Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Haukadalur

Haukadalur á suðurlandi

Haukadalur var fyrrum stórbýli og höfðingjasetur. Þar var kirkja helguð Maríu guðsmóður, Andrési postula, Marteini biskupi og heilagri Barböru. Núverandi kirkja var byggðá árunum 1842-1843. Hún var rifin 1939 og byggð upp aftur á steyptum grunni, kirkjuskipið lengt og gluggum fjölgað. Altaristaflan sýnir krossfestinguna (Ásmundur Sveinsson; perutré). Á kirkjuhurðinni er skjöldur, sem var upprunalega reiðarskjöldur. Þorbrandur Þorbjarnarson og Ásbrandur sonur hans námu land í dalnum.

Frægð Haukdæla hófst með Halli Þórarinssyni ( 1090). Teitur Ísleifsson ( 1110), sonur Ísleifs biskups, var fóstursonur Halls. Eftir að hann tók við Haukadal, stofnaði hann þar skóla, fyrstur manna á Íslandi. Þá varð Haukadalur rómað lærdómssetur. Teitur er talinn ættfaðir Haukdæla, sem urðu fjölmennir og bar hátt í sögunni. Gissur Þorvaldsson var einn þeirra.

Skömmu fyrir aldamótin 1300 hvarf Haukadalur úr eigu Haukdæla og komst fljótlega í eigu Skálholts, enda flutti Ögmundur Pálsson biskup þangað að lokinni starfsævi árið 1540, en sat þar ekki nema eitt ár. Haukadalsland náði alla leið upp að Jarlhettum og Haukadalsheiðin var eitt sinn allgróin og skógi vaxin en hún varð síðar og er enn þá að hluta eitthvert erfiðasta uppblásturssvæði landsins.

Á fjórða tug 20. aldar átti Sigurður Greipsson jörðina, sem var þá að því komin að fara í algera auðn. Danskur maður, Kristian Kirk, keypti mestan hluta hennar 1938 ásamt hjáleigunum Torfu og Bryggju (1400 ha alls) fyrir Skógrækt ríkisins. 1350 ha lands voru girtir af strax fyrsta árið og sandfok heft. Skógrækt hófst og kirkjan var endurbyggð. Fyrst var plantað skógi í Haukadal 1943, 1500 norskum skógarfurum. 1941 var settur upp minnisvarði um Kristian Kirk. Einn minnisvarði er helgaður sendiherra Norðmanna á Íslandi á árunum 1945-1958, Torgeir Anderssen-Rysst (frá 1961) og brjóstmynd af Sigurði Greipssyni var gjöf frá nemendum íþróttaskólans (frá 1972).

Marteinshver er fyrir neðan bæjarhólinn. Hann var notaður til jarðbaða á árum áður. Þarna eru líka tvær aðrar heitar laugar. Bergþórsleiði heitir hrygglöguð rúst hjá kirkjugarðinum. Þar á að vera leiði risans Bergþórs í Bláfelli. Hann hafði óskað eftir því, að hann yrði fluttur dauður í Haukadal til greftrunar. Hann vildi liggja þar, sem hann gæti heyrt klukknahljóð og árnið. Sagt er að hringurinn í kirkjuhurðinni sé af staf Bergþórs.

Gönguleið upp á Haukadalsheiði hefst í Skógræktinni í Haukadal. Þegar upp er komið, er hægt að halda alla leið að Hagavatni, út á Kjalveg í austri eða að Brunnum í vestri.

Sigríður Tómasdóttir frá Brattholti  lést árið 1957 og var grafin í Haukadal. Hún verður ætíð í heiðri höfð sem bjargvættur Gullfoss. Minnismerki hennar við fossinn er verk Ríkharðs Jónssonar.

Haukadalur er líka í Dalasýslu

Haukadalur er líka á Vestfjörðum

Myndasafn

Í grennd

Brunnar, Egilsáfangi
Brunnar eru mýrlend gróðursvæði við tvö smávötn á Kaldadalsleið í grennd við sæluhúsið  vesturenda línuvegarins, (Hlöðuvallaskáli ). Hann liggur meðfr…
Geysir
Þessi frægasti og fyrrum stærsti goshver heims er talinn hafa myndazt við mikla jarðskjálftahrinu í lok 13. aldar. Oddaverjaannáll segir um árið 1274,…
Gullfoss
Gullfoss í Hvítá Gullfoss er í Hvítá, þar sem hann fellur í tveimur þrepum niður í Hvítárgljúfur, sem eru allt að 70 m      djúp.  Efri fossinn er u…
Hagavatnsskáli, FI
Hagavatnsskáli var byggður 1942. Hann var endurbyggður 1985 og endurbættur árin 2000-2001. Hann  stendur við jaðar Langjökuls, við rætur vestustu Jarl…
Haukadalsheiði
Haukadalsheiði í Biskupstungum Svæðið norðan Haukadals í Biskupstungum, allt inn að Sandvatni og Fari, ber þetta nafn, Haukadalsheiði. Fyrrum var gró…
Haukadalskirkja
Haukadalskirkja er í Skálholtsprestakalli í Árnesprófastsdæmi. Katólsku kirkjurnar í Haukadal voru  helgaðir guði, Maríu guðsmóður, Andrési postula, M…
Kjölur
Kjölur er svæðið milli Langjökuls í vestri og Hofsjökuls í austri, Hvítár í Suðri og Seyðisár og í norðri.  Hvítár liggur leiðin um Bláfellsháls. Frá …

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )