Hrafntinnusker
Hrafntinnusker er 1128 m hátt fjall við Austur-Reykjadali, austan Heklu. Það er hægt að aka langleiðina þangað frá Sátubarni á Dómadalsleið eða Laufafelli á Miðvegi. Útsýni er mikið og gott af Skerinu, sem er á gönguleiðinni milli Þórsmerkur og Landmannalauga, „Laugaveginum”. Þar er ágætisáningarstaður í skála Ferðafélagsins, sem var byggður 1977. Hann rúmar 20 manns. Umhverfis skerið, einkum vestan við það, er fjöldinn allur af hverum, enda er Torfajökulssvæðið meðal stærstu háhitasvæða landsins. Þarna eru gufuhverir, litskrúðugir leirhverir, sígjósandi vatnshverir og aðrir rólegri. Sumir eru undir jökli og mynda íshella. Litadýrð þessa ríólítsvæðis er ólýsanleg.
Það er áhættusamt að fara inn í slíka hella vegna þess, hve óstöðugir þeir eru. Ferðamaður beið bana í einum þeirra í Hrafntinnuskeri morguninn 16. ágúst 2006.
Hrafntinnuhraun, norðvestan Skersins, er samnafn á misgömlum hraunum. Hið yngsta gæti hafa myndast á sögulegum tíma. Yngsta hraunið skartar hringlaga gíg, sem varð að gúl vegna þess að hraunið var seigfljótandi og hrannaðist upp.
Stundum var sótt hrafntinna til húsaskreytinga í Hrafntinnuhraun (Þjóðleikhúsið). Árið 2006 var fengið sérstakt leyfi til að sækja nokkur tonn af hrafntinnu í Skerið til lagfæringa á Þjóðleikhúsinu. Margir gagnrýndu þessa innrás í Friðlandið að Fjallabaki.
Hinn 26. júní 2004 varð 25 ára Ísraeli úti í Kaldaklofsfjöllum, nærri Hrafntinnuskeri, á leið sinni frá Landmannalaugum til Þórsmerkur.
Ljósártungur eru tungan milli Ljósár og Markarfljóts. Hún teygist norður að Hrafntinnuhrauni og Hrafntinnuskeri. Þetta svæði er að langmestu leyti úr ríólíti og því er það mjög gróðursnautt. Þarna er víða geysimikill jarðhiti, aðallega sunnan og vestan í Hrafntinnuskeri. Íshellar myndast víða af þessum sökum.