Hlíðarendi er bær og kirkjustaður í Fljótshlíð. Katólskar kirkjur þar voru helgaðar Þórláki biskupi. Sóknin var flutt til Teigs árið 1802 og kirkjan aflögð. Árið 1896 voru kirkjurnar á Teigi og Eyvindarmúla lagðar niður og sóknirnar sameinaðar með kirkju á Hlíðarenda. Nú er þar útkirkja frá Breiðabólstað. Timburkirkjan, sem nú stendur, var byggð 1897. Hún er járnvarin og tekur 180 manns í sæti (sjá nánar undir kirkjur).
Baugur Rauðsson, sem nam Fljótshlíð, bjó á Hlíðarenda. Gunnar Hámundarson (Njálssaga) var barnabarn hans. Norðaustan bæjarins er stór hóll, sem er kallaður Gunnarshaugur, þar sem Gunnar er sagður heygður. Það stenzt þó tæplega, því að þetta er klapparhóll. Skammt frá bænum eru tóttir, sem sagðar eru rústir skála Gunnars, en það er með öllu óvíst.
Þorlákur Þórhallsson (1133-1193) hinn helgi, Skálholtsbiskup, fæddist á Hlíðarenda. Eftir nám erlendis dvaldist hann í klaustinu á Kirkjubæ á Síðu og varð síðan ábóti í Þykkvabæ í Veri og biskup í Skálholti árið 1178. Hall lagði áherzlu á að efla vald kirkjunnar og átti í miklum útistöðum við Jón Loftsson í Odda. Vegan þess, hve mjög hann vandaði líferni sitt, var hann talinn helgur maður skömmu eftir andlátið. Helgi hans varð opinber á Íslandi árið 1198 og honum voru tileinkaðar tvær messur, Þorláksmessa á sumri og vetri. Vatikanið sá ekki ástæðu til að staðfesta dýrlingshlutverk hans fyrr en skömmu fyrir heimsókn Jóhannesar Páls páfa til Íslands 1988.
Meðal mætra manna, sem bjuggu á Hlíðarenda, var Vísi-Gísli (Gísli Magnússon; 1621-1696), sýslumaður, sem lagði fyrstur manna stund á náttúrufræðinám við háskóla. Hann ruddi korn- og matjurtarækt braut á Íslandi. Kúmenið, sem vex villt í Fljótshlíð er frá honum komið. Viðleitni hans í framfaraátt var langt á undan samtíðinni. Þorleifur sonur hans (1650-1669) var efnilegur námsmaður erlendis og var stunginn til bana í Edinborg, þegar hann var 19 ára. Bjarni Thorarensen amtmaður og skáld var á Hlíðarenda á uppeldisárunum.
Þorsteinn Erlingsson, skáld, ólst upp að Hlíðarendakoti. Minnismerki um hann stendur fyrir innan Hlíðarendakots í afgirtum reit.
Fornleifarannsóknir fóru fram að Hliðarenda árið 2002, en áður hafði verið farið yfir svæðið með jarðsjá til að undirbúa uppgröft.