Kárahnjúkar
Kárahnjúkar eru móbergsfjöll austan Jökulsár á Dal á móti Hafrahvamma-gljúfrum og Glámshvömmum. Ytri hnjúkurinn er hærri, 835 m.y.s. Megingljúfur Hafrahvamma er 5 km langt, en milli Desjaár og Tröllagils eru u.þ.b. 10 km. Dýpsti hlutinn, milli Glámshvamma og Hafrahvamma, er u.þ.b 200 m djúpur og er kallaður Dimmugljúfur. Þar er gljúfrið mjög hrikalegt og þröngt, vafalaust eitthvert hið stórbrotnasta á landinu.
Virkjun Jökulsár á Brú vegna álvers Alcoa við Reyðarfjörð hófst 2003 og Fljótsdalsvirkjunin var gangsett hinn 30. nóvember 2007. Afköst hennar eru 690 Mw, talsvert meiri en upprunalega var ætlað.
Jökulsá á Dal er stífluð við Fremri Kárahnjúk og er þar jafnframt langstærsta stífla Kárahnjúkavirkjunar sem nefnist Kárahnjúkastífla. Stíflan er 700 m löng og 198 m há grjótstífla með steyptri þéttikápu á vatnshliðinni. Kárahnjúkastífla er meðal hinna stærstu í heimi af þessari gerð og hæsta grjótstífla í Evrópu með steyptri þéttikápu.
Desjárstífla er austan við Kárahnjúkastíflu og Sauðárdalsstífla er í dalverpi að vestanverðu. Þessar hliðarstíflur eru grjót- og malarstíflur með þéttikjarna úr jökulruðningi. Saman mynda stíflurnar þrjár Hálslón sem er 57 km² að stærð. Vatnshæðin er 625 m.y.s. við fullt lón.
Í flestum árum fyllist Hálslón síðsumars. Þegar lónið er fullt er vatni veitt um yfirfall og steypist í um 90 m háum fossi niður í Hafrahvammagljúfur.
Um þessar slóðir liggur jeppaslóð frá Brú á Jökuldal, sem aka má áfram inn á Brúaröræfi og út á Kverkfjallaslóðina nærri eystri brúnni inn í Kverkfjallarana eða talsvert norðar við Arnardal. Einnig liggur jeppavegur upp úr Hrafnkelsdal að Snæfelli og inn á Vesturöræfi.
Tveir vegir með bundnu slitlagi, færir öllum bílum, liggja upp úr Fljótsdal að stíflunum, þannig að hægt er að aka hringleið. Vatnssöfnun í Hálslón hófst 28. sept. 2006 og brúin yfir gljúfrið er þegar komin í kaf. Ný leið opnast sumarið 2007, þegar vegur var tilbúinn á stíflumannvirkjunum.
Alls urðu rúmlega 1700 vinnuslys við virkjunarframkvæmdir frá árinu 2002 til 2009. Á annað hundrað voru enn þá óvinnufærir árið 2010. Flestir hinna slösuðu, 86%, störfuðu hjá verktakafyrirtækinu Impregilo. Tæplega 20% hinna slösuðu voru meðal yngstu starfmannanna. Flestir, 37%, voru á aldrinum 30 til 39 ára, 27% á aldrinum 40 til 49 ára. Tíu urðu fyrir óbætanlegu líkamstjóni, 122 beinbrotnuðu, 49 urðu fyrir eitrun og 35 brenndust, en 4 létu lífið.
Ferðalög á miðhálendinu voru tíð á söguöld en síðan fór að draga úr þeim, þegar hjátrú magnaðist, og lengi lágu ferðalög niðri, eða allt fram á 18.öld. Nú á dögum er ferðast um hálendið allt árið. Vegakerfið er víða orðið fært öllum tegundum farartækja á sumrin, einkum fyrir tilstuðlan Landsvirkjunar.