Mörk Mælifellssands eru Kaldaklofskvísl í vestri, Torfajökulssvæðið í norðri, Mýrdalsjökull í suðri og Hólmsá í austri.
Njálssaga segir að Flosi og brennumenn hafi riðið Gásasand eftir Njálsbrennu. Þetta nafn mun hafa verið notað um vestari hluta Mælifellssands en fellið, sem sandurinn dregur nafn af nú ,er austar og hefur líklega verið landamerki (mælipunktur) á landnámsöld. Sandurinn er í 600 m.y.s. Hann er tiltölulega sléttur og gróðurlaus og þar verður fólk að vara sig á sandbleytum í kvíslum.
Í vor- og sumarleysingum breytist hann í hafsjó af vatni. Stakt fell á austanverðum sandinum heitir Mælifell (791m). Miðvegur (Syðri fjallabaksleið) liggur um sandinn.
Árið 1868 urðu fjórir Skaftfellingar úti vestarlega á sandinum, þar sem heitir nú Slysaalda.
Tveir menn urðu úti á svipuðum slóðum, þegar þeir reyndu að komast til byggða eftir að þyrla þeirra brotlenti að vetri til.
Austan Mælifells eru Brytalækir, sem spretta upp undan hraunrönd og renna í Hólmsá lítið eitt austar en Brennivínskvísl. Brennivínskvísl er ein upptakakvísla Hólmsár og á upptök sín undir Strútsöldum norðan Mælifells. Hún fær til sín meira vatn niðri á sandinum. Á sumrin falla til hennar jökulkvíslar undan Mýrdalsjökli. Hún fellur til Hólmsár hjá Svartafelli.
Hólmsárbotnar er nokkuð gróið flat- og blautlendi suðaustan Torfajökuls. Þar kemur Hólmsá fram úr tveimur giljum og myndar Hólmsárlón. Þarna eru heitar laugar, hin stærsta Strútslaug við norðurenda lónsins. Þar er graslendi, sem er þó ekki góður hagi.