Árnes er samheiti fyrir eyju ( Hagaey ) í Þjórsá, félagsheimili, byggð í kringum það og skóla við veginn áleiðis til Gaukshöfða, Þjórsárdals og Búrfells í Gnúpverjahreppi. Á eyjunni var áður þing sýslunnar, sem dregur nafn af henni, en hún var landföst áður en kvísl úr Þjórsá sló sér austur fyrir hana. Enn þá sjást merki um mannvirki þar, sem líkjast dómhring og örnefnin Þinghóll og Gálgaklettar styrkja þessa kenningu. Í vesturkvíslinni, sem er vatnslítil, er Hestafoss og í meginkvíslinni, hinni austari, er Búðafoss eða Búði við efsta hluta Árnessins. Þar eru margar búðatóttir. Eyjan hefur blásið mikið upp og er ekki nytjamikil. Minjar þar eru friðlýstar. Skemmtileg og falleg hliðarleið liggur upp frá byggðinni, norðan Miðfells og tengist aðalveginum aftur á móts við Hagaey í Þjórsá. Skammur vegur er þaðan til Gaukshöfða og Þjórsárdals.
Í félagsheimilinu Árnesi er Þjórsárstofa til húsa. Markmið Þjórsárstofu er að miðla fróðleik og upplýsingum um náttúruna, fólkið, söguna og þá þjónustu sem er að finna á Þjórsársvæðinu, með Þjórsá sjálfa sem meginþema.
Vegalendin frá Reykjavík er um 95 km.
Ferðast og fræðast