Laugarbakki er lítið þorp á jarðhitasvæði á austurbakka Miðfjarðarár. Þar hét áður Langafit. Í Grettissögu segir frá örlagaríku hestaati þar. Fyrsta húsið var reist á Laugarbakka árið 1933. Bygging heimavistarskólans að Laugarbakka hófst 1970. Hann er nýttur sem sumarhótel. Það er skammt til Hvammstanga og róleg ferð kringum Vatnsnes er öllum ógleymanleg.
Frá Laugarbakka liggur vegurinn áfram suður meðfram Miðfjarðará og upp á heiðar, þar sem er aragrúi veiðivatna. Á þeirri leið er ferðaþjónustubærinn Brekkulækur, upphafsstaður hesta-, göngu- og veiðiferða.