Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Látrabjarg

Látrabjarg vestasti hluti Íslands

Látrabjarg er 14 km langt og þverhnípt bjarg frá austri til vesturs við norðanverðan Breiðafjörð. Þar er vestasti tangi landsins, Bjargtangar. Azore-eyjar eru vestasti hluti Evrópu. Austurmörk bjargsins eru við Keflavík. Það er hæst á Heiðnukinn, 444 m og því er skipt í fjóra hluta, Látrabjarg (vestast; frá Bjargtöngum í Saxagjá). Það er ævintýralegt að ganga spöl með bjargbrúninni og skoða fuglalífið.

Selur við Látrabjarg
Mynd: Helgi Jóhannsson

Selir eru algengir á skerjunum í grennd við vitann og stundum bregður fyrir hvölum skammt frá landi. Öldum saman var sigið í bjargið eftir eggjum og stundum hafa veiðzt 36.000 fuglar á ári. Sigi var hætt eftir 1925, þegar 40.000 eggjum var safnað.

Enski togarinn Dhoon er eitt margra skipa, sem hafa strandað á þessum slóðum og á því ein fárra áhafna, sem var bjargað fyrir harðfylgi björgunarsveita á jólaföstu 1947.

Vegalengdin frá Reykjavík er um 463 km og Bröttubrekku (um 347 km með Baldri frá Stykkishólmi til Brjánslækjar).

Gönguleiðir liggja vítt og breitt um svæðið, s.s. um Látrabjarg, til Keflavíkur, Rauðasands og Örlygshafnar. Frá Breiðuvík liggja leiðir til norðurs að gömlum verstöðvum og til veiðivatna á svæðinu.

Meiri fróðleikur.
Suðurhlið Látrabjargs stendur sumst staðar sæbrött mjög og með köflum í sjó fram með lóðrétt bjarg, annars staðar ekki eins brött en þá víða með grasi grónum beltum. Þrjár hvilftir eða dalir ganga niður í bjargið. Vestast er Djúpidalur. Hann gengur um 200m niður í bergið og er í lögun eins og stungið hafi verið framan úr brúninni með risaskeið. Dalurinn er allur grasi gróinn og kinnar hans þó brattar séu. Vestari kinnin heitir Heiðna-kinn. Sagt er frá Gottskálki bónda á Látrum, sem var fjölkunnugur mjög, en gat þó ekki komið óvætti, sem skar vaðinn fyrir sigmönnum, úr bjarginu. Hann leitaði til Guðmundar biskups góða. Biskupinn vígði bjargið en óvætturin fékk að halda fyrir sig litlum hluta óvígðum, þar sem síðan heitir Heiðnakast niðri í bjarginu, en Heiðnakinn þar fyrir ofan. Á Heiðnukinn er bjargið hæst (444m). Þar er sléttlendi á brúninni og útsýn stórfengleg til allra átta, einnig niður fyrir fætur, ef staðið er framarlega. Eystri kinn dalsins heitir Kristnakinn. Hún var vígð sem aðrir hluta bjargsins að því er sögur herma.

Látrabjarg
Mynd: Helgi Jóhannsson

Næsti dalur niður bjargið heitir Geldingsskorardalur. Hann er breiðari og grynnri og ekki eins gróinn. Þriðji dalurinn er Lambahlíðardalur, nokkuð grunnur og lítið gróinn. Fyrir neðan Lambahlíðardal er raunar ekkert bjarg, heldur klettabelti fugllaust í mynni dalsins. þar fyrir neðan tekur við brött hlíð, Lambahlíð, með skriðum og grónum geirum, sem nær niður á lága sjávarkletta eða fjöru.

Þetta langa bjarg skiptist í fjóra hluta. Vestast er Látrabjarg frá Bjargtöngum í Saxagjá. Það er sæbrattast og fuglríkast. Síðan er Bæjarbjarg, frá Saxagjá í Geldingaskor. Það er hæsti hluti bjargsins en þar er ekki að sama skapi fuglríkt. Mikið gras er ofan við miðja hæð. Breiðavíkurbjarg nær úr Geldingaskor í Gorgán. Það er fuglríkt með köflum en annars staðar fugllítið. Keflavíkurbjarg nær úr Gorgán og í Brimnes. Þar er minnst um fugl.

Fyrir teinöldum hefur bjargið teigzt lengra fram, en náttúruöflin naga smám saman af því. Klappir og bergfleygar úr harðara efni, sem miður vinnst á, standa víða eftir úti í sjó eða mynda bríkur, sem ganga fram úr bjarginu. Ein þeirra og hin stærsta er svonefnt Barð, sem er um 80 m hátt og gengur um 60 m fram. Það er breiðast að ofan 2 m en mjóst 20 sm. Við Barðið eða á því einu búa um 15.000 fuglar samkvæmt talningu.

Stórar fyllur falla stundum úr bergveggnum, oftast að vori til, þegar frost leysir. Hlaðast þá upp miklar urðir í fjörunni 50-100 m upp með berginu, ef um mikið hrun er að ræða, en sjórinn tekur jafnskjótt til við að mola það niður. Það, sem eftir stendur verður bústaður álkunnar. Um áratugi hefur stærsta urðin verið Stórurð. Hún kvað vera stærsta álkuver heims.

Öldum saman hefur verið sigið í bjargið eftir eggjum og fugli. Vitað er, að veiðzt hafa þar 36.000 fuglar á einu ári. Oft hafa menn látið lífið við þessa háskalegu iðju. Árið 1925 var síðasta árið, sem bjargið var sótt með venjulegum hætti og voru þá 14.000 fuglar og 40.000 egg tekin. Árið eftir varð slys við sig og fórust tveir ungir menn. Lauk þá reglulegu sigi.

Fjöldi skipa hefur farizt við þennan hamravegg, oftast með allri áhöfn. Síðasta skip, sem fórst við bjargið var brezki togarinn Dhoon skömmu fyrir jól árið 1947. Hann strandaði undir Geldingsskorardal, þar sem bergið er um 200 m hátt. Þar fór fram frækileg björgun áhafnarinnar, þegar sigið var eftir skipbrotsmönnunum niður í fjöru og þeim öllum bjargað upp á brún.

Hinn 13. des 1997, 50 árum síðar, var sett upp minnismerki um björgunarafrekið á bjargbrúninni. Að frumkvæði Látramanna gerði Óskar Gíslason (15.04.1901-†24.07.1990; hvílir í Hólavallagarði við Suðurgötu í Reykjavík) kvikmyndatökumaður kvikmyndina „Björgunarafrekið við Látrabjarg”. Hluti hennar var tekinn af strandi enska togarans Sargoon undir Hafnarmúla við Patreksfjörð árið 1948 og er sá þáttur myndarinnar talinn ein merkasta heimildarmynd, sem hefur verið tekin hérlendis. Slysavarnarfélag Íslands stóð fyrir þeirri framkvæmd. Meðal myndefnis í þeirri mynd eru einstæðar myndir frá öðru björguanrafreki við Örlygshöfn í Patreksfirði, þegar togarinn Sargon strandaði þar.

Víðfrægt er strand brezka togarans Dhoon við Látrabjarg hinn 12. desember 1947. Skipverjar sendu frá sér neyðarskeyti og Látrabændur brugðu skjótt við og hófu leit. Við Heiðnukinnarhorn er gott útsýni og þaðan sáu þeir skipið strandað undir Geldingsskorardal. Eftir að hafa safnað liði og undirbúið björgun, héldu þeir að slysstað. Tólf skipverjar, sem eftir lifðu, þurftu að bíða langa og erfiða nótt, bundnir frammi á hvalbak skipsins. fjóra hafði tekið út og drukknað. Ákveðið var að síga niður á Flaugarnefið, sem rís úr sjónum og nær um miðja leið upp bergið, 80 metra hátt. Þetta var um miðjan vetur svo bjargið var allt ísað og sigið því stórhættulegt. Af tólf björgunarmönnum, sem fóru niður á Flaugarnef, sigu svo 4 menn alla leið niður í fjöru, þar sem þeir þurftu að ganga meira rúmlega einn kílómetra með þungan björgunarbúnaðinn yfir ísað og flughált stórgrýtið, þangað til komið var á strandstað. Þetta tók allan morguninn.

Strandstaðurinn var í um 70 metra fjarlægð frá ströndinni. Þórður Jónsson bóndi á Látrum skaut línu til skipsins, sem skipbrotsmenn drógu til sín. Þeir voru síðan dregnir í land á björgunarstóli, sem var festur við línuna. Langur tími fór í að draga skipverjanna að landi og gangan til baka að Flaugarnefi tók um það bil klukkustund. Um fjögurleytið voru sjö af tólf skipverjum komnir upp, en hinir þurftu að búa um sig í fjörunni, í skjóli við stórgrýti og bíða næsta dags, vegna þess að sjór var farinn að falla að.

Það tók allan næsta dag að hífa mennina upp bjargið. Þegar því var lokið var komið myrkur, sunnan stormur og rigning. Þarna mátti ekki á tæpara standa. Skipbrotsmenn voru aðframkomnir og var brugðið á það ráð að gista um nóttina í tjöldum á bjargbrúninni áður en haldið var heim að bæ. Víst er að menn hafa verið fegnir að komast í hús hinn 15. desember.

Nær allir íbúar Hvallátra tóku þátt í þessu frækilega björgunarafreki og einnig fólk alla leið frá Patreksfirði. Á meðan karlmennirnir sigu í bjargið, sá kvenfólkið og unglingarnir um að koma vistum, tjöldum, fatnaði og búnaði á milli bæjar og bjargs. Óskar Gíslason gerði kvikmynd um atburðinn.

 

Myndasafn

Í grennd

Breiðuvíkurkirkja, Vestfirðir
Kirkjan er í Patreksfjarðarprestakalli í Barðastrandarprófastdæmi. Breiðavík er bær og kirkjustaður við  vík í Rauðasandshreppi. Þar var bænhús framan…
Brjánslækur
Fornt höfuðból, kirkjustaður og löngum prestsetur við mynni Vatnsfjarðar á Barðaströnd. Þar var kirkja   helguð heilögum Gregoríusi í katólskum sið. B…
Hvallátur – Útivíkur
Norðan Látrabjargs eru þrjár breiðar víkur með hvítum sandi og grænum bölum og athyglisverðri sögu,   Látravík, Breiðavík og Kollsvík. Hin síðastnefnd…
Örlygshöfn, minjasafn, Hnjóti
Örlygshöfn er dalverpi með allmiklu sjávarlóni við sunnanverðan Patreksfjörð milli Hafnarfjalls að  vestan og Hafnarmúla að innan. Örlygshöfn er kenn…
Patreksfjörður
Patreksfjörður er syðstur Vestfjarða og kauptúnið er utarlega við norðanverðan fjörðinn. Íbúar hafa afkomu sína af sjávarútvegi og fiskvinnslu sem og …
Rauðasandur
Rauðisandur (eða Rauðasandur) er á milli Látrabjargs og Skorarhlíðar. Hann dregur nafn sitt af hörpudiskssandinum, sem  ljær honum rauðleita litinn. L…
Sauðlauksdalsvatn
Sauðlauksdalsvatn er í Rauðasandshreppi í V.-Barðastrandarsýslu og skammt frá flugvellinum á  Patreksfirði. Frá vatninu er stutt í byggðasafnið á Hnjó…
Sjöundá, Rauðasandi
Sjöundá er afskekkt eyðibýli innst á Rauðasandi í heldu ókræsilegu umhverfi. Árið 1802 var þar tvíbýli og Bjarni Bjarnason og Steinunn Sveinsdóttir m…
Stæðavötn
Stæðavötn eru tvö fjallavötn fyrir ofan Breiðuvík. Þangað er u.þ.b. 10 mínútna ganga frá veginum að Ferðaþjónustunni í Breiðuvík, þar sem veiðileyfi e…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )