Í Breiðdal er mesta undirlendi á Austfjörðum og fjöllin kringum Breiðdal eru hin hæstu þar og ná sum þeirra 1100 til 1200 metra hæð. Breiðdalsá er ein þekktasta laxveiðiá á þessu svæði en hún fellur af Breiðdalsheiði og í henni er fossinn Beljandi. Hér, sem víðast á Austfjörðum, er tignarleg náttúra og margir áhugaverðir staðir til skoðunar. Heydalir eru taldir merkasta býli í Breiðdal en þar hefur verið prestsetur frá upphafi kristni.
Í Jórvíkurskógi, sem er í umsjá Skógræktar ríkisins, vex blæösp en hún er frekar sjaldgæf hérlendis. Við Breiðdalsvík, sem er milli Kambaness og Streitishvarfs, er samnefnt kauptún. Þar er verslun, fiskvinnsla og útgerð ásamt þjónustu við ferðamenn og gistiaðstaða er góð.
Á Kambanesi var reistur viti árið 1922 og veðurathugunarstöð frá 1961. Uppi af nesinu eru Súlur (543m). Þar býr tröllkona, sem kemur til með að hringja til dómsdags.
Breiðdalsvík varð fyrir skotárás þýzkrar flugvélar í september 1942. Þá laskaðist vitinn á Kambanesi og tvö hús í þorpinu.
Vegalengdin frá Reykjavík er um 640 km um Suðurland.