Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Örlygshöfn, minjasafn, Hnjóti

Örlygshöfn er dalverpi með allmiklu sjávarlóni við sunnanverðan Patreksfjörð milli Hafnarfjalls að  vestan og Hafnarmúla að innan.

Örlygshöfn er kennd við Örlyg hinn gamla Hrappsson, sem nam þar land að sögn Landnámu.

Þar er mest byggð og gróðurlendi við Patreksfjörð. Í Örlygshöfn er félagsheimilið Fagrihvammur, þingstaður Rauðasandshrepps, og heimavistarskóli með 8 bekkjum grunnskóla. Þar er og verzlun við Gjögrabót, nú útibú frá Kaupfélagi Vestur-Barðstrendinga.

Á bænum Hnjóti er merkilegt minjasafn, sem Egill Ólafsson († 25/10 1999) bóndi gerði með ótrúlegri elju að einu athyglisverðasta byggðasafni á landinu. Hann lagði mikla áherzlu á söfnun minja, sem tengjast flugsögu landsins. Það er virkilega ferðarinnar virði að kíkja á það og renna síðan út á Látrabjarg í leiðinni. Vestan Örlygshafnar er viti á Háanesi, kallaður Ólafsviti. Hann var reistur til minningar um Ólaf Jóhannesson útgerðarmann á Vatnseyri.

Minjasafn Egils Ólafssonar að Hnjóti í Örlygshöfn.
Saga sunnanverðra Vestfjarða í lofti, láði og legi. Sagan um lífsbaráttu hins liðna og frumherja þess nýja sögð í máli, myndum og hlutum úr fortíð og fram á okkar daga. Safnið er opið alla daga frá 09:00 – 18:00. Ef safnvörður er ekki við, vinsamlega hafið samband við heimilisfólkið að Hnjóti. Sími: 456 1590 og 456 1569. Safnið var opnað 22. júní 1983.

Gömlu flugstöðvarnar eru frá Sandodda og Þingeyri og fyrsta húsið með radíóvita stendur þar líka. Valtarinn, sem stendur við safnið, var notaður við flugvallargerðina í Reykjavík, þegar Bretar byggðu hann á árunum 1940-41.

Hluti af skipsflaki, sem fannst á sjávarbotni í Hafnarvaðli, er líklega frá 1694 og knörrinn, sem var notaður við hátíðahöld í Vatnsfirði 1974 er við safnið.

Antonov AN-2 (NATO-nafn = Colt) var smíðuð í kringum 40.000 eintökum í Sovétríkjunum, Póllandi, Kína, Suður-Ameríku og Afríku. Hún er stærsta einshreyfils tvíþekjan í heimi. Mótórinn er 9 bullu Shetsov-stjörnuhreyfill með 30 lítra rúmtaki og 1000 hestafla. Vélin vegur 5½ tonn. Antonov AN-2P var smíðuð fyrir 10 farþega eða 1250 kg farm og flughraði er 180 km/klst. Eldneytið nægði til 900 km flugs. Hún er næstum 13 m löng, vænghafið er rúmlega 18 m og hæðin er 4 m. Sex benzíngeymar taka alls 1200 lítra. Benzínleyðsla í farflugi er 150-180 l/klst og olíueyðsla 2-3 l.

Antonov flugvélin lenti í Örlygshöfn 1993. Hún var á leið til BNA frá Rússlandi, en laskaðist í lendingu í Reykjavík og var skilin eftir. Egill falaðist eftir henni og fékk rússneskan flugmann til að fljúga henni vestur. Henni var lent á söndunum niðri við sjó og síðan var hún dregin yfir mýrar og engi upp að safni. Þar stóð hún lengi vel utandyra, þar til lokið var við endurreisn flugskýlisins gamla úr Vatnagörðum í Reykjavík frá árinu 1930.

Douglas C-117D, sem er endurbætt útgáfa af hinum fræga Douglas DC-3, „Þristi” eða C-47/R-4D, eins og hann hét hjá flugher og flota USA, var tekin í sundur þar sem hún stóð á Keflavíkur velli og flutt til safnsins að Hnjóti 21. sept. 2002. Þessi tegund þjónaði m.a. við leitar- og björgunarstörf og fólks- og vöruflutninga til Hafnar í Hornarfirði og Þórshafnar á Langanesi vegna ratsjár- og fjarskiptastöðvanna á Stokknesi og Heiðarfjalli.

Tvær C-47 og ein C-117D flugvélar varnarliðsins komu við sögu í Vestmannaeyjagosinu 1973. Helztu endurbæturnar, sem gerðu C-117D frá brugðnar upprunalegu C-47, voru öflugri hreyflar, stærri stél- og vængfletir, straumlínulagaðri hreyfil- og hjólhlífar og lengri búkur, ásamt styrkingu flugvélarinnar allrar, sem jók hraða, burðargetu og drægni hennar talsvert. Þær voru í notkun hjá flugdeildum bandaríska flotans og landgönguliði hans víða um heim til 1982.

Þessi tiltekna flugvél, sem ber raðnúmerið 17191 hjá Bandaríkjaflota, var smíðuð árið 1944. Hún þjónaði lengi í flutningadeildum flotans við kyrrahaf og víðar en kom til varnarliðsins í september 1973. Hún átti rúmlega 20.000 flugstundir að baki, þegar henni var komið fyrir á stalli sínum á Keflavíkur velli 1977.

Flugminjasafnið naut aðstoðar slökkviliðsins á Keflavíkurvelli, Íslenzkra aðalverktaka og ÓR-krana við að taka flugvélina í sundur og undirbúa hana fyrir flutning að Hnjóti, sem Þorsteinn Kroyer og Arnar Guðnason hjá verktakafyrirtækinu Alefli í Reykjavík önnuðust. Vélin var sett á þrjá vagna, vængir á einn, mótórar og hjólabúnaður á annan og búkurinn á hinn þriðja.

Minnismerkið eftir Bjarna Jónsson til minningar um brezka togarasjómenn, sem fórust í Rauðasandshreppi, var afhjúpað 1998. Ríkisstjórnin stóð straum af kostnaði.

Kaffiterían í safninu opnaði 21. júní 1998.

Innskot Birgir Sumarliðason flugstjóri og um tíma flugrekstarstjóri Vængja. og eigandi nat.is

Egill Ólafsson lézt hinn 25. oktober 1999 (F. 1925). Um hann segir Örlygur Hálfdánarson í úgáfu Vegahandbókarinnar 2000: „Egill Ólafsson á Hnjóti skilur mikið eftir sig, sem vert er að þakka. Það er fyrir frumkvæði manna eins og hans, að við getum fræðzt um leið og við ferðumst. Ég vil hvetja alla, sem leið legga til Vestfjarða, að koma við á Hnjóti, skoða þar minjasafnið, fara um hinar fögru og sérstæðu byggðir, þar sem saga þjóðarinnar birtist í hnotskurn og mikilfengleg sérkenni landsins hafa varanleg áhrif á sálarlífið”.

Árið 1973 tók Egill við starfi umsjónarmanns flugvallarins við Patreksfjörð og þá fór hann að draga að sér muni úr vestfirskri flugsögu og raunar flugsögu landsins alls. Í kjölfarið reis á Hnjóti ótrúlegt flugsafn, sem hann ánafnaði Flugmálastjórn.
Á flugvellinun á Patró eins við kölluðum hann. Þar kynntist ég Agli frá Hnjóti. Við áttum eitt sameiginlegt Ferðast og Fræðast:

Myndasafn

Í grennd

Breiðuvik og Kirkja.Vestfirðir
Bær og kirkjustaður við samnefnda vík í Rauðasandshreppi, norðvestan á skaganum sunnan  . Bænhús  var þar framan af öldum, en 1824 var sett þar sóknar…
Látrabjarg
Látrabjarg vestasti hluti Íslands Látrabjarg er 14 km langt og þverhnípt bjarg frá austri til vesturs við norðanverðan Breiðafjörð. Þar er vestasti t…
Patreksfjörður
Patreksfjörður er syðstur Vestfjarða og kauptúnið er utarlega við norðanverðan fjörðinn. Íbúar hafa afkomu sína af sjávarútvegi og fiskvinnslu sem og …
Sögustaðir Vestfjörðum
Álftafjörður Álftamýri Arnarfjörður Arnarnes Æðey Barmar Bjarkarlundur Borgarland Botn er í Bo…
Stæðavötn
Stæðavötn eru tvö fjallavötn fyrir ofan Breiðuvík. Þangað er u.þ.b. 10 mínútna ganga frá veginum að Ferðaþjónustunni í Breiðuvík, þar sem veiðileyfi e…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )