríð og nótt og þeir villtust. Gengu Sumarliði og klárinn fram á snjóhengju, sem hrundi með þá, en samferðamaðurinn, Jón Kristjánsson að nafni, komst við illan leik til bæja á Snæfjallaströnd. Daginn eftir lögðu menn upp til leitar og fundu lík Sumarliða og klárinn utan Súrnadals og er sagt að einn hafi hrópað til þeirra, sem eftir fylgdu, að þeir væru fundnir. Skipti þá engum togum, að ný hengja féll og urðu 4 fyrir og tók þá út á sjó. Bjargaðist einn þeirra, en fjóra hafði Núpurinn tekið í toll.

Neðan undir Snæfjallaheiði, á láglendi, sem þar er, eru Nes og Naust, yztu býlin við víkina. Bæirnir sitja á rúmlega l0000 ára gömlum marbakka frá lokum síðasta jökulskeiðs og gengur bakkinn eins og hjalli kringum víkina. Býlin eru fallin í eyði eins og öll byggð hér, en nokkru fyrir aldamót bjó í Nesi Jakob Tómasson, sem minnzt er á í Hornstrendingabók og sagt m.a. frá því er hann, nokkuð við skál, barðist við drauga að kvöldi sem svo að morgni reyndust vera tvö móhrip, sem hann hafði mölbrotið í viðureigninni.

Nokkru innar en Nes eru rústir kots sem kann að hafa heitið Kumlá, en virðist oftar hafa verið nefnt Á bökkunum. Í þessu koti bjó m.a. sá maður, sem einn bjargaðist er sr. Pétur Maack fórst á Grunnavík skömmu fyrir síðustu aldamót ásamt áhöfn sinni á leið í kaupstað. Tveir bæir aðrir eru utan Staðarár, Sútarabúðir og Oddsflöt. Á Sútarabúðum var tvíbýlt og standa þeir bæir nær sjó, en Oddsflöt nokkru ofar. Fyrrum voru nefndir Kerlingarstaðir í Grunnavík og virðist það nafn hafa átt við þessa bæi báða.

Hérna megin árinnar er stórt steinhús sem byggt var upp úr aldamótum af sr. Kjartani Kjartanssyni, sem síðar var á Staðarstað. Hann hefur verið sagður vera fyrirmynd Halldórs Laxness að Jóni Prímusi, hvað svo sem hæft er í því. En heldur virtist honum falla það betur að búa nærri sjónum og sækja hann, en stunda landbúnað innar í dalnum á Stað, sem er rúman kílómetra frá sjó. Þegar sr. Kjartan fluttist brott þóttist verzlun á Ísafirði eiga skuldakröfur á hendur honum en fékk ekki greiddar. Var það þá tekið til ráðs að rífa allt það, sem losa mátti innan úr húsinu og selja upp í skuldina, en tóm skelin stóð eftir. Var svo um allmörg ár, en síðar var a.m.k. hluti hússins lagfærður og var ein stofa þar notuð til barnakennslu. Auk steinhússins, sem heitir Sætún, eru tveir sumarbústaðir sem risið hafa á nýliðnum árum.

Við setjum baggana á bakið og töltum af stað hjá þessum bústöðum áleiðis inn með hlíð að Stað. Hér er góður vegur að ganga, reyndar bílvegur meðan byggt var, en nú er hann farinn að láta á sjá. Hann liggur um mela og móabörð nokkuð fyrir ofan Staðará. Eftir á að gizka 15 mínútna gang komum við að kirkjustaðnum og prestssetrinu Stað í Grunnavík. Þar standa reisulegt íbúðarhús og falleg kirkja á lágri hæð, þar sem öll víkin blasir vel við sjónum, en útihús áföst húsinu eru öll fallin og brennd svo lýti eru að. Fyrir ofan Stað er Staðarhlíð, nokkuð gróin hið neðra en skriðurunnin og blásin ofar, klettalítil. Yzti hluti hlíðarinnar, þar sem hún endar í hvössum múla, heitir Maríuhorn og er áður á það minnzt. Hornið er kennt við Maríu Guðsmóður og þar uppi er einnig kallað Maríualtari. Ekki er víst að það hafi nokkru sinni verið vígt, enda fremur talið mega rekja altarið til heiðni og að þar hafi verið blótað, en nafninu breytt með breyttri trú. Staðarkirkja var helguð Maríu í kaþólskum sið og ekki mun hafa verið laust við að menn héldu áfram að heita á Guðsmóður eftir siðaskipti. Mun biskup hafa áminnt prest fyrir að láta slíkt viðgangast.

Margir þekktir menn hafa haldið Stað og var brauðið eftirsótt. Munu þar hafa átt mestan þátt í þau hlunnindi og ítök, sem Staður átti á ýmsum stöðum. Meðal presta, sem setið hafa Stað, er sr. Jón Þorláksson skáld, sem síðar var á Bægisá og kenndi sig við þann stað. Annar var sr. Pétur Maack, sem áður er getið, en hann var faðir Maríu Maack. Síðasti prestur Grunnvíkinga var sr. Jónmundur Halldórsson, sat brauðið í áratugi og var einnig hreppsnefndarmaður og kennari. Um hann urðu til ýmsar sögur og varð sú kunn um allt land, hve mikið hann tók í nefið og hversu stórt það var. Vildu ýmsir breyta nafni Maríuhornsins og kalla það Prestsnef, en Grunnvíkingar virtu bæði prestinn sinn og fjallið það mikils, að til slíks kom ekki. Sr. Jónmundur var einnig póstafgreiðslumaður og það var frá honum, sem Sumarliði póstur lagði upp í feigðarför sína 17. desember 1920. Vildi margur kenna presti það, hve seinn pósturinn varð fyrir. Sögðu þeir hinir sömu honum hafa hefnzt fyrir, því þegar prestur kom heim frá minningarathöfn um þá, sem fórust, þá kom hann að brunnum bæ. Rétt mun þó vera, að sr. Jónmundur taldi Sumarliða af að halda á fyrr en næsta dag, en án árangurs. Margir studdu prest og fjölskyldu hans og með þeirra aðstoð var reist það hús, sem enn stendur á Stað.

Til gamans má einnig geta þess, að afi Vigdísar Finnbogadóttur forseta, sr. Þorvaldur Jakobsson, sem síðar var í Sauðlauksdal, sat Stað um skamma hríð. Síður þokkasæll en áðurnefndir prestar var sr. Pantaleon Ólafsson, títt kallaður Panti af alþýðu. Hann sat Stað á 16. öld og þótti fjölkunnugur.

Einn presta á Stað, Halldór að nafni, komst að því að túnin voru bitin að nóttu og vakti til að sjá hverju það sætti. Sá hann þá hvar flokkur sægrárra kúa kom frá sjó og fyrir þeim griðungur mikill. Prestur réðst til atlögu við griðunginn, en skorti afl móti honum. Hét hann því að gefa Staðarkirkju dýrgrip ef sér tækist að vinna bola. Það tókst og fyrir andvirði mörsins, sem af skepnunni fékkst var fenginn prédikunarstóll sá, sem enn er í Staðarkirkju og á eru myndir af guðspjallamönnunum og sr. Halldóri.

Frá Stað blasir við okkur Geirsfjall í suðri, rúmlega 500 m hátt, hömrum girt efst, en undir hlíðum þess var bærinn á Faxastöðum á bökkum Staðarár nokkru innar í dalnum en Staður. Innan við Geirsfjall er Staðardalur, en handan hans er tilkomumikið fjall og frítt, sem frá okkur séð ber yfir Faxastaði. Þetta fjall heitir Seljafjall og uppi á því er haugur einn, nefndur Hildarhaugur. Þar er sögð vera grafin fornkona og einnig kista hennar með miklu fé. Hermt er að einhverju sinni hafi verið grafið í hauginn og fundizt þar kista ein mikil með eirhring í loki. Brugðu menn reipi í hringinn og drógu upp. Er kistan var nær því komin upp á bakkann varð einum að orði: „Upp skal nú, ef guð vill.“ Annar var forhertari og sagði: „Upp skal hún, hvort sem guð vill eða ekki.“ Er þá sagt að kistan hafi fallið niður aftur, en hringurinn varð eftir og er nú í kirkjuhurðinni á Stað.

Haugurinn er raunar stuðlaður gígtappi úr basalti, sem hefur myndast á tertíer í eldstöð sunnan Jökulfjarða. Þótt flest gosin á tertíer hafi komið upp í gossprungum, hafa önnur orðið í dyngjum og eldkeilum. Gosin komu þá upp á frekar afmörkuðum svæðum og eldfjöll hlóðust upp.
Milli Seljafjalls og Staðarhlíðar gengur Staðarheiði til austurs og liggur vegurinn þar inn á Sveit, sem svo er nefnd. Tvær leiðir voru farnar um Staðarheiði: Kollsárheiði, sem var norðar í rótum Staðarhlíðar, yfir að Kollsá, var meira notuð sem vetrarvegur, því hún er snjóléttari; Höfðastrandarheiði er sú leiðin, sem við förum nú. Þar var lagður bílvegur um móa og mýradrög upp atlíðandi brekkur. Heiðin er ekki há, um 150 m, en löng á vestfirzka vísu 4-5 km. Á heiðinni eru nokkrar tjarnir og vötn og er Skeiðisvatn þeirra stærst. Þar er sagður vera nykur á ferðum og sjái menn hest á ferð um þessar slóðir er þeim ráðlegt að athuga hvort hófarnir snúi rétt.
Þegar komið er nokkuð austur yfir miðja heiði liggur leiðin yfir giljadrög. Það er Kollsá, sem er ekki ýkja mikil þarna, en allnokkur gljúfur hefur hún grafið eilitlu neðar. Í Kollsárgili er sagður vera heygður Kollur sá, er nam Kollsá, en kona hans var Hildur sú, sem er í Hildarhaugi. Var sagt að eins hefði verið með þeim í lifanda lífi; hún setti sig skör hærra en hann.

Til hægri handar okkur er Seljafjall og sem við göngum austur heiðina koma Hrafnabjörg í ljós og á milli eru tveir dalir umluktir háum hömrum fjallanna beggja. Mikið er um bergstanda og innskot af ýmsum gerðum í fjöllunum frá Grunnavík og inn til Höfðastrandar og t.d eru Hrafnabjörg forn bergstandur. Í öðrum þessara dala, Miðdal, er tjörn, sem sú sögn er um, að ungur maður hafi drukknað þar niður um ís og hafi unnustu hans fallið það svo illa, að hún lagði svo á að þar skyldi ekki framar sólin skína. Segir sagan að það þyki hafa orðið áhrínsorð, því aðeins um hæsta sólargang skíni sólin á hluta vatnsins.

Nú erum við komin á austurbrún Staðarheiðar, fram á hjalla, sem liggur ofan bæja milli Kollsár og Höfðastrandar. Hjallinn heitir Tíðagötuhjalli og gatan sem liggur áfram skáhallt inn og niður hjallann að bænum á Höfðaströnd, heitir Tíðagötur. Mun það vísa til þess, að menn fóru þar um til helgra tíða að Stað.

Við staðnæmumst þarna á brúninni og virðum fyrir okkur þann hluta Jökulfjarða, sem við sáum ekki er við renndum inn á Grunnavík. Fyrir fótum okkar liggur Sveitin, strandlengjan milli Staðarhlíðar og Höfða. Fjær sér á Drangajökul upp af Leirufirði. Í austri er Hrafnfjörður og fyrir botni hans grillir í Skorina, þar sem leið liggur um Skorarheiði á Austur-Strandir. Norðan Hrafnfjarðar er Lónanúpur, brattur klettamúli, tilsýndar eins og skip hvolfi, sem snýr að okkur stefninu. Hins vegar Lónanúps er Lónafjörður, þar sem fjallið Einbúi er fyrir miðjum fjarðarbotni héðan að sjá, tigulegt og fallegt fjall. Í vesturhlíðum Einbúa má sjá snið af gígfyllingu, sem skerst í gegnum lagskipt bergið, en fjallið hefur myndast í tengslum við stóra tertíera eldstöð innst í Jökulfjörðum. Miðja hennar hefur líklega verið í botni Hrafnfjarðar, en þar eru stórir líparítflákar. Eitt af aðaleinkennum slíkra eldstöðva er breytileiki í bergsamsetningu, svo að þar finnst ekki eingöngu basalt heldur og andesít, líparít og flikruberg, en það síðastnefnda er myndað úr líparítgosmöl. Aldur eldstöðvarinnar í Hrafnfirði er !íklega 11-13 milljón ár (Kristinn J. Albertsson l978). Rétt við fjarðarmynnið að norðan eru Kvíar, afskekktur bær yzt úti á hálendu nesi, sem torfært er með sjó fram og verður því að fara langan fjallveg eða sjóleið ef bregða á sér af bæ. Utan Kvía er Kvíanúpur og Lás enn utar, en milli þeirra sér í mynni Veiðileysufjarðar.

Leið okkar liggur nú heim að bæ á Höfðaströnd. Þar eru uppistandandi tvö hús, bæði í þokkalegu lagi, notuð nú sem sumarbústaðir. Þriðji bærinn var þarna, nefndur Steinshólar, en af honum sjást nú aðeins tóttir þær, sem maður kemur fyrst að er gengið er eftir veginum. Frá Höfðaströnd er greiður vegur út með fjöru að Kollsá. Er þá gengið fram hjá Barnaskeri, sem er rétt innan við túnhornið á Kollsá. Þangað er sagt að örn hafi flogið út með barn í klónum. Honum var veitt eftirför og barninu náð. Þá er haft eftir barninu: „Rífðu ekki skinnpeysuna mína, assa.“
Frá Kollsá má líka halda áfram út fjöruna að Staðareyrum og rifja upp sögur úr verbúðunum þar. Leiðin er grýtt og erfið svo við sleppum þeim krók. Það var oft glatt á hjalla á Staðareyrum er útvegurinn var sem mestur þaðan um síðustu aldamót. Mikið kapp var í mönnum við beitingu og róðra og sér þess enn merki í búðatóttum og skeljahaugum. Reimt þótti þar í mörgum verbúðanna og er saga af því, er Pétur Jóhannsson úr Látravík varð þar eftir einn, er félagar hans fóru heim um helgi að haustlagi. Ekki varð næturfriðurinn mikill og endaði svo, að Pétur mátti gefast upp fyrir því, sem hann taldi hjátrú og hindurvitni og fara inn að Kollsá klæðafár og skólaus á öðrum fæti.

Sem fyrr segir tökum við ekki á okkur þennan krók núna, heldur þrömmum áfram eftir veginum, sem liggur fyrst um lága sjávarbakka, en síðan ofar um sléttar grundir og mela. Nokkuð miðja vegu milli bæjanna Höfðastrandar og Höfða komum við að Deildará, sem skiptir löndum. Hún lætur ekki mikið yfir sér áin sú, en reynist þó býsna ágeng við stígvélin okkar þegar við vöðum hana. Fljótlega erum við komin að bænum Höfða, sem er steinhús frá því um aldamót. Í túninu ofan bæjar er lítið útihús úr torfi, hrunið að hluta og standa þar raftarnir út í loftið. Í þessu húsi má sjá minjar landbúnaðar hér, sláttuvél, sem dregin hefur verið af hesti og er hún merkilega heilleg að sjá, lítið ryðguð og málningin á henni að mestu enn.

Bærinn ber nafn sitt af höfða þeim, sem er vestanvert við mynni Leirufjarðar. Milli bæjar og höfða rennur á, sem nefnd er Fossá þar sem hún kemur úr hlíðinni, en Urriðalækur neðar og mun hafa verið þar oft góð veiði. En ekki ýkja langt frá sjó eru í Urriðalæknum strengur og hyljir og nefnast þar Sorgarlækur og Sorgarhylur. Svo ber til með nöfn þessi, að einhverju sinni á ofanverðri liðinni öld drukknaði þar barn, en móðir þess var þar á stekk rétt hjá.

Ofanvert við Höfðann eru flóasund og tjarnir, en síðan taka við móabörð og melar og þar lá gamla gatan inn að Dynjanda nokkurn veginn í beinni línu milli bæjanna. Bílvegurinn, sem við fylgjum, var hins vegar lagður sjávarmegin í Höfðanum, fyrst á nokkuð háum mel, en síðan á lágum bökkum er innar dregur. Upp af er smá klettabelti. Við göngum inn með fjörunni og komum að húsi, sem þar stendur á eyri innan við Höfðann. Þetta er Flæðareyri, eins og stendur reyndar stórum stöfum á norðurgafli hússins, samkomuhús Grunnvíkinga, skemmtilegt hús og vel við haldið. Nú notar Grunnvíkingafélagið það sem sumarbústað og samkomustað þegar heimamenn mæla sér mót á nokkurra ára fresti.

Vegurinn liggur áfram hjá Flæðareyri inn malarkambinn þar innan við og allt inn að Dynjandisá. Á leiðinni förum við um hlaðið á Dynjanda, fornfrægum bæ, þar sem bjuggu þekktir bændur og sveitarhöfðingjar stórbýli allt til þess er byggðin lagðist af 1952. Þeir, sem munu hvað þekktastir, eru feðgarnir Ebenezer Jónsson og Vagn Ebenezersson, sem bjuggu á Dynjanda í þrjá aldarfjórðunga á öldinni sem leið. Báðir þóttu þeir göldróttir og fóru af þeim ýmsar sögur.
Ein sagan af Vagni segir að hann hafi fengið sendingu úr Arnarfirði frá stúlku þar, sem taldi hann hafa svikið sig í ástum. Vakti hún upp nýdauða kerlingu og magnaði gegn Vagni. Snemma morguns kom kerling að Dynjanda og barði óþyrmilega dyra. Vagn gekk út og gat fyrirkomið draugnum með særingum í dýi einu þar skammt frá bæ. Náði kerling ekki að vinna honum tjón, utan það sem hún hafði gert áður en hún barði. Þá hafði hún komið við í hesthúsinu og drepið þrjú hross. Svipuð saga var sögð af Ebenezer, nema hvað sú sending kom frá kerlingu, sem þóttist þurfa hefna samskipta þeirra frá því er bæði bjuggu í Aðalvík. Af Ebenezer er kominn stór ættbogi og munu flestir þeir er hér bjuggu síðast hafa getað rakið ættir sínar til hans, sem og ýmsir fleiri á Ströndum og í Jökulfjörðum.

Við sláum upp tjöldum í túnfætinum á Dynjanda, rétt við bæjarlækinn. Skammt frá okkur er sumarbústaður niðri við sjóinn og er hann einn bygginga á þessu forna frægðarsetri í dag.
Frá náttstað okkar á Dynjanda sjáum við vel fram að Drangajökli, sem ber fallega við dökkbláan himininn þegar líður að lágnætti. En hinum megin við Leirufjörðinn, skolgráan af jökulleir, er Kjósarnes og svo til beint á móti okkur er Breiðanes, lágt nes út úr Kjósarnesinu. Þangað komu margir ferðamenn austan að, hóuðu yfir að Dynjanda og fengu sig flutta yfir fjörðinn. Ef við snúum okkur til fjalls, þá sjáum við dal ganga til suðurs innan við Dynjanda. Það er Dynjandisdalur og var þar alfaraleið um svokallaða Dalsheiði að Unaðsdal á Snæfjallaströnd, 574 m þar sem hæst er, löng og fremur leiðinleg yfirferðar sökum grjótapals. Dalsheiði er vörðuð, en þægilegast mundi að fylgja símalínunni.

Göngubók Snorra Grímssonar

Myndasafn

Í grennd

Göngubók Snorra Grímssonar Inngangur
HORNSTRANDIR - JÖKULFIRÐIR GÖNGULEIÐIR UM HORNSTRANDIR OG JÖKULFIRÐI Kuldaleg nöfn setja gjarnan hroll að manni. Hefur líka löngum legið það orð á…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )