Húsavík er kaupstaður við innanverðan Skjálfanda að austanverðu. Fiskvinnsla og útgerð hefur verið ein af stoðum atvinnulífisins ásamt með verslun og þjónustu við nágrannasveitir. Vinnsla landbúnaðarafurða er og stór þáttur í atvinnulífinu og eru þar framleiddar landsþekktar kjöt- og mjólkurvörur. Elzta kaupfélag landsins var stofnað á Húsavík árið 1882. Hótel og önnur góð gistiaðstaða eru á staðnum og þjónusta við ferðamenn eins og hún gerist best. Hvalaskoðunarferðir frá Húsavík eru löngu þekktar hérlendis sem og víðast annars staðar í heiminum og kemur fjöldi íslenskra og erlendra ferðamanna til Húsavíkur gagngert til að skoða hvali. Árangurinn í þessum ferðum hefur orðið til þess, að bærinn er nú kallaður: „Hvalahöfuðborg heimsins”. Hvalamiðstöðin dregur til sín tugi þúsunda gesta ár hvert.
Það var á Húsavík sem talið er að sænski landnámsmaðurinn Garðar Svavarsson hafi stoppað veturinn 870. Er hann fór frá Íslandi um vorið urðu þrír skipverjar eftir og settust þar að. Það var Náttfari, ásamt þræl og ambátt. Nokkuð skiptar skoðanir eru um sannleiksgildi sagna um landnám Náttfara, enda var hans ekki getið í Íslendingabók Ara Fróða. En þó eru margir sem vilja telja hann sem fyrsta norræna landnámsmanninn á Íslandi.
Húsavík – Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga (2020)
Húsavík var heimabær tónlistarfólksins Lars (Will Ferrell) og Sigrit (Rachel McAdams) sem í kvikmyndinni Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga fengu tækilfæri lífs síns til að kynna Ísland á Eurovision. Hér má skoða sýnishorn úr myndinn á vefnum www.imdb.com.
Stutt er í eina af þekktustu laxveiðiá landsins, Laxá í Aðaldal, en einnig býðst veiði í vötnum og öðrum ám í nágrenninu. Fjölmargir áhugaverðir staðir eru í nágrenni Húsavíkur og má t.d. nefna Tjörnes, hvar finna má skeljar í berglögum vel fyrir ofan sjávarmál. Skammt er til Mývatns, Kelduhverfis, Jökulsárgljúfra og annnarra áhugaverðra staða frá Husavík.