Þessi leið tengir Rangárvelli og Skaftártungu. Hún hefst við Keldur á Rangárvöllum, sé ekið til austurs. Þaðan er haldið upp með Eystri-Rangá um Laufahraun að Laufafelli, yfir Markarfljót hjá Launfit, austur að Álftavatni, þar sem eru tveir skálar Ferðafélags Íslands, og í Hvanngil. Þar er góður gangnaskáli. Rétt austan við Hvanngil er ekið yfir Mælifellssand að Brytalækjum, þar sem leiðin skiptist. Ein liggur til byggða, svokölluð Öldufellsleið meðfram Hólmsá vestanverðri niður Álftaverið, önnur liggur um vað á Hólmsá að Snæbýli í Skaftártun og út á Landmannaleið við Lambaskarðshóla og hin þriðja liggur líka um Hólmsárvað og Álftavatnskrók niður í Eldgjá. Vestari hluti gamla reiðvegarins lá nokkru sunnar, um Hungurfit, og var venjulega riðinn á u.þ.b. 20 klst.
Leiðin neðan úr Fljótshlíð, sem liggur um Emstrur, tengist Fjallabaksvegi syðri (Miðvegi) á vestanverðum Mælifellssandi. Á meðan Skaftfellingar þurftu að sækja verzlun til Eyrarbakka, var leiðin fjölfarin, enda eru fáar torfærur á henni.
Langvíuhraun. Miðvegur liggur frá Keldum á Rangárvöllum upp með Ytri-Rangá og yfir hluta af þessu hrauni, sem var úfið og gróft áður en það fylltist af vikri í Heklugosinu 1947.
Krókur er áfangastaður á Laufaleitum. Hann er nokkuð langur tangi austur úr suðurenda Faxa, milli Markarfljóts og Hvítmögu. Á Króki er leitarmannaskáli. Vað á fljótinu í Króki er oftast illt yfirferðar og alófært í miklum vatnavöxtum. Greiðar bílaslóðir liggja frá Hungursfit (leitarmannaskáli) inn á Krók. Þetta er fallegt svæði með háfjallagróðri.
Laufaleitir eru afréttur Rangvellinga milli Tindfjalla- og Torfajökuls. Markarfljót skilur milli þeirra og Skaftártunguafréttar. Laufaleitir eru rýrar til beitar, eyðisandar og fjallendi, enda benda nöfn eins og Hungurfit og Sultarfit til þess. Bæði Hekla og Katla hafa stuðlað að gróðurleysinu.
Laufafell (1264m) er ríólítfjall á Laufaleitum, girt hamrabelti efst. Vestan þess er ríólíthraunið Laufahraun, sem er líklega runnið eftir landnám. Grænavatn heita þrír gíganna í gígaröðinni, sem það rann frá.
Svartahnúksfjöll (901m) eru fjalllendi austan Torfajökuls (Svartihnúkur 889m). Þau eru brött og gróðursnauð. Eldgjá liggur í gegnum þau og inn undir Mýrdalsjökul. Þarna eru upptök Tungufljóts og Hólmsá rennur úr Hólmsárlóni við rætur þeirra í Hólmsárbotnum.
Torfahlaup yfir Markarfljót hjá Grænafjalli.
Sagt er að maður að nafni Torfi hafi numið brott stúlku og frændur hennar hafi veitt honum eftirför. Hann átti engan annan kost en að stökkvar yfir þrengsta hluta gljúfursins til að komast undan og það tókst. Bróður (föður) stúlkunnar tókst ekki stökkið og hékk á hríslu á blábrúninni. Stúlkan vildi, að Torfi hyggi á hrísluna, en hann bjargaði manninum. Þeir sættust heilum sáttum og Torfi fékk stúlkuna sína. Önnur örnefni, Torfrjökull, Torfatindur, Torfamýri, Torfafit og Torfavatn eru sögð tengd þessum sama Torfa og Blesamýri og Faxi hestum hans.
Fjallaskálar Fjallabak Syðra Miðvegur:
Utivist Alftavotn Hut
Utivist Mountain Hut Skaelingar
Utivist Mountain Hut Strutur Maelifeldssandur
Utivist Mountain Hut Sveinstindur
ITA Mountain Huts at Lake Alftavatn
ITA-mountain-huts-botnar-in-emstrur