Íslenski ferðavefurinn

  • endursetja

Hólmavíkurkirkja, Strandir

Hólmavíkurkirkja

Hólmavíkurkirkja er í Hólmavíkurprestakalli í Húnavatnsprófastsdæmi. Smíði fyrstu kirkju á Hólmavík hófst 1957, en kirkjugarðurinn var vígður við kauptúnið 1938 og prestsetur hefur verið þar frá 1948. Biskup Íslands vígði kirkjuna á uppstigningardag 1968. Hun er byggð eftir teikningu Gunnars Ólafssonar arkitekts, 211 m² og 1300 m³. Gunnar lézt frá verkinu og lauk Sveinn Kjarvar, innanhússarkitekt, tekiningum og teiknaði innréttingar og búnað, nema altari og stól. Er hvort tveggja úr furu, sem öll bygging kirkjunnar innan.

Hólmavíkurkirkja er steinsteypt hús undir háu valmaþaki, að grunnformi krosskirkja, sem kallað er, þegar útbrot er á kirkjuskipi báðum megin á mörkum kirkjuskips og kórs. Fæst þar rými fyrir hitunartæki og líkhús annars vegar en skrúðhús hins vegar, hvort tveggja með sérinngangi, en kirkjudyr eru til beggja hliða á forkirkju, hentug skipan með tilliti til veðra og vindstöðu. Við rúmgóða forkirkjuna er geymsla, fatahengi og snyrting, en yfir söngloft, þar sem prýðilega rúm er um hljóðfærið, Allan 202, 36 radda með tveimur hljómborðum og fótspili, vígt á sjómannadaginn 1978. þar uppi er og töluvert sætarými, en niðri í kirkjunni ætluð um 130 sæti í stólaröðum á gulu múrsteinsgólfi. Allt um viðarlitaðar furuþiljur og loftklæðningu er kirkjusalurinn bjartur, því að 6 stórir smárúðugluggar eru á hvorri hlið. Litgler er í báðum kórgluggum.

Á predikunarstól og altari eru eirskildir til skrauts og yfir altari krosstákn en eigi tafla. Altarisdúkar eru 2, allt minningagjafir, sem hinir mörgu og góðu gripir kirkjunnar, en hún er áheita- og gjafasæl í mestan máta. Altarisstjakar eru 4 og 2 þeirra af kopar og hinir af eir. Kaleikar eru 2, forkunnarfagrir silfurgripir með patínu, annar gullhúðaður, hinn settur steinum og er hann innlend smíði.

Fontsumbúnaðurinn er af íslenzku grágrýti og furu, en skírnarlaugin leirskál, gerð af Lökken Kjarval. Ýmislegt fleira mætti hér telja í skrúða og kirkjugripum, s.s. einskertis stjaka af ónixsteini í kór og afsteypu hins fræga líkneskis Jóhannesar postula í Niðarósdómkirkju, sem prófastshjónin séra Andrés Ólafsson og Arndís Benediktsdóttir færðu kirkjunni, þegar séra Andrés Ólafsson lét af þjónustu í Hólmavíkurprestakalli 1983, en aðeins skal getið klukknanna, sem eru frá Capanni á Ítalíu. Þeim er stýrt með rafbúnaði. Ein gefur dýpsta tóninn, Sol, önnur tóninn Si, en hin þriðja Re, og er hún gjöf frá kvenfélaginu Glæðum, sem hefur styrkt kirkjuna mjög á byggingartíma og síðar. Kirkjuklukkurnar voru vígðar til kalls og keveðju á annan sunnudag eftir trinitatis 1979, sem var Jónsmessudagur.

Ferðamönnum, sem vilja skoða kirkjuna skal bent á, að prestsetrið er á Kópanesbraut 17, en lykill einnig hjá kirkjuverði.

Upplýsingar frá Hólmavíkurkirkju.

 

Myndasafn

Í grennd

Hólmavík
Hólmavík er kauptún við Steingrímsfjörð en þar er verzlunar- og þjónustumiðstöð fyrir Hornstrandir og hefur verið frá síðari hluta 19. aldar. Elzta hú…
Kirkjur á Vestfjörðum og Ströndum
Listi yfir flestar kirkjur landshlutans Álftamýrarkirkja Bíldudalskirkja Breiðavik Breiðavíkurkirkja Breiðuvíkurkirkja …
Strandir, ferðast og fræðast
Mörk þessa svæðis eru hér dregin frá Húnaflóa til Jökulfirða. Þéttbýlis- og merkisstaða innan svæðisins er sérstaklega getið hér að neðan. Strandir er…

Allar ábendingar eru velkomnar. Reynum að hafa staðreyndir eins réttar og mögulegt er.

Veldu landshluta

nat.is er upplýsinga- og ferðavefur um Ísland sem var stofnaður 1998.  Íslenska útgáfan er is.nat.is.    ( nat@nat.is )