Snæfell er hæsta staka fjall landsins, 1833 m yfir sjó. Það sést víða að og útsýnið af tindi þess er geysivítt á góðum degi. Það er nokkuð keilulaga, enda forn megineldstöð, sem hefur ekki rumskað undanfarin 10 þúsund ár. Það mun hafa myndazt síðla á ísöld og er því yngsta eldstöð Austurlands. Vegna þess, hve hátt það rís, hverfa efstu fannir þess ekki á sumrin. Það er tiltölulega auðvelt að klífa fjallið frá sæluhúsi Ferðafélagsins. Vestan Snæfells og austan Jökulsár á Brú eru Vesturöræfi og vestan hennar Brúaröræfi. Á báðum þessum öræfum eru meginstöðvar hreindýranna auk Kringilsárrana. Norðan Snæfells eru Nálhúshjúkar og sunnan þess eru Þjófahnúkar, en þaðan er gott útsýni yfir Eyjabakkasvæðið. Skemmtileg gönguleið liggur frá Snæfelli yfir Eyjabakkajökul að skála við Geldingafell og þaðan suður Lónsöræfi. Í Eyjabakkajökli eru tíðum stórkostlegir íshellar.
Nálhúshnjúkar (1210m) eru móbergstindar norðan Snæfells. Sauðafell (900m) er norðan þeirra. Í sama fjallaklasanum eru einnig Hafursfell (1089m) austast og Grábergshnjúkar (1050m) vestast. Nálhúshnjúkar sjást bezt úr byggð frá Hallormsstað. Þaðan sést ekki til Snæfells.
Þjófahnjúkar eru tindaröð sunnan Snæfells, en með því og Nálhúshnjúkum myndast samfelldur fjallgarður. Hæð Þjófahnjúka er 1100-1300 m. Þeir eru víðast snarbrattir og tæpast er þar gróður að finna. Litla-Snæfell (1160m) nefndi Þorvaldur Thoroddsen innsta hnjúkinn. Um miðja hnjúkaröðina rennur Þjófagilsá. Láglendið milli heildarfjallgarðsins og Jöklu, Vesturöræfi, er að mestu gróið alveg upp undir jökul. Sögur segja frá bústöðum útilegumanna á þessum slóðum og víst er, að oft má sjá hreindýr á þessum slóðum.
Bílfærar leiðir liggja upp úr Fljótsdal og Hrafnkelsdal að Snæfelli.
Eftir stofnun þjóðgarðsins Vatnajökuls hinn 7. júní 2008 varð Snæfell eitt aðsetra þjóðgarðsvarða..