Talsvert vatnsfall sem fellur til sjávar skammt frá Breiðdalsvík. Tínist til úr ýmsum lækjum og vötnum til fjalla og verður síðan til úr samruna Norðurdalsár, Suðurdalsár og Tinnudalsár. Áin er þokkaleg laxveiðiá, en sveiflur í veiði milli ára eru miklar, enda óhagstæður sjór fyrir uppvaxandi laxa fyrir austan land. Þó veiðast þarna yfirleitt ekki færri en 100 laxar og stundum alveg upp í þriðja hundraðið. Veitt er á sex laxastangir og nokkrar silungastangir sem flestar eru í sjóbleikju neðst á svæðinu.
Leigutakinn, Þröstur Elliðason, er byrjaður á viðlíka aðgerðum og hann notaði til að gera Ytri Rangá að einni bestu laxveiðiá landsins. En allt er þó dæmið smærra í sniðum, enda umgjörðin tæpari heldur en syðra. Þó gerir hann sér vonir um að meðalveiði geti farið upp í 6-1100 laxa og takist það þá verða fá svæði jafn spennandi miðað við verðlag og aðbúnað. en við Breiðdalsá er eitt besta veiðihús landsins.