Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR 13. dagur

GÖNGUBÓK SNORRA GRÍMSSONAR

13. dagur:
Frá Sæbóli til Hesteyrar 14 km um Sléttuheiði (272 m) og Ytri-Hesteyrarbrúnir (190 m)

Næsta dag förum við frá Sæbóli áleiðis til Hesteyrar og fyrst liggur leið okkar yfir Sæbólsgrundir og Staðará. Þá beygir gatan og liggur hjá bæ í Þverdal. Þar er reisulegt hús og vel við haldið og sést þaðan vel yfir víkina. Frá Þverdal er vegur upp melholt undir hlíðum Nasans að kirkjustaðnum og prestssetrinu Stað í Aðalvík.

Prestssetrið er stórt og mikið timburhús, sem stendur á hæð nokkuð í miðju túni ofan Staðarvatns. Það er í þokkalegu standi en nokkuð tekið að skekkjast á grunni. Kirkjan stendur neðar í túninu, á lægri hæð. Hún er ekki ýkja stór, en fallegt guðshús byggð um síðustu aldamót eftir að miklar deilur höfðu nær orðið til þess, að hluti safnaðarins segði sig úr þjóðkirkjunni. Árið 1895 reit Sigurður Pálsson faktor á Hesteyri bænaskrá um að fá kirkjuna flutta frá Stað til Hesteyrar og fékk hann meirihluta manna til að skrifa upp á það með því fororði þó, að gamla Staðarkirkja fengi að standa og þar yrði áfram grafreitur. Deildu menn hart, unz prófastur lagði til að byggðar yrðu tvær kirkjur, hvað samþykkt var. En þá tóku menri að gera sér grein fyrir fjárhagnum og sáu að tekjur sóknarinnar hrykkju skammt til þessa og lögðust ýmsir málsmetandi menn í Aðalvík gegn málinu og sögðust ella segja sig úr þjóðkirkjunni og leggja fé það, sem þeim væri ætlað að gjalda kirkjunni, til byggingar barnaskóla. Leystust þó þessi mál án stórvandræða og var sókninni skipt og tvær kirkjur reistar. Nú er Staðarkirkja nokkuð farin að skemmast af raka og þyrfti viðhalds með og því hafa Átthagafélögin hug á að sinna, svo sem fé leyfir, en bæði húsin á Stað eru í umsjá þeirra.

Af prestum þeim, sem setið hafa Stað í Aðalvík, er vafalaust langþekktastur sr. Snorri Björnsson, sem síðar var á Húsafelli. Af Snorra eru margar sögur og þá einkum af kunnáttu hans. Ekki voru Hornstrendingar mjög þægir presti fyrst er hann kom til Staðar, en er í ljós kom að hann átti í fullu tré við þá, létu þeir að mestu af galdraglettingum við hann. Ein er saga af því, er Snorri var búinn að vinna vináttu hins mesta galdramanns Hornstrendinga, Halls á Horni, að hann var þar staddur er flæmskir stálu þrem sauðum frá Halli. Ekki undi Hallur því vel. Leikinn var hann með slöngvu og höfðu þeir synir hans og prestur nokkuð æft það líka. Og sem ræningjarnir voru á leið til skips, slöngvuðu hinir að þeim grjóti, bönuðu fyrirliðanum og sökktu bátnum.

Sr. Snorri kvæntist dóttur fyrirrennara síns, sr. Jóns Einarssonar. Hét hún Hildur og var sagt að hann hefði tekið hana af móður hennar upp í skuld 10 vetra gamla og alið upp til 16 ára aldurs og þá kvænzt henni. Sr. Jón þessi var annar tveggja Staðarklerka, sem vitað er að hafi verið Hornstrendingar að ætt og uppeldi. Hinn var faðir hans, Einar Arnórsson, sem var Staðarprestur næstur á undan honum, sagður rnerkisklerkur. Hann mun m.a. hafa þýtt bók úr hollenzku, sem hann nefndi Sjónarspilli. Við af sr. Snorra tók annar göldróttur klerkur, Vigfús Benediktsson, sem gjarna var nefndur Galdra-Fúsi. Sr. Vigfús þessi var síðar prestur á Kálfafellsstað og muna kannski einhverjir eftir því er Þórbergur Þórðarson sagði frá forföður sínum, honum sr. Vikkúsi. Hann var skikkaður í brauðið og undi þar illa, en varð að sitja í 18 ár áður hann fengi annað. Heldur þokkaðist hann Hornstrendingum miður og voru þeir óþjálir í viðskiptum sínum við hann. Kona sr. Vigfúsar hét Málmfríður og þótti mönnum hún honum sízt betri og enda var það svo er þau kvöddu söfnuðinn, að þau vildu sökkva kirkjunni og höfðu boðað til messu. Kom margt til kirkju en klerkur ekki. Tók kirkjan að hallast og lék á reiðiskjálfi og leituðu menn þá útgöngu. Ekki gengu dyrnar upp fyrr en tveir menn, sem þau hjón höfðu átt í ýfingum við, renndu sér á hurðina og féll hún þá út með dyraumbúnaði öllum. Þau hjón runnu til fjalls, en ekki nenntu þeir elta.

Sögum fer ekki mikið af öðrum prestum Staðar, en þó má minnast sr. Guðmundar Sigurðssonar, sem fórst árið 1811 ásamt 10 öðrum í kaupstaðarferð til Ísafjarðar. Hafði hann setið Stað í 32 ár. Sr. Jón Eyjólfsson er annar kunnur Staðarklerkur, en hann ritaði lýsingu Staðarsóknar 1847. Sagt er að hann hafi bætt mjög alþýðumenntun í sókninni þau 24 ár, sem hann þjónaði þar og hafi enginn verið óskrifandi er hann fór þaðan.

En sá prestur, sem lifandi menn úr Staðarsókn í lok 20. aldar muna bezt, er sr. Magnús Jónsson, sem var prestur þeirra frá 1904 til 1938, síðast með búsetu á Ísafirði. Af honum hef ég heyrt margar sögur móður minnar og annarra. Hann var hið mesta ljúfmenni og orðheppinn, en stundum svo undan sveið. Eitt sinn sagði góður kunningi hans við hann, að lítið mark væri á prestum takandi; þeir lygju svo miklu. „Ja, það er nú svona, góði,“ sagði séra Magnús. „Stundum getur lygin verið nauðsynleg..“ Þetta þótti honum sanna sitt mál. En þá bætti prestur við: „Hugsaðu þér nú, að það ætti fyrir mér að liggja að jarðsyngja þig. Heldurðu það yrði þokkalegt, ef ég segði sannleikann?“

Fyrir ofan Stað er hvilft ein mikil í fjallinu og heitir Hvirfilsdalur. Þaðan rennur á í Staðarvatn nokkuð innan Staðar. Þetta er Indriðaá sú hin fræga, sem Hlöðuvíkurdraugurinn komst aldrei yfir. Fyrir allmörgum áratugum var grafinn frá henni skurður og hlaðinn garður og vatn leitt heim undir Stað og nýtt sem bæjarlækur þar.

Innan við Stað týnum við götunni um tíma í gróðurflækjunni og öslum mýrarnar í stefnu á Fannadal. Þar má greina uppi á brún tvær vörður, sem standa þétt og ber við himin, og neðan brúnar eru ljósgrænar mosaþembur og stór skafl í brattri brekku. Við nálgumst brekkuna og finnum þá götuna aftur. Hún sneiðir brattann og hverfur undir skaflinn, en sést aftur ofan hans og brátt stöndum við á brúninni. Að baki er Aðalvík; við sjáum Sæból kúra úti undir fjalli, skólann á Grundunum og Staðarvatnið lognkyrrt í morgunblíðunni. Ekki er neinn nenni þar að sjá núna né heldur sjáum við til hans við Teistavatn, lengra út á fjallinu til suðurs við okkur.

Við sjáum líka vítt yfir Jökulfjörðu og nokkuð inn á fsafjarðardjúp. En það er í svo miklum fjarska að við stöldrum ekki við það, heldur göngum rösklega eftir góðum vegi, sem við erum nú komin á. Hann er uppbyggður á köflum, ræstur og jafn undir fæti. Þannig er vegurinn að Sléttuá. Á hægri hönd sjáum við Sléttu, en við göngum þar langt ofangarðs, því þangað er okkur krókur að fara ofan, þótt ekki sé hann erfiður. Á Sléttu var lengi búið stórbúi og þar var um langa hríð þingstaður hreppsins svo sem sjá má af nafni hans. Þar bjó fyrir rúmum tvö hundruð árum Þorkell Þorkelsson, sterkur maður mjög og mikill fyrir sér. Hafa ýmsar sagnir af honum geymzt, s.s. um viðureign þeirra Guðmundar frækna í Þverdal við maddömu Málmfríði á Stað.

Um miðbik 19. aldar bjó á Sléttu Hermann Sigurðsson, vel efnum búinn höfðingi, en síðar bjó þar tengdasonur hans, Brynjólfur Þorsteinsson. Frá árinu 1887 bjó hann félagsbúi á Sléttu með Guðna Hjálmarssyni. Þótti það sambýli einstakt. Algjör samvinna var um heyskap, sjósókn og öll aflabrögð og hirðingu þeirra. Ekki vissu menn til að nokkurn tíma hefði ágreiningur risið milli þeirra Brynjólfs og Guðna og hélzt þetta sambýli til dauða Brynjólfs árið 1925 . Mun þarna hafa verið eitthvert fyrsta félagsbú á landinu og hið eina, sem vitað er um á þessum slóðum.

Á Sléttu sjást nú tvö hús og svo vitinn fremst á Sléttunesi. Lengra út með sjó er skýli SVFÍ, þar sem heitir Stöð, en þangað sjáum við ekki nú. Við stiklum Sléttuá skammt neðan upptaka í Sléttuvatni. Frá ánni förum við upp á lítið holt og þaðan sést yfir Sléttuvatn, sem kannski mætti heldur nefna tjörn en vatn.

Frá Sléttubjargi teygist dalverpi upp undir vatnið, grösugt og þýft mjög. Heita þar Efridalir. Við stiklum þar yfir á þúfunum og göngum síðan upp sniðgötu í brekkunni austan við. Þaðan er gatan skýr og greið inn Ytri-Hesteyrarbrúnir, niður Bröttugötu og um Götuhjalla allt inn til Hesteyrareyra. Þorkell á Sléttu var eitt sinn þarna á ferð. Kom á móti honum mannýgt naut, sem hafði sloppið úr vörzlu á Hesteyri og gat enginn fangað. Þorkell sté af baki hesti sínum og tók móti nautinu er það vildi stanga hann. Sneri hann það niður og þjarmaði svo að, að það hljóp sem rakki undan honum inn til Hesteyrar.

En öðru sinni var maður, sem Einar hét, á leið inn Götuhjallann áleiðis til Hesteyrar. Sá hann þá fjörulalla, sem hafði króað af kálf og vildi reka í sjóinn. Eftir nokkra stund fór kálfurinn undan honum í sjóinn neðan hjallans, þar sem heitir Kálfshamarspartur. Haft var fyrir satt, að Galdra-Finnur hefði síðar komið óvætti þessari fyrir með kunnáttu sinni. Hesteyrareyrar eru votlendar efst og því förum við ofan fyrir bakka og göngum fjöruna þar til kemur í sandfjöru, þá förum við þvert yfir eyrarnar og síðan inn með Nóngilsfjalli að Hesteyri.
Á Hesteyri var þriðja þorpið í Sléttuhreppi. Þar var læknissetur og þingstaður hreppsins síðustu áratugina. Þinghúsið var einnig notað sem skóli og þar var símstöðin. Verzlun var á Hesteyri, fyrst sem útibú frá Ásgeirsverzlun á Ísafirði, en síðar átti hana Guðmundur Halldór Albertsson. Verzlunarstjóri hjá Ásgeirsverzlun var Sigurður Pálsson, sem fyrr er á minnzt, bróðir Gests Pálssonar rithöfundar. Sigurður var mikill stuðningsmaður Hannesar Hafsteins og mun hafa unnið mikið að kjöri hans á þing árið 1900. Var sagt að hann hefði látið þá sögu ganga að hernaðarskattur yrði lagður á og tekinn upp herskylda ef andstæðingar Hafsteins næðu kjöri. Olli þetta miklu fjaðrafoki og hvort sem það var vegna þessa eða ekki, þá réðu atkvæði Sléttuhreppinga og Grunnvíkinga úrslitum um það, að hann náði kjöri en ekki sr. Sigurður í Vigur. Um þetta var ort í Alþingisrímum:

„Hornstrendingum heldur brá,
hvítnuðu þeir í framan.
„Kjósum Hannes Hafstein þá,“
hrópuðu allir saman.

Gerðu að Skúla gerningar
galdramenn frá Ströndum;
enginn maður mennskur bar
megn við slíkum fjöndum.

Samt við krossa og klukknahljóð
kempan studdist ríka,
og til sæmdar þingi og þjóð
á þingið komst hann líka.“

Ekki voru þetta þau einu deilumál, sem upp risu vegna kosninga í hreppnum. Tveimur árum síðar voru enn kosningar til Alþingis og þá náðu kjöri þeir Skúli Thoroddsen og sr. Sigurður í Vigur. Þá var Skúli sakaður um að hafa borið fé á kjósendur og hefði Árni Sigurðsson í Skáladal verið umboðsmaður hans. Út af þessu spunnust blaðaskrif og yfirheyrslur, en að endingu var málið látið niður falla.

Við komum fyrst þar að á Hesteyri, sem stendur minnisvarði um kirkjuna, sem þar stóð frá 1899, er Markus C. Bull hvalstöðvareigandi á Hekleyri lét flytja hana tilhöggna frá Noregi. Að boði biskups var kirkjan rifin árið 1960 og flutt til Súðavíkur, þar sem hún var reist að nýju, en nokkuð breytt. Rökin fyrir því að flytja þessa kirkju, en ekki byggja nýja í Súðavík, hafa sjálfsagt verið þau, að ekkert fólk þyrfti enga kirkju. En af þessu spunnust miklar deilur og eru enn þeir til úr Hesteyrarsöfnuði, sem ekki hafa fyrirgefið biskupi „stuldinn“. Vísa þeir gjarna á stórviðri það, sem varð er kirkjan var vígð og ætíð er nefnt Biskupsbylur og segja það hafa verið ábendingu til biskups fyrir rangindin, sem hann hafi við haft. En í varðanum, sem stendur á grunni kirkjunnar, og einnig var reistur að boði biskups, er önnur klukknanna úr Hesteyrarkirkju* og er hún frá árinu 1691. Einnig er í varðanum eirplata með árituðum nöfnum þeirra, sem í garðinum hvíla. Þar, sem kirkjan stóð, eru kallaðar Auðnir eða Kirkjuholt, sem mun vera nýrra nafn og hafa verið lítt notað. Þaðan sést vel yfir byggðina á Hesteyri. Þar standa enn hús frá fyrri tíð og er þeim flestum vel við haldið. Og væri ekki óræktin í túninu mætti vel halda að enn væri búið hér.

Upp með ánni innan við byggðina er vegur, sem liggur upp Hesteyrardal áleiðis til Látra í Aðalvík. (Reyndar sami vegur og minnzt er á upp úr Stakkadal.) Hann er upphlaðinn og ræstur allt upp á brún milli Búrfells og Kagrafells og var í eina tíð fær jeppum. Nú fer þarna aðeins stöku ferðamaður og skoðar þá gjarna gróðurinn á veginum og vippar sér yfir lækina, sem hafa lagt hann undir sig á köflum. Kagrafell er hátt fjall og myndarlegt, sem rís austan við Hesteyrardal. Undir austurhlíðum þess er farið um Lönguhlíð upp á Háuheiði og um Glúmsstaðadal í Fljót. Ekki er sú leið vörðuð né gata sjáanleg nema efst á heiðinni niður brúnina í Glúmsstaðadal.

Fyrir innan Hesteyrará er svonefndur Höfði, þar áttu álfar að búa og eiga tún, þar sem kallaðar eru Höfðaflatir. Rétt upp úr aldamótum síðustu reisti héraðslæknirinn þáverandi, Jón Þorvaldsson, hús á Hesteyri og vildi láta taka grjót í kjallara þess úr Höfðanum. Vöruðu menn lækni við því, en hann sagði það kerlingabækur einar og marklausa hjátrú að til væri huldufólk. Einn dag var grjót tekið, en í draumi næstu nótt birtist lækninum huldumaður og sagði hann mega búast við þungbærum afleiðingum, ef fram héldi með grjótnámið í Höfða. Þóttist læknir þá lofa að hætta öllu raski við Höfðann og gerði svo.*

Inn eftir sjávarbökkum liggur bílvegur, sem fyrrum var, að Stekkeyri, þar sem var hvalveiðastöð, sem Brödrene Bull reistu skömmu fyrir aldamót. Henni var síðar breytt í síldarbræðslu og höfðu margir heimamanna atvinnu þar af, auk fjölda aðkomumanna, sem flykktust að á sumrum. Stekkeyri er lítil, en aðdjúpt er þar við. Kölluðu Norðmenn þar fyrst á Gimli, en síðar breyttist nafnið í Heklu og festist það nafn smám saman og var eyrin almennt kölluð Hekleyri. Nú eru á eyrinni einungis rústir og stendur skorsteinninn einn upp úr hrúgunni með holu í eftir skotglaða starfsmenn landhelgisgæzlunnar. Enn má sjá grunn skála, sem starfsfólkið bjó í, og hvíta hússins, sem stóð uppi á hæðinni rétt utan og ofan eyrarinnar. Í hlíðinni fyrir innan Stekkeyri er birkiskógur, hinn eini hér í grennd.

Upp af firðinum innan Stekkeyrar er mikil fjallsbrún, nefnd Innri-Hesteyrarbrúnir og ofan hennar situr Kistufell. Um Hesteyrarbrúnir liggur leið yfir til Kjaransvíkur. Þá er farið frá Hesteyri neðan undir Höfðanum og upp á hjallann inn af honum. Þar er komið að mikilli brekku, sem heitir Kúsbrekka. Þetta undarlega nafn er brekkan sögð hafa fengið, er kýr hrapaði til dauðs niður hana. Ekki er eignarfallsmynd kýrinnar alveg rétt eftir málfræðireglum, en sagan er góð og vel gæti þetta hafa gerzt, því brekkan er brött og lengstum sumars er í henni stór breði. Upp Kúsbrekkuna er haldið og inn brúnir neðan undir Kistufelli. Þar er slitrótt gata en allvel vörðuð. Sagt var, að þar hefði verið óvættur ein mikil á ferð, einfótungur, sem réðst að þeim, sem fóru hjá. Var svo um nokkurn tíma, unz bóndi einn á Hesteyri, Jón að nafni, heljarmenni að burðum, barðist vð óvættina. Hlaut Jón dauða af, en einfótungurinn sást ekki framar.

Brekkurnar upp undir Kjaransvíkurskarð heita Andbrekkur og eru nokkuð togandi þótt ekki muni nema 150 m í hæð á Hesteyrarbrúnum og skarðinu, sem er 426 m hátt. Í efsta hjallann er rudd gata, en þar situr oftast snjór. Hinum megin skarðsins er gatan einnig rudd gegn um urðina og vörðuð niður undir neðstu hjalla í Kjaransvík. Af Hesteyrarbrúnum má einnig komast um Fljótsskarð.

Þá er að mestu lokið ferð okkar um landleiðir Hornstranda og Jökulfjarða, en þó eru tveir fjarðanna eftir: Veiðileysufjörður og Lónafjörður. Ber þar einkum tvennt til og er fyrst, að þeir eru fremur erfiðir umferðar og lokaðir af ófærum fjöllum eða illfærum, og síðan hitt, sem er kannski afleiðing þess fyrra, að fátt manna fór þar um og því ekki vegi að finna. Búendur hér fóru helzt sjóleið milli bæja og það annað, sem fara þurfti. Við skulum velja þá sömu leið og fara í siglingu um firðina tvo er við höldum til Ísafjarðar á morgun. Við sjáum þá staði, sem koma við sögu í Hornstrendingabók, um leið og við virðum fyrir okkur þær gönguleiðir, sem farnar voru. En vel að merkja; þær leiðir eru fæstar troðnar eða merktar og skyldu menn ekki fara þær ókunnugir staðháttum né í dimmu veðri.

Til baka

 

Myndasafn

Í grennd

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )