Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Drangsnes

Drangsnes

Ferðavísir:
Hólmavík 37 km <Drangsnes> Djúpavík 64 km.

Drangsnes er sjávarútvegsþorp á Selströnd, yst við norðanverðan Steingrímsfjörð, sem tók að myndast á þriðja tug þessarar aldar. Drangsnes fær nafn sitt af háum steindrang niðri við sjó og ber nafnið Kerling.
Þjóðsagan segir að Kerling sé ein þriggja tröllkerlinga sem ætluðu að moka Vestfirði frá meginlandinu.
Einu sinni voru þrjú nátttröll sem ætluðu að sneiða Vestfirði af Íslandi, með því að moka sund þar sem styst er á milli Breiðafjarðar og Húnaflóa. Til að hleypa í sig eldmóði ákváðu þau að keppast um að búa til sem flestar eyjar úr því efni sem til félli við moksturinn. Þau skiptu liði og hófust handa. Að vestanverðu mokuðu karl og kerling inn Gilsfjörð og hömuðust sem mest þau máttu. Breiðafjörðurinn er grunnur og því urðu eyjarnar eins og berjaskyr um hann allan. Að austanverðu fór allt miður. Bæði var tröllkerling sú er mokaði í Kollafirði ein að verki og Húnaflói miklu dýpri en Breiðafjörður svo flest það sem hún kastaði frá sér varð að blindskerjum sem síðan hafa gert Flóann hættulegan skipum.

Tröllin þrjú kepptust við alla liðlanga nóttina og uggðu ekki að sér fyrr en birta tók af degi. Þá tóku vestantröllin til fótanna og stikuðu hvað þau gátu yfir Steinadalsheiði og út Kollafjörð í leit að felustað. En sólin kom upp og náði að skína á þau rétt innan við Kollafjarðarnes þar sem nú heitir Drangavík. Þar urðu þau að steindröngum þeim sem enn standa. Er annar drangurinn allur meiri um sig að ofan og mjókkar niður, og er það karlinn. Hinn er uppmjór og gildnar allur niður svo sýnist móta fyrir niðurhlut og jafnvel lærum. Er það kerlingin.

Skessan sem mokaði að austanverðu, varð líka sein fyrir og gáði ekki að sér fyrr en birta tók. Stökk hún þá í snarhasti norður yfir Steingrímsfjörð og komst að klettabelti einu sem þar gengur í sjó fram og heitir  Malarhorn. Varð henni þá litið út yfir Húnaflóa og sá að eftir næturlangt stritið hafði henni ekki tekist að mynda eina einustu eyju, bara fáeina varphólma og smásker. Í reiði sinni tvíhenti hún reku sína og hjó henni í grellsköpum í Hornið um leið og sólin skein á hana. Við það sprakk úr Horninu fram á Steingrímsfjörð eyja sú myndarleg er Grímsey heitir. Er það eina stóreyjan sem skessunni tókst að mynda og segja menn að sama berg sé í eynni og í Malarhorni og sé því augljóst að af því bergi sé hún brotin.

Við norðurenda Grímseyjar er háreistur klettur líkur nauti að lögun og heitir Uxi. Þann uxa átti kerling og stóð hann á Horninu þegar hún sprengdi það fram á fjörðinn og dagaði uxann þar uppi. Kerlingin varð hins vegar að steindrangi þeim semDrangsnes er kennt við og stendur á grasbala í norðanverðu þorpinu, rétt innan við Malarhornið.

Þjónusta við ferðamenn eykst og stendur nú margt til boða og má þar telja silungsveiði í nærliggjandi vötnum og sjóstangaveið en það er mjög stutt er á gjöful fiskimið. Frá Drangsnesi eru boðnar ferðir til Grímseyjar en þar er fjölbreytt fuglalíf og stór lundabyggð.

Vegalengdin frá Reykjavík er um 300 km.

 

Myndasafn

Í grennd

Goðdalur
Goðdalur er eyðibýli í samnefndum dal inn úr Bjarnarfirði syðra. Munnmæli herma, að þar hafi staðið hof á heiðnum tíma og álagablettir eru víða. Ein …
Grímsey í Steingrímsfirði
Grímsey í Steingrímsfirði er stærst eyja fyrir Ströndum. Þar var föst búseta fyrir langa löngu og síðar var gert út þaðan að vetrarlagi um árabil. Vit…
Hólmavíkurkirkja, Strandir
Hólmavíkurkirkja er í Hólmavíkurprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi. Smíði fyrstu kirkju á Hólmavík hófst 1957, en kirkjugarðurinn var vígður við kaup…
Kaldrananeskirkja
Kaldrananeskirkja er í Hólmavíkur-prestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi. Kaldrananes er bær og  við Bjarnarfjörð syðri. Katólskar kirkjur þar voru helg…
Kálfanes norðan Hólmavíkur
Eyðibýlið Kálfanes er rétt norðan Hólmavíkur og þar er flugvöllur sveitarinnar. Þar var kirkja fram yfir 1709. Til eru heimildir um vígslu kirkjunnar…
Mókollsdalur
Mókollsdalur inn af Þrúðardal í Kollafirði heitir eftir Mókolli landnámsmanni á Felli, sem er sagður heygður í dalnum. Samkvæmt athugunum Olaviusar Ol…
Sögustaðir Ströndum
Sögustaðir eru fjölmargir á Ströndum, en hér má sjá nokkra þeirra. Árneskirkja Bjarnarfjörður nyrðri Bjarnarfjörður syðri Djúpa…
Strandasýsla
Strandasýsla liggur að vestanverðum Húnaflóa, nær frá Geirólfsgnúpi að norðan að Hrútafjarðará og Holtavörðuheiði að sunnan. Sýslan er 2630 km². Strön…
Strandir, ferðast og fræðast
Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá Húnaflóa til Jökulfirða. Þéttbýlis- og merkisstaða innan svæðisins er sérstaklega getið hér að neðan. Strandir er…
Tröllatunga
Samkvæmt Landnámu nam Steingrímur trölli Steingrímsfjörð og bjó í Tröllatungu. Þar  var prestsetur til 1886 og kirkja til 1909, sem átti rekaítök á fi…
Veiði Strandir
Stangveiði á Ströndum. Hér er listi yfir flestar laxveiðiár og silungsár og -vötn.  Laxveiði Strandir …
Þiðriksvalladalur
Þiðriksvalladalur er vel gróinn, fagur og búsældarlegur dalur skammt vestan Hólmavíkur. Þiðreksvallavatn er 1,45 km², dýpst 47 m og í 73 m hæð yfir sj…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )